Lúðrasveit starfandi með hléum síðan 1894

TÓNDÆMI – 22
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Lúðrasveit Akureyrar var stofnuð 25. október 1942 og hefur starfað samfellt síðan. Slíkur félagsskapur hafði þá reyndar verið starfandi lengst af síðan fyrir aldamót; samkvæmt blaðinu Stefni, sem gefið var út á Akureyri. Í blaðinu kemur fram að laugardag 3. febrúar árið 1894 hafi akureyrsk blásarasveit komið fram í fyrsta skipti. Þar segir: „Jarðarför Karls Kristjánssonar framfór hjer í bænum síðastliðinn laugardag. Hornleikarafjelagið á Akureyri ljek á horn við gröfina, og er það í fyrsta skipti sem slíkt hefir heyrzt hjer.“
Magnús Einarsson organisti – sem Akureyri.net fjallaði um hér – stofnaði umræddan hornaflokk, sem var starfandi fram yfir aldamót. Upphafið má rekja til þess draums, sem Magnús ól lengi með sér, að komast utan til afla sér frekari tónlistarþekkingar. Beiðni bæjaryfirvalda til fjárveitingarvaldsins í Reykjavík um styrk bar ekki árangur en Magnús fékk hins vegar styrk frá Akureyrarkaupstað og sýslusjóði Eyjafjarðarsýslu, auk þess sem fé safnaðist á skemmtunum sem söngfélag hans, Gígja, hélt.
Klausan úr Stefni í febrúar 1894, þar sem sagt er frá því að „hornleikarafjelagið“ hafi komið fram í fyrsta skipti.
Mikill áhugi
Lárus Zophoníason, sem lengi var í Lúðrasveit Akureyrar telur að snemma hafi kviknað áhugi á því að stofna hornaflokk á Akureyri en allt skort sem með þurfti: Hljóðfæri, kunnáttu og einhvern sem gæti stjórnað og leiðbeint flokknum. „En það var Akureyri til mikils happs að þar í bæ var búsettur maður með óbilandi áhuga á öllu er að tónlist laut og vann að þeim málum af mikilli elju. Þessi maður var Magnús Einarsson, eða Magnús organisti, eins og hann var ætíð nefndur í daglegu tali,“ segir Lárus í bókinni Skært lúðrar hljóma: saga íslenskra lúðrasveita.
Það var vorið 1893 sem Magnús fór til Kaupmannahafnar til náms, meðal annars skyldi hann afla sér einhverrar undirstöðuþekkingar í hornamúsík, en Gígja, söngflokkur Magnúsar, og Díana, félag sem lítið er vitað um, hugðust gangast fyrir því að koma á fót hornaflokki. Meðan Magnús dvaldi ytra var unnið af kappi við að afla fjár til kaupa á hornum fyrir væntanlegan flokk. Gígja og fleiri stóðu fyrir almennum samskotum meðal bæjarbúa. Söfnuðust þannig 200 krónur og 70 krónur öfluðust sem ágóði af söngskemmtun sem Gígja hélt að Grund í Eyjafirði. Hornin kostuðu 300 krónur og greiddi bæjarsjóður það sem á vantaði, eða 30 krónur. Og í lok september sama ár kom Magnús heim frá Danmörku með sex lúðra og hóf að kenna mönnum hornablástur.
Magnús Einarsson – Magnús organisti – sem stofnaði fyrsta hornaflokkinn á Akureyri.
Með tilkomu Hornaflokks Akureyrar hófst nýtt skeið og aukin fjölbreytni í tónlistarlífi bæjarins. Magnús kenndi mönnum á hornin og þjálfaði blásarana í samleik. Flokkurinn var skipaður sex mönnum, auk stjórnandans, Magnúsar. Hinir voru: Ketill Sigurgeirsson, Júlíus Júlínusson, Gunnar Matthíasson, Sigtýr Jónsson, Jón Jóhannesson og Páll Magnússon.
Svanasöngur aldamótaárið
Hornaflokkurinn varð ekki langlífur. Á þessum árum var straumur Íslendinga til Vesturheims hvað mestur og þangað fluttust fjórir blásaranna um aldamótin. Sá fimmti fór til sjós svo aðeins einn úr upphaflega hópnum, Jón Jóhannesson, var áfram á Akureyri. Lárus Zophoníasson heldur því fram að starfsemi flokksins hafi lagst niður um aldamótin og telur að fjárskortur hafi ráðið nokkru þar um; bærinn útvegaði flokknum húsnæði til æfinga en ef gera þurfti við hljóðfæri lenti kostnaðurinn á blásurunum sjálfum. Á meðan hornaflokkurinn var við lýði kom hann víða fram, til að mynda á búfénaðarsýningu á Grund í Eyjafirði sumardaginn fyrsta 1895. Líklega var svanasöngur hornaflokksins á aldamótasamkomu á Oddeyri 23. júní 1900.
Meira um Magnús organista síðar - svo og um hornaflokka og Lúðrasveit Akureyrar