Fara í efni
Pistlar

Fyrr og nú við vatnsleiðslu

TRÉ VIKUNNAR - LXXXVII

Sá merki áfangi varð árið 1977 að stofnuð var hitaveita á Akureyri sem enn starfar. Til að veita Akureyringum yl er vatn leitt með stórri pípu frá borholu á Laugalandi. Ekki voru allir á eitt sáttir með fegurðargildi þessarar löngu pípu. Frægt var á sínum tíma þegar einum bónda þótti vera helst til mikið rót við lagningu leiðslunnar. Setti hann upp skilti sem á stóð: „Norðurverk HF á þessa drullu“. Verktakafyrirtækið Norðurverk er ekki lengur starfandi, en leiðslan er hér enn.

 

Mynd 1. Skógarnir, sem gróðursettir voru til að bæta umhverfi heitavatnsleiðslunnar, eru fjölbreyttir og fallegir. Mynd: Sig.A.

Þetta sama ár, 1977 gerði Skógræktarfélagið samning við Hitaveitu Akureyrar (sem nú heitir Norðurorka) um að planta í nágrenni leiðslunnar til að milda umhverfisáhrifin. Þá var Franz Árnason forstjóri hitaveitunnar. Hann var mikill áhugamaður um skógrækt og studdu vel við bakið á SE. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins var Hallgrímur Indriðason og stýrði verkinu, ásamt sínu fólki, á umráðasvæði félagsins. Samningur milli Skógræktarfélagsins og Hitaveitunnar kvað á um að félagið plantaði í Brekkurnar innan við Gömlu Gróðrarstöðina. Má jafnvel segja að við þessar framkvæmdir hafi Bæjarbrekkurnar lengst minnsta kosti inn að Brunná.
 

Á þessum tíma var Árni Steinar Jóhannsson garðyrkjustjóri Akureyrarbæjar og studdi hann verkefnið með ráðum og dáð. Starfsmenn hans sáu um gróðursetningar í því landi bæjarins sem Skógræktarfélagið hafði ekki í sinni umsjá. Sjálfsagt var það samt áður nefndur Hallgrímur sem hafði mest áhrif á verkið í heild.

 

Mynd 2. Blómstrandi heggur í skógarjaðrinum. Sjá má í leiðsluna fyrir miðri mynd. Sumum þótti einkennilegt á sínum tíma að bæði var gróðursett ofan og neðan við leiðsluna. Ef markmiðið var eingöngu að hylja leiðsluna frá þjóðveginum hjálpar lítið að planta ofan við leiðslurnar. Aftur á móti gerir þessi skógur allt umhverfið vistlegra. Það er göfugt markmið. Mynd: Sig.A.

Í myndasafni Skógræktarfélags Eyfirðinga er til töluvert af gömlum litskyggnum. Þar á meðal eru myndir sem teknar voru við þessa stóru heitavatnslögn árið 1981. Fróðlegt er að skoða þessar myndir og bera þær saman við myndir sem nýlega voru teknar á sömu stöðum, eða því sem næst. Þá má skoða hversu vel hefur tekist til með að bæta umhverfi vatnsleiðslunnar án þess að hylja hana alveg.

Það var fyrrum formaður Skógræktarfélagsins, Ólafur Thoroddsen, sem skannaði myndirnar á rafrænt form. Nýrri myndirnar tók Sigurður Arnarson en Bergsveinn Þórsson leiddi hann að þeim stöðum þar sem eldri myndirnar voru teknar. Að auki veittu þeir félagar, Bergsveinn Þórsson og Ingólfur Jóhannsson mikilvægar upplýsingar sem finna má í pistlinum. Við merkjum myndirnar í þessum pistli með númerum og bókstöfum til að auðvelt sé að bera myndirnar saman. Myndir af sama viðfangsefni hafa sama númer en mismunandi bókstafi.

 

