Fara í efni
Pistlar

Geðdeild, sjálfshjálparnámskeið eða dómssalur?

Hugleiðingar um mennsku og hið raunverulega andlit mannanna hringsóla um tilveruna þessa dagana. Ég hef oft verið þögul í lengri eða skemmri tíma, vegna ígrundunar og skilningsleitar á viðfangsefninu, og nú er einmitt slíkur tími. Kveikjurnar að þessu sinni eru þrír menningarviðburðir sem ég sótti á síðustu dögum, sem allir fjalla um mennina, tilveru þeirra, litróf og sálarlíf.

Fyrst fór ég á frumsýningu á Gaukshreiðrinu í Freyvangsleikhúsinu. Verkið er amerískt, skrifað á sjöunda áratug síðustu aldar, eftir samnefndri bók rithöfundarins Ken Kesey. Gaukshreiðrið gerist á geðspítala, lokaðri deild þar sem vistmenn mæta litlum skilningi og sífellt liggur í loftinu ógnin um hræðilegar meðferðir sem gjarnan var beitt á geðsjúkt fólk hér áður fyrr. Til dæmis raflostmeðferðir og blaðskurður, eða lobotómía. Þó að þessi veruleiki sé víðsfjarri í dag, er hugmyndin um það að bæla niður fólk sem passar ekki inn í “normið” og jafnvel skjóta því undan samfélaginu, oft óþægilega nærri.

Grímurnar tvær sem einkenna leikhúsið, ein brosandi og ein sorgmædd, áttu vel við Gaukshreiðrið. Eina stundina hló allur salurinn, en þá næstu var dauðaþögn og tilfinningaskalinn áþreifanlegur. Oft var einn og einn sem skellihló þrátt fyrir óþægilegan og óviðeigandi textann, það er erfitt að átta sig á því hvernig manni á að líða þegar eitthvað er svo innilega rangt gagnvart siðferðiskenndinni, en samt svo kómískt á sama tíma. Svo er þetta bara leikhús, ekki satt? Bara sýning. Skáldskapur.

Vistmenn á geðdeildinni í Gaukshreiðrinu. Leikarar f.v. Hallur Örn Guðjónsson, Stefán Guðlaugsson, Svavar Máni, Helgi Þórsson og Sindri Swan. Mynd: Hilmar Friðjónsson/Freyvangsleikhúsið

Næst fór ég á generalprufu á ‘And Björk of course’ hjá Leikfélagi Akureyrar. Ég vissi nokkurn vegin hvað verkið fjallar um, en gat á engan hátt verið undirbúin undir það sem beið mín í Samkomuhúsinu. Þar voru grímur leikhússins aldeilis í valdabaráttu, jafnvel enn frekar en í Freyvangi.

Ég vissi að ég myndi fylgjast með sjálfshjálparnámskeiði hjá sjö ólíkum einstaklingum, einhverskonar gerviheilun, eins og leikstjóri verksins kallaði það í viðtali sem ég tók við hana sjálf. Verkið fjallar að mörgu leyti um það hvernig manneskjan setur sjálfa sig á svið, bæði gagnvart umheiminum og sjálfri sér. Hver er ég og hvað vil ég að þið sjáið þegar þið horfið á mig? Hvernig lítur það út ef ég kafa ofan í sjálfið mitt og veiði upp mínar dýpstu og dimmustu verur? Hvað myndu þær segja ef þær slyppu út?

Í grunninn fannst mér sýningin vera einskonar gallerí fyrir breyskleika og myrkur manneskjunnar. En þrátt fyrir það var alltaf einhver sólarglæta sem tengdi saman fólkið á sviðinu, og áhorfendur. Stundum leið mér eins og ég kannaðist innilega við aðstæður, hvort sem ég ætti að skammast mín fyrir það eða ekki. Stundum leið mér eins og ég væri að horfa á einhvern sirkus og stundum langaði mig bókstaflega að hverfa ofan nammipokann hjá sessunauti mínum, svo óþægilegar voru aðstæðurnar. En sama hversu ógeðfelldar og sorglegar tuskurnar voru, sem slógu mig í andlitið, vissi ég alltaf innst inni að einhversstaðar, einhverntíman, hefði þetta getað átt sér stað í samfélagi mannanna. Við erum til á svo breiðu litrófi tilfinninga, gjörða og samskipta. Allt frá kolbikasvörtu, upp í hið hreinasta og tærasta hvítt.

