Fara í efni
Menning

Margrét „vel menntuð og mikill listamaður“

Margrét Eiríksdóttir við flygilinn. Eiginmaður hennar, Þórarinn Björnsson, skólameistari, hlýðir á.

TÓNDÆMI – 18

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Margrét Eiríksdóttir, fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og tók lokapróf 1934, tvítug að aldri. Síðan var Margrét við tónlistarnám í London með hléum til ársins 1945. Tónlistarskólinn á Akureyri tók til starfa í janúar 1946 og þá hafði hún verið ráðin til starfans.

Árið 1936 hóf Margrét nám við Royal Academy of Music í London og útskrifaðist þaðan 1939. Ýmsar viðurkenningar hlaut hún á þessum árum og hvatningu kennara sinna til áframhaldandi náms og eftir þriggja ára dvöl á Íslandi hélt hún utan á ný, þrátt fyrir styrjaldarátökin, innritaðist í sama skóla og lauk prófi 1945.

Skömmu eftir heimkomuna bauðst henni starfið á Akureyri. Hún fór norður til fundar við skólanefndina og kynntist verðandi eiginmanni sínum, Þórarni Björnssyni frá Víkingavatni í Kelduhverfi, sem sat í nefndinni. Hann var þá kennari við Menntaskólann á Akureyri og seinna skólameistari.

Eftir að Þórarinn varð skólameistari 1949 lét Margrét af skólastjórastarfinu. „Það þótti ekki viðeigandi að skólameistarafrú ynni utan heimilis. Í staðinn tók hún að sér prívatkennslu og valdi sér nemendur,“ sagði tengdasonur Margrétar, Sigurður Karlsson, í minningargrein eftir að hún lést 2001.

Þórarinn lést 1968, Margrét flutti til Reykjavíkur árið eftir og bjó þar æ síðan. Tryggvi Gíslason, síðar skólameistari MA, segist stundum hafa verið gestur á heimili þeirra Þórarins í hinu gamla og virðulega húsi Menntaskólans á Akureyri á meðan hann var nemandi við skólann „Stundum lék Margrét Eiríksdóttir á flygilinn og hafði ég aldrei áður heyrt leikið á hljóðfæri á þann hátt sem hún gerði, enda var hún vel menntuð og mikill listamaður og naut margur góðs af kennslu hennar.“