Mynd 3a. Þarna liggur lögnin ofan við sjoppu sem gekk undir nafninu Ingvanesti. Þarna fékk núverandi framkvæmdastjóri SE sinn fyrsta hamborgara er hann var 15 ára gamall. Önnur sjoppa var á flötinni framan við húsið sem nú hýsir Iðnaðarsafnið. Þar voru þá höfuðstöðvar Garðyrkjudeildar Akureyrarbæjar. Svæðið heitir Krókeyri og var sjoppan kennd við hana og kölluð Krókeyrarnesti. Þetta var áður en Leiruvegurinn var gerður. Þá tók Leirunesti við hlutverkinu. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 3b. Nú lítur þetta svona út. Miklar breytingar eins og sjá má. Þá erum við ekki að tala um að búið sé að malbika veginn og setja upp vegstikur. Ekki er lengur rekin sjoppa í húsinu, heldur hefur bílaleigan Hertz það til umráða. Breytingarnar á umhverfinu eru hreint ótrúlegar. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 4a. Hér er horft til Ingvanestis úr brekkunni sem nú er skógi vaxin. Sjá má að á þessum tíma náði malbikið að sjoppunni. Jók það mjög á áhuga ungmenna úr Eyjafirði að koma þarna við. Einkum átti það við um skellinöðrueigendur. Þeim þótti mikið á sig leggjandi til að prufa vélfáka sína á bundnu slitlagi. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 4b. Ekki er hægt að taka mynd úr þéttum skóginum í átt að húsinu. Þess í stað tókum við þessa mynd sem sýnir ljósastaurana við húsið og þennan fjölbreytta og fallega skóg sem nú vex þarna. Enn má greina vatnsleiðsluna. Þarna er horft nokkurn vegin í átt að staðnum þar sem fyrri myndin var tekin. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 5a. Þarna er lítill lækur á myndinni og í baksýn má sjá bæinn Mela. Við teljum að myndin hafi verið tekin frá vatnsleiðslunni og teljum okkur vita hvaða lækur þetta er. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 5b. Þarna er vaxinn upp mikill skógur við lækinn. Grenið er þarna og hefur vaxið mikið. Það sést samt ekki vel á myndinni því yngri alaskaösp er þar fyrir framan og hefur vaxið enn meira. Lægri runnagróður er við lækinn. Þar á meðal er sami gulvíðirunninn og sjá má á fyrri myndinni. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 6a. Hér er horft inn Eyjafjörðinn eftir vatnsleiðslunni. Myndin er tekin úr Kjarnaskógi. Þarna er nú gróskumikill birkiskógur. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 6b. Samanburðarmyndin er tekin af hinum nýja hjólastíg sem liggur inn að Hrafnagili. Sá stígur er nokkurn vegin á sama stað og vegurinn á fyrri myndinni sem var færður fjær rörunum. Sjá má að fjöllin eru þau sömu, þótt sjónarhornið sé annað. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 7a. Þessi mynd er tekin við girðinguna í kringum Kjarnaskóg. Því er nokkuð auðvelt að finna þennan stað. Ekki er að sjá neitt birki sunnan við girðinguna. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 7b. Hér hafa orðið töluverðar breytingar frá árinu 1981. Girðingin hefur verið endurnýjuð og má sjá hornstaurinn á móts við rörið lengst til hægri. Síðan hefur girðingin verið tekin niður nema hvað hornstaurinn er þarna enn. Nú er sprottinn upp sjálfsáinn birkiskógur sunnan við gömlu girðinguna sem náð hefur hinum plantaða skógi í hæð eins og sjá má. Svo er þarna lúpína sem lífgar upp á umhverfið. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 8a. Horft eftir gamla veginum sem var nær leiðslunni en sá nýi. Þarna sést í sama trjáreit og á myndinni hér að ofan. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 8b. Svipað sjónarhorn og hér að ofan. Birkið hefur sáð sér sjálft í sárin eftir jarðvinnuna og blómlegt graslendi er þarna líka. Nú liggur hjólastígurinn þar sem vegurinn lá áður. Þess vegna má sjá fólk á gangi þar sem bíllinn er á efri myndinni. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 9a. Þetta eru gatnamótin á móts við veginn sem liggur að gömlu brúnni yfir Eyjafjarðará. Hún hefur nú verið færð inn fyrir Hrafnagil. Grenið, sem er fremst til vinstri er eldra en annar trjágróður á svæðinu. Það er sitkabastarður sem var gróðursettur á 100 ára afmæli Akureyrarbæjar árið 1962. Þarna eru trén því tveggja áratuga gömul. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 9b. Svona líta þessi sömu gatnamót út í dag. Trjáræktin er heldur betur farin að setja svip á umhverfið. Sjá má að birkið er dálítið brúnt eftir plágu af birkikembu sem étur laufið. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 9c. Sitkabastarðurinn frá 1962 hefur sprett úr spori frá því að myndin frá gatnamótunum var tekin árið 1981. Mynd: Sig.A.

 

Mynd 10a. Á þessari mynd er horft yfir efnilegar furur í átt að flugvellinum. Efst til vinstri sést í hitaveituæðina. Við hana er stígur sem nú er nýttur af hestamönnum en hægt er að aka hann þegar þörf er á viðhaldi lagnarinnar. Handan við furuna sést í greni en á milli furunnar og grenisins er svo rýrt land að þar virðist engu hafa verið plantað. Mynd úr safni SE.

