Fara í efni
Tré vikunnar

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

TRÉ VIKUNNAR - LXXXIX

Austur í Asíu vex fallegt tré. Það skipar stóran sess í menningu Japana, Kínverja og sjálfsagt fleiri þjóða. Tréð er ágætur vitnisburður um hvernig fólk um alla jarðarkringluna notar fegurð náttúrunnar sjálfrar til að halda upp á mikilvæga atburði í lífi sínu og minna á allt það sem er göfugt og gott. Tré vikunnar er hið fagra keisaratré eða Paulownia tomentosa Steud.

 

Keisaratré í blóma í grasagarðinum í Missouri. Myndin fengin frá heimasíðu garðsins.

Lýsing

Keisaratréð er eitt af þeim trjám sem virðast lifa eftir lífsmottói margra rokkara: Lifið hratt og deyið ung. Trén geta orðið rúmlega 30 metrar á hæð en vegna þess hversu skammlíf þau verða að jafnaði ná þau sjaldnast nema helmingi þeirrar hæðar. Laufin eru mjög stór (15–40 cm í þvermál), hærð, hjartalaga og með langan stilk. Þau vaxa gagnstætt á greinunum líkt og við þekkjum hjá ýmsum toppum og fleiri tegundum á Íslandi.

 

Laufblöð keisaratrésins eru stór, hjartalaga og gagnstæð á greinunum. Neðra borðið er loðið. Myndin fengin
héðan. Höfundurinn kallar sig einfaldlega David.
 

Upphaflega er tréð frá Kína og hugsanlega einnig frá Japan en er nú ræktað víða um heim þar sem loftslag hentar. Í Japan hefur tréð verið ræktað svo lengi að grasafræðingar vilja ekki fullyrða um hvort það hefur alltaf vaxið þar villt eða borist úr garðrækt út í náttúruna. Flestum í Japan er sjálfsagt slétt sama og líta á tréð sem japanskt því þar vex það og líður vel. Því miður eru ekki líkur á því að það fái þrifist utan dyra hér á landi, en það gæti sem best vaxið í sólstofum.

 
 

Blómskrúð á keisaratré. Myndin fengin héðan en hana á Steven Foster.

Blómin

Síðla sumars fara trén að undirbúa blómgun næsta sumars. Þá myndast blómknúppar sem eru nokkuð áberandi á trjánum yfir veturinn. Mikil frost geta skemmt þessa blómvísa (Missouri Botanical Garden).

Blómin opnast á trjánum í apríl og maí skömmu fyrir laufgun. Það er fyrst og fremst þeirra vegna sem þessum kínversk-japönsku trjám er plantað víða um heim. Blómin eru glæsileg. Þau eru bjöllulaga, bleik eða fjólublá á litinn og lykta dásamlega. Lögun þeirra minnir töluvert á blóm fingurbjargarblóma, Digitalis purpurea, sem vaxa víða í íslenskum görðum. Þar sem þessum trjám hefur verið plantað og þau ná að blómstra telja mörg að lyktin af blómunum sé hin eina sanna vorlykt (Spade 2020, Wells 2010). Þegar krónublöðin falla af blómunum halda þau lit sínum í nokkra daga. Þar sem mikið er af trjánum verða krónublöðin nánast eins og fagurbleikt eða fjólublátt vel lyktandi teppi á jörðinni í fáeina daga áður en þau fölna, brotna niður og hverfa (Wells 2010).

 
Keisaratréð blómstrar fyrir laufgun. Hér ber blómin í sígrænt barrtré sem stendur við hlið trésins. Myndirnar eru héðan.

Fræ

Fræin hanga í klösum á trénu og minna í útliti á pekanhnetur í skel sinni. Ólíkt hnetunum er þó ekki aðeins eitt fræ (einn hneta) í hverri skel heldur allt upp í 2000 vængjuð fræ. Sagt er að hvert tré geti framleitt um 20 milljónir fræja á hverju ári. Þessi mikla fræframleiðsla veldur því að tréð getur orðið mjög duglegt við að sá sér út. Sumir kalla svona dugleg tré ágeng.

 
 

Opin fræhulstur sem hafa losað sig við fræin. Ekkert gaman að hrista þau. Myndin er frá Wikipediu og er eftir Chhe.