Að líta undan því, að myrkur finnist innra með okkur öllum, er einfaldlega að loka augunum. Það eyðir ekki myrkrinu, heldur nærir það og stækkar. Þess vegna mæli ég með því að fara á sýninguna og leyfa frábærum leikurum og snilldarlegu handriti Þorvalds Þorsteinssonar að hrista þig til.

Hópefli á sjálfshjálparnámskeiðinu í 'And Björk, of course'. Leikarar f.v. Sverrir Þór Sverrisson, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Urður Bergsdóttir, Jón Gnarr og Eygló Hilmarsdóttir. Mynd: Auðunn Níelsson/Leikfélag Akureyrar

Þriðja, og síðasta sýningin sem ég upplifði undanfarna daga, sem blandaði sér mjúklega saman við hugargrautinn sem Ken Kesey og Þorvaldur Þorsteins höfðu mallað í höfðinu á mér, var kvikmyndin Anatomie d'une chute, sem kallast ‘Fallið er hátt’ á íslensku. Myndin er frönsk, leikstýrð af Justine Triet, en hún skrifaði handritið sjálf ásamt eiginmanni sínum. Myndin vann Gullpálmann og er tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna, meðal annars fyrir bestu myndina og besta handritið.

Myndin er hluti af franskri kvikmyndahátíð sem Akureyrarbær býður upp á um þessar mundir, í samstarfi við Bíó Paradís og Sambíóin*. Sagan fjallar um konu, farsælan rithöfund, sem missir eiginmann sinn á hræðilegan hátt. Hann fellur niður um glugga á þriðju hæð í húsi þeirra og fallið drepur hann samstundis. Áhorfendur fá ekki að vita hvernig fallið kemur til, en konan er ákærð fyrir mögulegt morð. Við fylgjum dómsmáli þar sem kafað er ofan í samband hjónanna, til þess að hægt sé að skera úr um það hvort að morð hafi verið framið, eða hvort að sjálfsvíg hafi átt sér stað.

Allt það ljótasta úr tilveru þessa einstaklinga er dregið, hrátt og blóðugt, inn á gólf dómssalarins. Reynt er að ákveða hvort þeirra var líklegra til þess að enda líf mannsins. Hún eða hann sjálfur. Á einhverju undarlegu sviði réttvísinnar á ókunnugt fólk að skera úr um það, þar sem sönnunargögn skortir algjörlega.

Það gildir kannski einu, hvað sviðið heitir. Hvort sem það er geðdeild, sjálfshjálparnámskeið eða dómssalur. Eða eitthvað allt annað. Þegar gríman fellur, og manneskjan stendur kviknakin og berskjölduð, er ekki alltaf fagra sjón að sjá. En við þurfum að horfa, við þurfum að kíkja og opna. Takast á við það sem við finnum, kynnast því og faðma það, vegna þess að mennskan er ekki bara gríman sem brosir, hin er alltaf þarna líka.

Guði sé lof fyrir listina; leikhúsið, kvikmyndina, málverkið, ritverkið, ljóðið, dansinn, tónlistina, gjörninginn og allt hitt. Vonandi verður listin alltaf til, til þess að ýta við okkur, sprengja gröftinn úr bólunum og gefa okkur von. Hjálpa okkur að finna til með hvort öðru, skilja hvort annað og okkur sjálf. 

*Franska kvikmyndahátíðin er haldin í samstarfi við Bíó Paradís og Sambíóin. Skipulögð af sendiráði Frakklands á Íslandi, Alliance Francaise de Reykjavík, Institut Francais, Truenorth og Akureyrarbæ

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00