Gígjurnar voru mjög vinsælar um árabil

TÓNDÆMI – 17
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Söngfjelagið Gígja var stofnað á Akureyri laust fyrir aldamótin 1900 af Magnúsi organista, blandaður kór sem starfaði í nokkur ár. Áratugum síðar, í febrúar 1967, var kvennakór með sama nafni – að vísu með greini, Gígjan – stofnaður og var aðalhvatamaður að því Sigurður Demetz Franzson, sem var þá nýkominn til starfa sem söngkennari við Tónlistarskólann á Akureyri.
Jakob Tryggvason, skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri var organisti Akureyrarkirkju og tók Demetz að sér að kenna kórfélögum söng. Margar konur voru í þeim hópi og höfðu á orði að gaman yrði að stofna kvennakór. Beið hann þá ekki heldur var blásið til fundar þar sem mættu um 50 konur og kór var stofnaður – Söngfélagið Gígjan.
Jakob stjórnaði kórnum alla tíð, að einu ári undanskildu þegar Michael Jón Clarke var við stjórnvölinn, en Demetz raddþjálfaði, og einnig hélt kórinn raddþjálfunarnámskeið þar sem Sigríður Ella Magnúsdóttir og Hanna Bjarnadóttir kenndu. Kórinn hélt reglulega tónleika á Akureyri og voru þeir viðburðir mjög vinsælir meðal íbúa og jafnan fullt út úr dyrum. Kórinn fékk jafnan góða dóma og þá var raddþjálfara og kórstjóra hrósað í hástert fyrir agaða framkomu og vel þjálfaðar raddir. Kórinn söng ávallt í fjórum röddum.
UPPHAFIÐFyrstu tónleikar Gígjunnar í apríl 1968. Aftasta röð, frá vinstri: Margrét Magnúsdóttir, Helga Alfreðsdóttir, Hrönn Björnsdóttir, Gisela Bjarnason, Halldóra Þórhallsdóttir, Guðrún Adólfsdóttir, Kolbrún Kristjánsdóttir, Ása Ingólfsdóttir, Björg Þórðardóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Ester Randversdóttir, Svanhildur Leósdóttir og Málmfríður Þorláksdóttir. Miðröð, frá vinstri: Guðlaug Hermannsdóttir, Hildur María Hansdóttir, Sigurlaug Jóhannsdóttir, Björg Baldvinsdóttir, Gunnborg Kristinsson, Kristjana Jónsdóttir, Halldóra Egilsdóttir, Sigrún Bjarnadóttir, Anna Jónsdóttir, Ingunn Kristjánsdóttir og Matthildur Sigurlaugardóttir. Fremsta röð, frá vinstri: Petrína Eldjárn, Lilja Hallgrímsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Áslaug Sigurðardóttir, Lilja Guðbjörg Magnúsdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir, Ólöf Valgerður Jónasdóttir, Þorbjörg Jóhannesdóttir, Hólmfríður Jónsdóttir og Fanney Oddgeirsdóttir. Sitjandi, frá vinstri, Jakob Tryggvason, stjórnandi, Þorgerður Eiríksdóttir, undirleikari og Sigurður Demetz, raddþjálfari.
Fyrst heyrðist í kórnum opinberlega 17. júní 1967 og þótti hann glæsilegur á hátíðarsviðinu á Ráðhústorgi, þar sem konurnar komu allar fram í íslenskum þjóðbúningum. Fyrstu tónleikana hélt kórinn ekki fyrr en árið eftir, þriðjudagskvöldið 2. apríl 1968 í Sjallanum og komst færri að en vildu þannig að tónleikarnir voru endurteknir næsta laugardag.
14 ára undirleikari
Einsöngvari á fyrstu tónleikunum var Lilja Hallgrímsdóttir en oftast voru í því hlutverki Björg Baldvinsdóttir, kunn söng- og leikkona í bænum til áratuga, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Helga Alfreðsdóttir. Fyrsti undirleikari kórsins var Þorgerður Eiríksdóttir, þá enn aðeins 14 ára, stórefnilegur nemandi við Tónlistarskólann á Akureyri, en hún lést af slysförum aðeins 18 ára að aldri í London, þar sem hún var við framhaldsnám í píanóleik.
- Vert er að nefna að í kvöld fara fram tónleikar á vegum Þorgerðarsjóðs í Hofi. Þar koma fram nemendur á framhaldsstigi. Sjóðurinn, sem stofnaður var í minningu Þorgerðar Eiríksdóttur, styrkir til framhaldsnáms efnilega nemendur sem lokið hafa burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri.
LOKATÓNLEIKARNIR
Söngfélagið Gígjan á lokatónleikunum 1984. Efsta röð frá vinstri: Anna María Jóhannsdóttir, Helga Ingólfsdóttir, Arndís Sigurpálsdóttir, Björg Baldvinsdóttir, Matthildur Sigurlaugardóttir, Guðrún Ingólfsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir, Geirlaug Sigurjónsdóttir, Helga Arngrímsdóttir, Svanhildur Rósa Leósdóttir, Laufey Pálmadóttir. Miðröð f.v.: Helga Alfreðsdóttir, Anna Þorsteinsdóttir, Petrína Eldjárn, Arnheiður Eyþórsdóttir, Ásta Alfreðsdóttir, Þórdís Jónsdóttir, Kolbrún Kristjánsdóttir, Vilborg Guðmundsdóttir, Anna Hermannsdóttir, Jónína Marteinsdóttir, Hólmfríður Jónsdóttir. Fremsta röð f.v: Áslaug Sigurðardóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Sigrún Arngrímsdóttir, Kristín Alfreðsdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Dýrleif Bjarnadóttir undirleikari, Jakob Tryggvason, Lilja Sigurðardóttir, Sigríður Guðmundsdóttir Schiöth, Þorbjörg Jóhannesdóttir, Ólöf Jónasdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir, Fanney Oddgeirsdóttir.
Jakob Tryggvason hætti störfum 1984 og var þá ákveðið að kórinn tæki sér frí, en átti ekki afturkvæmt. „Á undanförnum árum hefur reynst æ erfiðara að halda kórnum starfandi á þann hátt sem við vildum. Ýmislegt var þar til og má þar einna helst nefna aukna útivinnu kórfélaga. Þegar Gígjan var stofnuð 1967 var aðaluppistaðan húsmæður og voru þær þá miklu færri sem unnu utan heimilis, en nú var svo komið að við vorum allar, hver einasta, meira og minna útivinnandi og þar af leiðandi í tvöfaldri vinnu, því varð kórstarfið óhjákvæmilega útundan að einhverju leyti,“ sagði Gunnfríður Hreiðarsdóttir, formaður Gígjunnar, í fréttabréfi Menningarsamtaka Norðlendinga árið 1986, þegar endanlega var ákveðið að leggja kórinn niður. „Einnig reyndist erfitt að fá ungar og áhugasamar konur til starfa í þeim mæli sem þarf til að eðlileg og nauðsynleg endurnýjun geti forðað stöðnum. Gígjan var kór sem hafði skapað sér gæðastimpil og honum vildum við halda. Þessi ákvörðun var því tekin að vendilega yfirveguðu máli.“