Sagt er að börn hafi gaman af að hrista greinar með þessum fræhulstrum. Þá hringlar í fræjunum líkt og í Helenustokki hljómsveitar Ingimars Eydals, nema hvað fræin eiga það til að fljúga út úr fræhulstrinu í allar áttir.

 
 

Helstu einkenni keisaratrés á einni mynd eftir Mihailo Grbić. Stærðarhlutföll eru ekki rétt. A) Blómvísar að vetri til. B) Blómstrandi grein. C) Blóm og þverskurðarmynd af blómi. D) Blómbotn eftir að krónublöð hafa fallið af. E) Laufblað. F) Lokuð fræhulstur með fullþroska fræjum. G) Vængjuð fræ.

Ættfræði

Þegar Linnaeus hinn sænski lagði grunninn að því nafnakerfi á latínu, sem enn er notað í allri líffræði, treystu fræðingarnir mjög á útlit blóma við flokkun plantna. Því kemur það ekki á óvart að lengi var þessi tegund höfð í sömu ætt og fingurbjargarblóm enda eru blómin á þessum tegundum mjög lík. Löngu síðar tók fólk upp á því að nota genarannsóknir til að meta skyldleika plantna. Þá kom í ljós að þótt algengt sé að lík blóm tilheyri skyldum plöntum fer því fjærri að það sé algilt. Þróunin er flóknari en svo. Nú hafa genarannsóknir sýnt fram á að þrátt fyrir lík blóm eru keisaratré og fingurbjargarblóm með öllu óskyldar tegundir. Því hefur Paulownia ættkvíslin verið sett í sérstaka ætt með nokkrum öðrum asískum tegundum af ættkvíslum sem við játum fúslega að við þekkjum ekki baun. Ættin dregur nafn sitt af keisaratrénu og kallast Paulowniaceae (Spade 2020).

Innan ættkvíslarinnar Paulownia eru fleiri tré en tré vikunnar. Þau eru öll minna ræktuð á Vesturlöndum en keisaratréð. Í Kína hafa sum þeirra verið ræktuð, bæði til fegurðarauka í görðum og til lækninga, í þúsundir ára.

 

Þessa mynd birti Artan Koka á Facebooksíðunni Unique Trees.

Nafnið

Eins og svo oft áður reynum við að fara eftir orðabanka Íslenskrar málstöðvar, sem varðveittur er hjá Árnastofnun, þegar við finnum íslensk heiti á tegundir. Orðabankinn gefur upp orðið keisaratré. Því notum við það í þessum pistli. Okkur þykir þó rétt að nefna að á sumum tungumálum er þessi fjólublá- eða bleikblómstrandi fegurðardís ekki kennd við keisara, heldur prinsessur. Ástæða þess er meðal annars sú að ættkvíslin, sem tréð er af, hlaut nafn sitt eftir rússneskri prinsessu. Því kemur alveg til greina að kalla tréð prinsessutré frekar en keisaratré en það getur valdið ruglingi að breyta um nöfn á trjám án sýnilegrar gagnsemi.

Á sumum tungumálum hefur tréð verið nefnt eftir blómunum og annað hvort kennt við fingurbjargir eða bláklukkur. Þar sem bæði fingurbjargarblóm og bláklukkur eru óskyldar þessum trjám getum við hvorki mælt með nöfnunum fingurbjargartré né bláklukkutré fyrir þau. Seinna nafnið er líka frekar óheppilegt í ljósi þess að blómin eru ekki endilega blá.

Svo þekkist einnig, í öðrum tungumálum, að kenna tréð við keisara, eins og gert er hér, en einnig við keisaraynjur. Wells (2010) segir frá því að í heimalandinu Kína kallist tréð tong og í Japan kallist það kiri. Japanska heitið merkir keisaraynja. Þaðan hefur sá siður breiðst víða þótt titillinn hafi í sumum tilfellum skipt um kyn. Svona getur feðraveldið teygt sig víða.

 
 

Keisaratré geta verið glæsileg hvort sem þau standa í blóma eður ei. Laufin eru mjög stór eins og sjá má. Þetta tré stendur í Belgíu. Myndin fengin héðan og er eftir Jean-Pol Grandmont.

