Akureyrska ævintýrið um Kristján Jóhannsson

TÓNDÆMI – 15
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Akureyringurinn Kristján Jóhannsson er kunnasti tenórsöngvari Íslands síðustu áratugi. Litli drengurinn, sem fyrst kom fram opinberlega átta ára sem jólasveinninn Stúfur á KEA-svölunum í miðbænum og söng Heims um ból, lagði heiminn að fótum sér og söng aðaltenórhlutverk í óperum um árabil í frægustu óperuhúsum veraldar.
„Ég var í raun í toppformi í 20 ár, alveg til 2007,“ sagði Kristján við þann sem þetta skrifar, þegar hann leit um öxl fyrir nokkrum árum, en bætti við að allra bestu árin hafi líklega verið frá 1987 til 2000. Enda söng hann reglulega í húsum eins og Metropolitan í New York, Covent Garden í London, Vínaróperunni, Parísaróperunni og Scala í Mílanó.
Kristján hóf ungur að syngja með Karlakórnum Geysi, þar sem fyrir voru faðir hans, Jóhann Konráðsson, og bróðirinn Jóhann Már.
Hjónin Dorriet Kavanna og Kristján synga fyrir troðfullri íþróttaskemmunni á Akureyri í nóvember 1981. Ólafur Vignir Albertsson við píanóið. Mynd: Minjasafnið á Akureyri
Fyrsti kennari Kristjáns var Sigurður Demetz Fransson. Vincenzo Maria Demetz, sem fæddur var 1912 í Suður-Tíról, var á yngri árum kunnur söngvari á Ítalíu, kom fram í óperuhúsum víða um Evrópu og söng meðal annars á Scala um 1950 en flutti til Íslands nokkrum árum síðar. Hann kom til Akureyrar í því skyni að sjá um raddþjálfun en tók við stjórn Geysis 1973. Demmi, eins og hann var alltaf kallaður, sá fljótt hvað bjó í Kristjáni, hvatti hann til dáða og aðstoði við að komast til Ítalíu.
Í bók Gísla Sigurgeirssonar, Jói Konn og söngvinir hans, segir Demetz frá því að Jóhann Konráðsson hafi iðulega komið til hans í skólann „og þar áttum við oft ánægjulegar stundir saman. Þá tókum við stundum nokkrar óperuaríur og renndum okkur upp á há C-ið eins og ekkert væri. Jói var góður söngvari, náttúrusöngvari, sem söng með hjartanu. Hann hefur gefið Íslendingum mikið.“
Öfundarmenn kalla þetta mont
Demmi segir að gaman hafi verið að ræða við Jóa um söng og músík. „Hann sagði alltaf það sem hann var að hugsa og það kom frá hjartanu, þar var ekkert fals. En við vorum ekki alltaf sammála, fjarri því, og þá gátum við rifist. Hann hafði mikið skap og sjálfstraust; sama skapið og Kristján sonur hans hefur. Öfundarmenn kalla þetta mont. En hvað um það, enginn verður mikill söngvari sé hann skaplaus og vantreysti sjálfum sér. Kristján væri ekki það sem hann er í dag ef hann hefði ekki þetta skap,“ segir Demetz í bók Gísla.
Fyrsti kennari Kristjáns á Akureyri: Vincenzo Maria Demetz; Sigurður Demetz Fransson. Úr myndasafni Dags.
Um tíma voru þrír feðgarnir hjá Demetz, Jói, Jóhann Már og Kristján. Gísli Sigurgeirsson segir frá í bókinni: „Síðar bað Jói mig fyrir Kristján í einkakennslu. Hann kom með honum í fyrsta tímann. Þá þreif hann í jakkaboðungana mína, kippti mér að sér og horfði beint í augu mér um leið og hann sagði: Ef þú eyðileggur þennan strák fyrir mér þá drep ég þig! Eftir fyrsta konsert Kristjáns á Akureyri kom Jói til mín hrærður til að þakka mér. Ég hafði þá ekki eyðilagt strákinn hans!“
Kristján lærði plötusmíði í Slippstöðinni en keypti nokkrum árum síðar díselstillingarverkstæði þáverandi tengdaföður síns og rak þar til hann tók af skarið og hélt til náms á Ítalíu, sumarið 1976, orðinn 28 ára. Hann lauk námi 1979 og þá hófst barátta fyrir því að fá vinnu, sem reyndist ekki auðvelt verk. Næstu misseri söng hann til prufu í ótal húsum.
Þegar Kristján hóf nám var hann kvæntur Áslaugu Kristjánsdóttir. Annari konu sinni, söngkonunni Dorrièt Kavanna kynntist Kristján á Ítalíu, en hún lést langt fyrir aldur fram. Þriðja eiginkona Kristjáns er Sigurjóna Sverrisdóttir.
