Fuglaskógar
TRÉ VIKUNNAR - XCVII
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli sama daga til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Eitt af því sem laðar margan manninn í skóga landsins eru skógarfuglarnir. Í þessari grein verður auðvitað minnst á fugla, en kastljósinu er beint að trjánum og hvaða tré henta fuglum best og af hverju. Þetta getur verið gott að hafa í huga við skipulag skóga, til dæmis við sumarbústaðalönd, ef markmiðið er að laða að skógarfugla. Rétt er þó að taka það fram að auðvitað eru fuglar í öllum skógum, en sum tré laða að sér fleiri fugla og fuglategundir en önnur. Skógar veita skjól og fæðu sem hentar fuglum prýðilega og sumar tegundir fugla væru ekki hér á landi ef ekki væri fyrir skóga. Eftir því sem skógarnir eru fjölbreyttari, þeim mun meira fuglalíf má vænta að finnist í þeim.
Þetta er fyrsti pistill okkar um fugla og skóga. Í framhaldinu verður full ástæða er til birta pistla um einstakar fuglategundir í skógum. Við munum koma því í verk í fyllingu tímans. Í þeim munum við birta myndir sem Sigurður H. Ringsted hefur tekið. Viljum við hér nota tækifærið og færa honum okkar bestu þakkir fyrir samstarfið. Vel getur hugsast að fleiri láni okkur myndir í slíka pistla og við viljum einnig þakka þeim.
Auðnutittlingur hefur öldum saman verið í íslenskum birkiskógum. Hann fagnar aukinni skógrækt. Hér er hann í lerkitré, enda hefur hann lært að éta lerkifræ. Það má einmitt sjá lerkiköngul undir fuglinum á myndinni. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Lykilatriði
Þrjár tegundir fugla, sem hafa verið öldum saman á Íslandi, eru háðar trjám og skógum. Það eru skógarþröstur, músarrindill, Troglodytes troglodytes, og auðnutittlingur, Carduelis flammea. Stofnar þessara tegunda fara stöðugt stækkandi vegna skógræktar, aukinnar trjáræktar í görðum og vegna beitarfriðunar sumra náttúrulegra birkiskóga (Einar og Jóhann 2002). Rannsóknir hafa sýnt að almennt er fjöldi varpfugla til muna meiri í skógum en á opnum svæðum. Sjá til dæmis hér (Ólafur 2003). Aðrir fuglar en dæmigerðir skógarfuglar sækja einnig í skóga og nýlegir landnemar treysta á skóga sér til viðurværis. Þegar kemur að sambýli fugla og skóga má segja að þrjú atriði skipti mestu máli. Það eru skjól, hreiðurstæði og fæða. Ef til vill má bæta fjórða atriðinu við sem gæti verið útsýnissvæði. Í næstu köflum fjöllum við nánar um þessa þætti og margt annað sem skiptir máli í þessu sambandi. Rétt er einnig að nefna, áður en lengra er haldið, að flestir þeir fuglar, sem sækja sér fæðu í garða, eru í raun skógarfuglar. Það merkir að það sem hér er sagt um skógarfugla á fullt eins við um fugla í görðum landsmanna.