Fræðiheitið og upphaf þess

Á útdauðu heimstungunni kallast þetta tré Paulownia tomentosa Steud. Ættkvíslarheitið Paulowania á sér fjölþjóðlega sögu. Fræðiheitið var gefið af þýskum grasafræðingi og lækni til heiðurs rússneskri prinsessu sem varð drottning í Hollandi á 19. öld. Þá var nýlega farið að rækta tréð í Evrópu en fræðiheitið geymir enga vísun í kínverskan eða japanskan uppruna þrátt fyrir að þaðan hafi tréð borist til álfunnar. Þessi rússneska Hollandsdrottning hét Anna Pavlovna (1795–1865). Þegar Pavlovna af Rússlandi var uppi þótti hún fögur kona og því var alveg tilvalið að nefna þessa ættkvísl eftir henni.

 
 

Málverk eftir Jan Baptist van der Hulstaf af hinni rússnesku prinsessu, Önnu Pavlovna, sem varð drottning Hollands. Ættkvíslin Paulownia er nefnd eftir henni. Á sumum tungumálum heitir tréð prinsessutré henni til heiðurs. Myndin fengin af síðu Wikipediu.

Anna Pavlovna ólst upp í Pavlovsk í Rússlandi sem þekkt er fyrir sína fögru garða. Sjálfur Napolen bað um hönd hennar en móðir hennar hafnaði bónorðinu. Seinna giftist hún Vilhjálmi öðrum sem ríkti yfir Hollandi. Hann var mikill áhugamaður um garðrækt og ástríðufullur plöntusafnari. Diana Wells (2010) segir frá því í sinni bók að Vilhjálmur annar hafi fengið þýskan lækni og plöntusafnara að nafni Philipp Franz von Siebold til að fara með hollenska Austur-Indíafélaginu til Japans. Á þeim tíma var Japan algerlega lokað útlendingum nema hvað félagið hafði leyfi til að stunda verslun á lítilli, manngerðri eyju sem heitir Deshima. Japanir leituðu töluvert til von Sielbold einkum vegna kunnáttu hans í augnlækningum. Þakklátir sjúklingar færðu honum gjarnan plöntur að gjöf. Aftur á móti kunnu heimamenn honum lítið þakklæti þegar hann var staðinn að því að teikna landakort af ströndinni. Þá var hann fangelsaður og síðan sendur úr landi. Hann fékk að taka plöntusafn sitt með og settist um tíma að í Hollandi. Þar fékk kóngurinn hann til að stofna grasagarð þar sem Japanssafni hans var komið fyrir. Von Siebold var grasafræðingurinn sem gaf ættkvíslinni nafn þegar þarna var komið sögu. Til að sýna Hollandskonungi þakklæti sitt nefndi hann ættkvíslina eftir drottningu hins hollenska konungs (Wells 2010). Áhrif von Siebold má enn sjá víða í fræðiheitum lífvera. Meðal annars má nefna að enn í dag bera bæði austurlenskar plöntur og reyndar einnig sjávardýr nafn von Siebold. Má þar nefna magnolíutegundina Magnolia sieboldii og skrautrunnann japansbrodd, Berberis sieboldii, sem er ræktaður í görðum á Íslandi. Viðurnafnið tomentosa er úr latínu og merkir „þakið hárum“ eða „loðið“ og vísar í hin hærðu laufblöð trésins. Engar sögur fara af því hvort Anna Pavlovna hafi glaðst yfir þessu tvínefni, en þegar þau eru sett saman má með góðum vilja segja að þau merki: Pavlovna hin loðna. Rétt er að taka það fram að það var ekki Siebold sem gaf trénu nafn, þótt hann hafi gefið ættkvíslinni nafn. Það var einhver dúddi að nafni Steudel. Við þreytum ekki lesendur með upplýsingum um hann. Engu að síður er skammstöfun nafns hans, Steud., enn að finna í vönduðum grasafræðiritum á eftir fræðiheiti keisaratrésins. Þess vegna stendur Paulownia tomentosa Steud. í þessum pistli.

 

Keisaratré í fullum blóma. Myndin fengin af þessari síðu.