Mikilvægt að taka skref í rétta átt
„Flestir vildu helst fastráða sig til þess að tryggja örugga innkomu,“ segir hann um fyrstu árin eftir nám. „Í Þýskalandi eru til dæmis yfir 60 óperuhús, barist um stöðu í þeim öllum og eitt vorið og sumarið keyrðum við Ingvar sonur minn út um allt Þýskaland þar sem ég prufusöng í hverju húsinu á fætur öðru,“ rifjar hann upp. „Út úr því komu þrjú tilboð enda eins gott, því ég var orðinn skítblankur. Engin námslán í boði á þessum árum og í tvö eða þrjú ár hafði ég haldið mér uppi með því að syngja á tónleikum hér og þar. Það var hins vegar ekki það sem ég ætlaði mér að gera; ég var staðráðinn í því að komast inn í stóru óperuhúsin, og mikilvægt var að taka rétt skref í átt að því.“
Kristján og Sigurður Demetz Franzson eftir flutning Sálumessu Verdis í íþróttahöllinni á Akureyri 2003. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Kristjáni leist best á tilboð frá óperuhúsinu í Hanover. „Það var ágætt leikhús – gott B-leikhús eins og við köllum það. Ég hafði heillað óperustjórann því hann stoppaði mig strax eftir eina aríu og sagðist vilja ráða mig í að minnsta kosti tvö ár. Hann bauð mér nokkuð góð laun, sagði að ég myndi syngja í rómantískum, ítölskum aríum, þannig að ég var ofboðslega ánægður. Hringdi heim í pabba og mömmu og allir samglöddust mér.“
Mikilvægast að hugsa um röddina
Kristján segir að innst inni hafi hann ekki langað til að fastráða sig, því laun fastráðinna starfsmanna séu alltaf talsvert lægri en þeirra sem eru í lausamennsku, „fyrir utan það að húsin eru þekkt fyrir að fara ekki vel með söngvara, þeir eru látnir syngja allan andskotann! Eftir tvær eða þrjár vikur fæ ég svo sendan pakka heim til Ítalíu, samningurinn stóðst algjörlega – fjárhagshliðin, það er að segja, en í ljós kom að tvær fyrstu óperurnar voru ekki ítalskar, hvað þá að hlutverk mín væru í þeim dúr sem mér hafði verið lofað. Það átti strax að fara að nýta mig í hvað sem er. Ég vissi að þetta færi ekki vel með röddina og kennarinn minn og góðir vinir voru sammála í ráðleggingum: hentu þessu í Þjóðverjana aftur! Staðan var snúin því ég átti varla fyrir húsaleigu og mat, en ég hugsaði fyrst og fremst um að ég vildi geta sungið almennilega næstu 40 árin og mikilvægara en nokkuð annað væri því að hugsa um röddina. Ég límdi pakkann því saman aftur og sendi til baka.“
Það fór allt til andskotans!
Ákvörðunin fór ekki vel í alla – vægast sagt. „Umboðsmaðurinn hætti til dæmis, fór í fússi og sagði mig óalandi og óferjandi. Ég hafði samið við hann nokkrum árum áður í Salzburg, þar sem ég var í tvo eða þrjá mánuði á námskeiði og sigraði í söngkeppni sem haldin var í framhaldinu. Eftir hana gat ég valið úr einum tíu umboðsmönnum og valdi þennan, sem var greinilega rangt val. Það fór allt til andskotans! Ég man að pabbi hringdi og spurði: ertu orðinn kolvitlaus drengur? Þú hefur ekki efni á að setja þig á háan hest, en ég sagði sem var að ég þyrfti að passa mig og hugsa fyrst og fremst um röddina.
Feðgarnir fyrir frumraun Kristjáns í „alvöru“ húsi eins og hann orðaði það; í óperunni Madama Butterfly árið 1982 í National Opera North í Leeds. Jóhann bregður á leik á myndinni til vinstri. Myndir úr einkasafni Kristjáns.
Önnur óperan sem Þjóðverjarnir ætluðu að láta mig syngja var eftir Strauss, hitt var Wagner ópera; hlutverk sem voru eins ólík því, sem mér hafði verið lofað, og hugsast getur.
Það sljákkaði aðeins í pabba og svo fór að vinir hans og aðdáendur gaukuðu að mér peningum af og til, Valur Arnþórsson og fleiri góðir menn; þeir vissu hvernig staðan var.“
Það var svo 1982 sem Kristjáni bauðst að syngja aðaltenórhlutverkið í Madama Butterfly, í National Opera North í Leeds. Grýtt ganga á milli leikhúsa skilaði loks árangri. „Það var á vegum umboðsmannsins Patriciu Greenen, konu sem ég átti eftir að vinna með í nokkur ár. Úr varð að ég fór til Bretlands og var þar meira og minna í þrjú ár í nokkrum leikhúsum. Sýningin í Leeds opnaði margar dyr.“
Farinn að sætta sig við drenginn ...
Foreldrar Kristjáns, Fanney Oddgeirsdóttir og Jóhann Konráðsson, fóru til Leeds til að sjá son sinn þreyta frumraun sína í „alvöru“ húsi. „Það var svakalega dramatískt. Pabbi grét af gleði og stolti; hann var búinn að átta sig á því hvert stefndi. Hann var mikið fyrir léttan, ljóðrænan söng, enda var það stíllinn þegar hann var að syngja, en átti ekki eins vel við mig. Landslagið var líka að breytast og nýir stjórnendur vildu meiri kraft. Pabbi var alltaf mjög gagnrýninn, en var virkilega ánægður með mig í Leeds. Hann hafði séð mig syngja tvisvar áður í óperu niðri á Ítalíu, sem var yndislegt að upplifa; ég á meira að segja upptöku af mjög góðri sýningu í Ancona þar sem ég söng Puccini óperuna Gianni Schicchi og eftir helvíti mikla aríu, sem ég söng vel, heyrist í karlinum utan úr áhorfendaskaranum: Bravó! Þá vissi ég að hann var farinn að sætta sig við drenginn!“
Frumsýningin í Leeds var 18. desember og Fanney og Jóhann vörðu jólunum með syninum og tengdadótturinni, Dorrièt Kavanna. Gömlu hjónin héldu heim á leið 27. desember en Jói dó á leiðinni. Kristján hafði fylgt þeim í lest til Edinborgar þar sem hann varð eftir á brautarpallinum en þau héldu áfram til Glasgow. Þegar Kristján kom aftur til Leeds beið Dorrièt hans með tárin í augunum.
Meira um Kristján Jóhannsson síðar.