Fara í efni
Menning

Norðurlandameistari í harmonikuleik 1946

Hjónin Lýður Sigtryggsson og Klara Strand, sem var mjög frambærilegur harmonikuleikari.

TÓNDÆMI – 19

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Lýður Sigtryggsson frá Akureyri sigraði með miklum yfirburðum á Norðurlandamóti í harmonikuleik sem fram fór í Stokkhólmi árið 1946. Þar mættust Dani, Norðmaður, Finni og fjórir Svíar, auk Lýðs. Hann var þá 26 ára og hafði leikið á hljóðfærið frá barnsaldri.

Norðurlandabúar voru meðal bestu harmonikuleikara heimsins og ákvörðun Lýðs um að skrá sig til leiks þótti því stór og mikið lagt undir. Lýður flutti til Noregs 1939 og hafði þar fengið mjög góða dóma fyrir leik sinn, frábæra fingrafimi og tækni á harmonikuna, og var því fullur bjartsýni. Í ljós kom að ástæða var til þess, því yfirburðir hans reyndust ótrúlegir.

Norðurlandameistarakeppnin fór fram í Konserthuset í Stokkhólmi 16. mars. Lýður var fyrstur Íslendinga til að taka þátt en keppnin, sem var árleg fyrir stríð, hafði ekki verið haldin síðan 1939.

Lýður tekur við verðlaunagripnum eftir sigur á Norðurlandamótinu í Stokkhólmi.

Keppinautar Lýðs voru Daninn Ropp Möller, sem nýlega hafði unnið meistaramót Jótlands í harmonikuleik, Toivo Manninen, einn fremsti Finninn, Norðmaðurinn Erling Eriksen sem var mjög þekktur bæði í heimalandinu og Svíþjóð, og Svíarnir, Wille Johnsson, sænskur meistari 1942 og besti harmonikuleikarinn í landskeppni við Finnland í Stokkhólmi 1944, Helmer Nerlund, elstur keppenda, fæddur 1905, en hafði unnið Norðurlandameistaratitilinn 1932 og 1933, Carl-Johan Nygren, og loks Tage Ekvall, aðeins 19 ára og yngstur þátttakenda í mótinu.

Góðar viðtökur á Íslandi

Fljótlega eftir keppnina hélt Lýður til Íslands ásamt norskri unnustu sinni, Klöru Strand, og kennara sínum, Hartvig Kristoffersen. Sigldu þau með Dronning Alexandrine frá Kaupmannahöfn og komu til Reykjavíkur 2. maí.

Lýður og Kristoffersen héldu fjölda tónleika á Íslandi, þá fyrstu í Gamla bíói 4. maí við afbragðs undirtektir. „Léku þeir félagar bæði samleik og einleik og voru viðfangsefnin bæði klassisk lög og létt danslög. Húsið var þéttskipað áheyrendum og hylltu þeir listamennina ákaft við hvert verkefni, og urðu þeir að spila mörg aukalög. Harmonikusnillingunum bárust margir fagrir blómvendir og fagnaðarlátum áheyrendanna ætlaði aldrei að linna,“ sagði Alþýðublaðið eftir fyrstu tónleikana.

Síðar í mánuðinum léku þeir félagar á Akureyri. „Þrátt fyrir óhentugan tíma, var húsið fullt áheyrenda, og fagnaðarlæti þeirra meiri en venjulegt er að heyra á tónleikum hjer,“ sagði Íslendingur og talaði um miðnæturtónleika á mánudagskvöldi.

Ferðin heim til Akureyrar var langþráð. Í lok stríðsins 1945 og mánuðina eftir að friður komst á lagði Lýður aðaláherslu á æfingar á harmonikuna með það fyrir augum að fara sem fyrst til Íslands og halda þar hljómleika og hitta fjölskyldu sína og vini á Akureyri. Samskipti hans við fjölskylduna höfðu verið mjög stopul eftir að Þjóðverjar hernámu Noreg, póst- og pakkasendingar lögðust nánast niður milli landanna og aldrei vitað með vissu hvort póstur kæmist á leiðarenda, þegar fjölskylda Lýðs reyndi að styrkja hann meðan á náminu í Noregi stóð. Stundum bárust fjölskyldunni engar fréttir frá honum svo mánuðum og árum skipti, að sögn Hermanns bróður hans. Hermann var lengi íþróttafulltrúi á Akureyri og þriðji bróðirinn, Ragnar, alltaf kallaður Gógó, var fyrsti landsliðsmaður Akureyringa í knattspyrnu.

Meira verður fjallað um Lýð Sigtryggsson í öðru Tóndæmi síðar