Notkun

Þessi tegund er fyrst og fremst ræktuð vegna þess hversu fögur hún er í blóma. Í gegnum aldirnar hefur tegundin einnig verið nýtt á ýmsan hátt. Til að viðhalda fjölda keisaratrjáa þarf ekki 20 milljón fræ á hverju ári. Áður fyrr notuðu Kínverjar fræin til að verja brothætta hluti, eins og postulín, þegar flytja þurfti þá langar leiðir. Hinir brothættu hlutir voru þá þaktir þessum fræjum og virkaði vel. Nú hefur bóluplast leyst fræin af hólmi í þessum tilgangi. Þessi siður, að pakka brothættu postulíni í fræ keisaratrés, er talinn hafa átt sinn þátt í því að dreifa trénu í Bandaríkjunum. Fræin gátu vel lifað sjóferðina af og þegar þeim var hent gátu þau spírað. Enn má sjá afkomendur þeirra í Vesturheimi. Það má vel halda því fram að þar séu trén bæði framandi og ágeng. Þau þykja svo falleg í blóma að fáir amast við þeim.
 
Viður trjánna er víða nýttur. Tréð er hraðvaxta og viðurinn þykir eftirsóknarverður. Hann er endingargóður, ljós á litinn og mjög sterkur miðað við þyngd. Hann er fráleitt jafn sterkur og til dæmis eik, en miklu léttari. Svo er það heppilegur eiginleiki að hann klofnar ekki auðveldlega þótt naglar séu reknir í hann. Saman gera þessir eiginleikar það að verkum að mjög gott er að vinna með viðinn (Spade 2020). Viðurinn hefur verið notaður í allskonar smíðagripi, bæði stóra og smáa. Í Japan var viðurinn lengi notaður í ilskó og klossa og víða í Austur-Asíu er viðurinn gjarnan notaður í strengjahljóðfæri en einnig í húsgögn og fleira (Wells 2010, Spade 2020).
 
 

Kínverskt strengjahljóðfæri úr viði keisaratrés. Um hljóðfæri úr skammlífum keisaraviði mætti segja á latínu: Ars longa, vita brevis. Listin er löng, lífið er stutt. Leit á netinu sýnir að viðurinn er einnig notaður í gítarsmíði. Myndin fengin héðan en hana á Shigeru Yoshikawa.

Siðvenjur

Ýmsir skemmtilegir siðir tengjast þessum trjám í Asíu. Samkvæmt Spade (2020) og Wells (2010) þykir það góður siður, bæði í Kína og Japan, að planta keisaratré þegar stelpur fæðast í fjölskyldunni. Helst á að planta því sem næst íbúðarhúsinu. Tréð þykir mörgum bæði fallegt og kvenlegt og átti það sinn þátt í að breiða siðinn út. Við vitum flest hvað okkur þykir ungabörnin okkar vaxa fljótt úr grasi, en það gerir keisaratréð líka. Áður fyrr var litið svo á að þegar stúlkurnar höfðu náð giftingaraldri höfðu trén náð fullorðinsaldri. Hefðin mælti svo fyrir að fyrir brúðkaupið væru trén söguð niður og úr þeim smíðaður fataskápur og jafnvel fleiri húsgögn eða aðrir hlutir handa brúðinni sem fylgt gætu henni alla ævi og verið hennar heimanmundur. Í þessum fataskáp bar konunni að geyma brúðarkímonóinn. Þótti hinn mjúki viður keisaratrésins heppilegur í þetta því þótt kímonóinn hafi verið úr hinu fegursta og viðkvæmasta silki þá gæti viður keisaratrés verndað hann fyrir tjóni. Að geyma slíka dýrgripi í skápum úr grófari við gæti boðið hættunni heim. Sérstök brjósthlíf, sem japanskar brúðir notuðu, var einnig smíðuð úr þessum efnivið.
 
Nú orðið tíðkast þessi siður ekki víða en það eimir samt eftir af honum, samkvæmt Spade (2020). Hlutir úr keisaraviði þykja enn mjög viðeigandi brúðkaupsgjafir.
 
 

Vínskápur úr ljósum viði keisaratrés er tilvalin brúðargjöf. Myndin fengin frá Meriden Furnetura.

Í Japan þykir þessi tegund mikilvæg í allri menningu og siðum. Stílfærð mynd af því er í opinberu innsigli forsætisráðherra Japans. Á því má sjá þrjú lauf trésins og þrjár blómgreinar þar fyrir ofan. Blómgreinarnar bera fimm, sjö og fimm blómknúppa. Það er engin tilviljun. Þeir eiga að minna á ljóðaformið hæku. Hver hæka hefur þrjár línur með fimm, sjö og fimm atkvæðum.
 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00

Tré og upphaf akuryrkju í heiminum

Sigurður Arnarson skrifar
16. október 2024 | kl. 09:09