 

Mynd 10b. Ekki reyndum við að taka mynd úr furuskóginum. Aftur á móti var auðvelt að fara eftir reiðstígnum við leiðsluna að staðnum á milli grenisins og furunnar, þar sem engar trjáplöntur sjást á fyrri myndinni. Þar er þessi mynd tekin í sömu átt og fyrri myndin. Fremst stendur lerki sem vex vel í rýru landi. Að auki hefur birki og víðir náð að vaxa þarna upp eftir að beit lagðist af. Mynd: Sig.A.

Litli reiturinn austan vegar
 

Rétt utan við veginn að Akureyrarflugvelli er snotur trjálundur þar sem stafafura er mest áberandi. Í gegn um reitinn liggur göngu- og hjólastígur. Þar er fólk í skjóli frá umferðinni á þjóðveginum og við stíginn rennur lítil og hugguleg kvísl úr ánni. Í þennan litla, snotra reit var plantað á vegum Akureyrarbæjar á sama tíma og plantað var við hitaveitulögnina. Það væri full ástæða til að þakka landslagsarkitektinum sem sá til þess að þetta var gert, ef svo væri raunin. Svo er ekki. Reiturinn á sér aðra sögu.

 

Mynd 11. Þarna liggur þjóðvegurinn í gegnum skóg. Trjám var plantað beggja vegna við hann í tengslum við lagningu heitavatnslagnar til Akureyrar. Mynd: Sig.A.

Þannig var að ungur og óreyndur verkstjóri stýrði vinnuflokki við að planta í kringum vatnsrörið. Þessi sami verkstjóri er nú framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins og heitir Ingólfur Jóhannsson. Eitt sinn keyrði hann með flokk sinn frá höfuðstöðvum Garðyrkjudeildar Akureyrarbæjar. Eins og áður segir voru þær á þessum tíma þar sem Iðnaðarsafnið er nú. Verkstjórinn var með lið sitt og fullan pall af plöntum. Hann var ekki alveg með það á tæru hvar ætti að planta og keyrði aðeins of langt og snéri þá við. Þegar hann kom á þennan stað, sem hann taldi vera rétta staðinn, þá hringdi hann í yfirmann sinn og spurði hvar hann ætti að planta þessu. Yfirmaðurinn var enginn annar en Eiríkur Bóasson. Hann var á þessum tíma garðyrkjuverkstjóri Akureyrarbæjar. Þegar Eiríkur var þess fullviss að verkstjórinn væri á réttum stað sagði hann: „Þú plantar þessu hægra megin við veginn“. Það gerði sá óreyndi en bíllinn snéri öðruvísi en yfirmaðurinn hélt. Þess vegna er þessi fallegi furureitur austan við veginn, víðsfjarri heitavatnslögninni sem honum var ætlað að fela.

 
 

Mynd 12. Horft til suðurs. Ef bíll verkstjórans hefði snúið eins og myndasmiðurinn, þegar sá fyrrnefndi spurði hvar ætti að planta, væri þarna enginn skógarreitur. Meira að segja kettirnir nota þennan fína stíg. Mynd: Sig.A.

Þess ber að geta að Eiríkur var af Suðurnesjum en ekki heimamaður. Það sést á því að heimamenn nota helst ekki hugtökin hægri og vinstri þótt þeir kannist við þau þegar þeir heyra þau. Þetta kann að vera helsta ástæða takmarkaðrar stefnuljósanotkunar í bænum. Þau blikka bara annaðhvort til hægri eða vinstri en ekki í norður, suður, austur eða vestur. Því eru þau vitanlega alveg gagnslaus og gætu valdið misskilningi eins og sést á þessari litlu dæmisögu um stafafurureitinn á móts við flugstöðina.

Af þessari sögu má læra að ef þér, lesandi góður, finnst að starf þitt sé tilgangslaust með öllu máttu hugsa til þess að einhvers staðar úti í hinum stóra heimi er til fólk sem vinnur við að setja stefnuljós í bíla sem síðan eru seldir til Akureyrar.

 

Mynd 13. Göngustígurinn er hinn huggulegasti og hægt er að fá sér sæti í skjóli trjánna. Litlu staurarnir, sem sjást á myndinni eru úr lerki úr Kjarnaskógi. 100 svona litlir ljósastaurar hafa nú verið afhentir Akureyrarbæ. Þeir munu varða gönguleiðina frá Leirunesti að Vaðlaskógi. Mynd: Sig.A

Þakkir
 
Starfsmenn Skógræktarfélagsins, þeir Bergsveinn Þórsson og Ingólfur Jóhannsson muna þá tíð þegar eldri myndirnar voru teknar. Þeir veittu flestar þær upplýsingar sem er að finna í textanum. Fyrir það eiga þeir miklar þakkir skyldar. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir las textann yfir í handriti og færði margt til betri vegar.

 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum, en pistill dagsins er hér birtur í heild.

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30