Ein skrautjurtin í fjölbreyttum listaakri

TÓNDÆMI – 14
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Ein skrautjurtin í fjölbreyttum listaakri Akureyrar um miðbik síðustu aldar var kvartett kenndur við smárann, þá kjörurt, sem var til heilla talin, ef hún bar fjögur blöð, eins og séra Bolli Gústavsson komst svo skemmtilega að orði á sínum tíma.
Smárakvartettinn var stofnaður 1936 og starfaði í þrjá áratugi. Tveir söngvaranna voru í hópnum allan þann tíma. Stofnendur voru fimm iðnaðarmenn, allir í Karlakór Akureyrar og var kvartettnum komið á fót með stuðningi stjórnandans, Áskels Snorrasonar.
Það var á raddæfingu í sal verkalýðsfélagsins, ekki löngu eftir stofnun kórsins, er Sveinn Bjarman hafði hlýtt gaumgæfilega á söngfélagana, að hann segir: „Hér er efniviður í kvartett, ef ég má gefa ábendingu,“ segir séra Bolli, og hefur án efa eftir föður sínum, einum fjórmenninganna.
Hluti söngskrár fyrir tónleika Smárakvartettsins árið 1944.
Í beinu framhaldi voru valdir fjórir félagar úr hópi kórfélaga; Sverrir Magnússon blikksmiður, fyrsti tenór, Jón Guðjónsson bakari, annar tenór, Gústav B. Jónasson rafvirki, fyrsti bassi og Magnús Sigurjónsson húsgagnabólstrari, annar bassi. Stofnfundur var haldinn 28. nóvember 1936, heima hjá Sverri.
Smárakvartettinn söng án undirleiks fyrstu árin, en Jón Þórarinsson veghefilsstjóri gaf þeim félögum tóninn og stjórnaði söng þeirra. Hann hafði lært á orgel og hafði fágætlega næmt tóneyra, skv. frásögn séra Bolla. Sverrir Magnússon hafði glampandi fagra tenórrödd, sagði Bolli, „og var frá upphafi ein af máttarstoðum Karlakórs Akureyrar. Einsöngvari kórsins var hann framan af á tónleikum, og er það í minnum haft hversu lofsamlega dóma hann fékk hjá gagnrýnanda í Reykjavík, er kórinn var þar á tónleika för. Það var því mikið áfall, er Sverrir varð að hætta að syngja vegna veikinda í hálsi. Var þetta áfall m.a. til þess að Smárakvartettinn lagðist af um hríð.“
Smárakvartettinn eins og hann var eftir síðustu breytinguna, 1953. Frá vinstri: Jóhann Konráðsson, Jósteinn Konráðsson, Gústav B. Jónasson og Magnús Sigurjónsson. Jakob Tryggvason situr við hljóðfærið; hann tók við sem undirleikari kvartettsins 1953.
Það var 1940 sem Sverrir varð að hætta en kvartettinn var endurvakinn haustið 1941. Jón Guðjónsson var ekki með við endurreisnina en hann var einn þeirra, sem stofnuðu Karlakór Akureyrar og söng með kórnum svo lengi sem heilsa leyfði.
Magnús Sigurjónsson frá Holti í Hrafnagilshreppi hinum forna söng annan bassa í Smárakvartettinum frá því hann var stofnaður og allt til loka. „Hann hafði frábæra bassarödd, sem hinir félagarnir byggðu listilega ofaná,“ segir Bolli. Hinn félaginn, sem söng í Smárakvartettinum allan tímann, er hann var við lýði, var Gústav, faðir Bolla. Hann var fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð en fjölskyldan flutti til Akureyrar þegar Gústav var barn að aldri.
Jóhann Konráðsson varð fyrsti tenór í stað Sverris og Jón Jakobsson Bergdal bókbindari tók hlutverk Jóns sem annar tenór. Jón hafði verið í Karlakór Akureyrar en Jóhann nýkominn í hópinn þegar þetta var, 1941. Jón Bergdal féll skyndilega frá 1953 og þá gekk Jósteinn Konráðsson, bróðir Jóhanns, til liðs við kvartettinn. „Hann hafði fallega tenórrödd og var prýðilega músíkalskur,“ segir Bolli. „Féll rödd hans einstaklega vel inn í þennan hóp. Jósteinn söng um áraraðir sem 2. tenór með Karlakór Akureyrar.“
Áskell Jónsson, tónlistarfrömuður frá Mýri í Bárðardal, tók við stjórn Karlakórs Akureyrar haustið 1952 og gerðist um leið undirleikari Smárakvartettsins, fljótlega eftir að Jósteinn tók sæti Jóns. Annar mikill tónlistarfrömuður, Jakob Tryggvason frá Ytra Hvarfi í Svarfaðardal, tók svo við sem undirleikari kvartettsins 1953, og gegndi því starfi allt til lokatónleika þessa vinsæla vinsæla söngflokks 1966.