Fara í efni
Menning

Kammerhljómsveit í sjö ár – forveri Sinfó

Fyrstu tónleikar Kammerhljómsveitar Akureyrar. Þeir fóru fram í Akureyrarkirkju sunnudaginn 9. nóvember 1986 að viðstöddum töluverðum fjölda fólks. Mynd úr myndasafni Dags.

TÓNDÆMI – 20

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Kammerhljómsveit Akureyrar, sem var starfandi frá 1986 til 1993, var forveri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands (SN). Tildrög að stofnun þeirrar fyrrnefndu má rekja til ársins 1984, þegar nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins skilaði áliti. Verkefni nefndarinnar var að fjalla um „hvernig vinna megi að því að efla Akureyri sem miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar.“

Nefndin lagði m.a. til að við Tónlistarskólann á Akureyri yrði stofnuð kammerhljómsveit til þess að tryggja búsetu hæfra og vel menntaðra hljóðfæraleikara á Akureyri. Við skólann hafði í mörg ár verið starfrækt hljómsveit nemenda, sem kennarar veittu liðsauka á tónleikum;
nefnd Kammerhljómsveit Tónlistarskólans á Akureyri, en haustið 1986 gengust kennarar við skólann fyrir stofnun hljómsveitar eins og nefndin hafði lagt til og var hún nefnd Kammerhljómsveit Akureyrar.

Roar Kvam stjórnaði Kammerhljómsveit Akureyrar frá stofnun og næstu árin.

„Framhald á starfi Kammerhljómsveitar Akureyrar ræðst af aðsókn og móttökum tónleikagesta í Akureyrarkirkju,“ sagði í tilkynningu sem send var út fyrir fyrstu tónleikana og sem betur fer féll framlag hljómsveitarinnar í góðan jarðveg. Viðtökur tónlistarunnenda voru sem betur fer góðar og hljómsveitin skipaði sér fastan sess í menningarlífi bæjarins. 

Þau sjö starfsár sem Kammerhljómsveit Akureyrar var og hét voru haldnir 31 sinfónískir tónleikar, á Akureyri, í Varmahlíð í Skagafirði, Ýdölum í Aðaldal og á Blönduósi, flestir á sjötta starfsári. Fastastjórnandi hljómsveitarinnar var Roar Kvam og framkvæmdastjóri lengst af Jón Hlöðver Áskelsson.

Félag til að efla starfsemina

Haustið 1988 var stofnað Félag áhugamanna um rekstur Kammerhljómsveitar Akureyrar, einskonar bakhjarl sem meðal annars var ætlað að efla starfsemina og koma hljómsveitinni sem mest og best á framfæri. Nægur mannafli var ekki á Akureyri og nágrenni til að skipa stóra hljómsveit og voru því iðulega fengnir tónlistarmenn af höfuðborgarsvæðinu, gjarnan brottfluttir Akureyringar, til þess að leika með heimamönnum.

Félagið annaðist reksturinn í samvinnu við Akureyrarbæ til hausts 1993 þegar ákveðið var að það rynni saman við Tónlistarfélag Akureyrar, undir nafni þess síðarnefnda, sem varð rekstrarfélag Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þá kom ríkisvaldið í fyrsta skipti að fjármögnum hljómsveitarinnar en fram að því hafði Akureyrarbær einn veitt styrki til starfseminnar. Ákveðið hafði verið, að þegar hljómsveitin kæmist inn á föst fjárlög yrði nafninu breytt, einnig að sú hljómsveit skyldi starfa eftir nýrri skipulagsskrá, en engin sérstök lög voru áður til fyrir Kammerhljómsveit Akureyrar.

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands fóru fram í Akureyrarkirkju 24. október 1993 undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, sem var aðalstjórnandi hljómsveitarinnar í liðlega tvo áratugi.

Þolinmæði er dyggð!

Tónlistarfélag Akureyrar var stofnað 1943 með það að markmiði að standa að tónleikahaldi, stofna tónlistarskóla og styrkja hljómsveitarstarf.
Félagið var helsta driffjöður og einn stofnenda Tónlistarskólans á Akureyri er hann hóf starfsemi sína árið 1946. Segja má að hálfri öld eftir að félagið var stofnað hafi hitt markmiðið náðst, þegar stofnuð var sinfóníuhljómsveit. Þolinmæði er vissulega dyggð! 

Frétt Morgunblaðsins í aðdraganda fyrstu tónleika Kammerhljómsveitar Akureyrar.

Meðal annars Mozart og Clementi

  • Kammerhljómsveit Akureyrar hélt fyrstu tónleikana í Akureyrarkirkju sunnudaginn 9. nóvember 1986. Hljómsveitin flutti forleik eftir Rossini, konsert fyrir þverflautu og hljómsveit í G-dúr eftir Stamitz, tónverk eftir Mozart og Clementi og Sinfóníu í D-dúr eftir Johan Christian Bach.
  • Roar Kvam stjórnaði fyrstu tónleikum Kammerhljómsveitar Akureyrar en einleikari var pólski flautuleikarinn Waclaw Lazarz, sem leikið hafði á tónleikum víða um lönd en starfaði um veturinn sem kennari við Tónlistarskólann á Dalvík.
  • Lazarz hafði um 12 ára skeið verið 1. flautuleikari í Útvarps- og sjónvarps sinfóníuhljómsveitinni í Katowice og í liðlega áratug leikið í tríói pólska útvarpsins.