Fara í efni
Menning

Viltu koma og syngja í eitt sumar á Akureyri?

Ung í Reykjavík – Finnur Eydal og Helena Eyjólfsdóttir fljótlega eftir að þau kynntust.

TÓNDÆMI – 13

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Helena Eyjólfsdóttir var lengi ein helsta dægurlagasöngkona landsins. Hún kynntist ung Finni Eydal, þau urðu lífsförunautar og samstarfsmenn í tónlistinni, lengst af á Akureyri.

Helena var barnastjarna, fædd og uppalin í Reykjavík. Hún söng fyrst opinberlega níu ára gömul, við undirleik Guðrúnar Pálsdóttur, söngkennara í Melaskólanum, en á þeim tíma var Helena nýbyrjuð í söngtímum hjá henni.

Haustið 1953, þegar Helena var 11 ára, söng hún í fyrsta skipti inn á plötu – Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt, fyrir Tage Ammendrup sem hafði stofnað hljómplötuútgáfuna Íslenzka tóna. Hún kom fram hér og þar en fjáröflunartónleikar Sambands íslenskra berklasjúklinga, SÍBS, mörkuðu þáttaskil að hennar sögn. Þar söng Helena með Hljómsveit Gunnars Ormslev, sem hitaði upp fyrir Tony Crombie and his Rockets frá London í Austurbæjarbíói 1. maí 1957. Þar kom hún í fyrsta skipti fram sem dægurlagasöngkona, 15 ára. Halda átti tvenna tónleika en rokkið sló í gegn; vinsældirnar urðu slíkar að tónlistarfólkið kom fram átta kvöld í röð og tónleikarnir urðu fjórtan.

Helena Eyjólfsdóttir syngur 15 ára á skemmtun í Skátaheimilinu í Reykjavík. Það er Ólafur Kristjánsson sem leikur á harmonikuna.

Guðrún Pálsdóttir var systir Hreins óperusöngvara, og bjó á Sjafnargötu 14 ásamt dóttur sinni, Bríeti, leikkonu. „Þangað sótti ég tíma til hennar, tvisvar í viku, í þrjá vetur,“ segir Helena í ævisögu sinni. Eiginmaður Guðrúnar, Héðinn Valdimarsson, forstjóri, verkalýðsleiðtogi og alþingismaður, var þá nýlega látinn.

„Frá tólf ára aldri vildi Guðrún að ég hvíldi röddina í nokkur ár meðan hún væri að mótast og þroskast en tæki síðan upp þráðinn á nýjan leik í klassískum söng. Af því varð þó aldrei. Hugur minn stefndi annað.“

Eftir að faðir Helenu lést var hún vist á Akureyri, 11 ára gömul sumarið 1953, hjá Ágústi föðurbróður sínum og Helgu Vigfúsdóttir, foreldrum Kennedy-bræðranna, sem svo eru kallaðir. Hún passaði yngsta soninn, Eyjólf, sem var tveggja ára, og var alsæl með dvölina. Þegar hún sneri suður um haustið hét hún sjálfri sér því að fara einhvern tíma norður aftur. Hún stóð sannarlega við það og hefur nú búið á Akureyri í áratugi.

Þegar Helena kom fram með Hljómsveit Svavars Gests á árshátíð Málarameistarafélags Reykjavíkur í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll haustið 1957, var í hljómsveitinni ungur klarínett- og baritónsaxafónleikari frá Akureyri, sem Helena mundi eftir að hafa séð í Allanum á Akureyri sumarið áður. Þótt ungar væru að árum leyfði afi bestu vinkonu Helenu, sem rak Allann á þessum tíma, stelpunum stundum að fara inn bakdyramegin, í eldhúsið, „til þess að gægjast sem snöggvast fram í sal,“ segir í ævisögu Helenu. Afinn var Steingrímur Eggertsson en vinkonan Edda Þorsteinsdóttir.

Ung í Reykjavík – Finnur Eydal og Helena Eyjólfsdóttir fljótlega eftir að þau kynntust.

Daginn eftir árshátíð málarameistaranna spurði Finnur hvort hún gæti hugsað sér að koma norður og syngja með hljómsveit þeirra bræðra næsta sumar og hún segist hafa samþykkt tilboðið án umhugsunar.

Vorið 1958 tróð Helena upp á dansleikjum með hljómsveit José Riba og starfaði með honum fram í júlí. „Hljómsveit José Riba var fyrsta hljómsveitin sem ég söng með á dansleikjum. Riba var mér einstaklega góður og lagði mikið á sig til þess að kenna mér spænsk lög og segja mér frá innihaldi textanna þannig að ég ætti auðveldara með að túlka þá í söngnum. Þá kenndi hann mér á hin ýmsu hristuhljóðfæri sem hafa fylgt mér alla tíð.“

Riba hafði búið á Akureyri um tíma; flutti þangað frá Spáni árið 1950 með íslenskri eiginkonu sinni, Maju Ólafsson, og tveimur sonum. Maju kynntist Riba þegar hann fór í ævintýraferð til Íslands árið 1933 og lék um tíma með félögum sínum í Reykjavík. Riba kenndi við Tónlistarskólann á Akureyri á fiðlu, klarinett og saxófón og setti auk þess saman hljómsveit sem lék á Hótel KEA. Riba og fjölskylda fluttu til Reykjavíkur 1953.

Hljómsveit Páls Helgasonar sem Helena söng með fyrsta veturinn eftir að þau Finnur fluttu norður 1966. Frá vinstri: Helena, Reynir Jónsson, Páll Helgason, Júlíus Fossborg og Þorsteinn Kjartansson.

Eftir að hafa leikið með hljómsveit Riba fram í júlí 1958 hélt Helena norður, þar sem hún söng með Atlantic kvartettinum allt að fimm sinnum í viku.

Veturinn 1958 til 1959 léku Helena og Finnur bæði í danshljómsveitum í miðbæ Reykjavíkur; hann með Svavari Gests á Hótel Borg en hún með hljómsveit Gunnars Ormslev í Framsóknarhúsinu.

Finnur og Helena bjuggu meira og minna í Reykjavík næstu árin en fluttu norður snemma árs 1966 þegar Finni bauðst að koma í hljómsveit bróður síns og ári síðar var Helena orðinn hluti af hópnum.

Þegar Erla Stefánsdóttir, sem hafði verið söngkona Hljómsveitar Ingimars Eydal síðan haustið 1965, varð ólétt bauðst Helenu að taka hennar sæti og þáði. „Fyrsta kvöldið mitt í Sjálfstæðishúsinu var 6. apríl 1967. Ég get ekki neitað því að mér fannst svolítið erfitt að koma inn í hljómsveitina. Erla var afar vinsæl söngkona og það voru ekki allir gestir Sjálfstæðishússins sáttir við að ég kæmi í hennar stað og jafnvel nokkrir úr starfsliði þess. Fólk saknaði Erlu, sem ég skildi vel, enda frábær söngkona og persónuleiki. Ég þurfti því virkilega að sanna mig. En þetta kom fljótt og ég fann ekki annað en fólk væri bærilega sátt við mig eftir nokkrar vikur. Við Þorvaldur náðum strax vel saman í söngnum og ég féll því ágætlega inn í hljómsveitina.“