Sigurður Arnarson skrifar
20. febrúar 2025 | kl. 15:00
TRÉ VIKUNNAR - 101
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins. _ _ _
Skógar gegna margvíslegu hlutverki í vistkerfum heimsins. Það á að sjálfsögðu einnig við um Ísland, þótt þekja skóga hér á landi sé minni en víðast hvar í heiminum þar sem umhverfisaðstæður eru keimlíkar. Skógar hafa áhrif á loftslag og veðurfar, binda kolefni, skýla landi, tempra áhrif úrkomu og auka þanþol og seiglu vistkerfanna. Er þá aðeins fátt eitt nefnt.
Við höfum áður fjallað um ráðgátuna um vatnsflutninga og skóga sem vatnsdælur. Nú er komið að því að segja frá því hvernig skógar miðla úrkomu og verja þannig landið bæði fyrir þurrki og flóðum. Geta vistkerfis til að taka við, geyma og miðla úrkomuvatni er mikilvægur hluti vatnshringrása allra vistkerfa. Rofni sú hringrás hefur það neikvæð áhrif á allt líf. Þarna gegnir mold og allur gróður, þar með talið skógar, mjög mikilvægu hlutverki, bæði við miðlun og geymslu, en ekki síður við að halda þessum hringrásum tiltölulega stöðugum. Til að vistkerfi heimsins virki verður mikilvægi þess að hringrásir jarðar haldi velli seint ofmetið. Því þykir okkur rétt að fjalla aðeins nánar um þetta hlutverk skóga. Á næstunni munum við birta fleiri pistla sem tengjast þessu efni.
Hengibrú yfir Brunná í Kjarnaskógi sem er umkringd grenitrjám. Þegar vorar mun snjórinn bráðna og vatnið renna í burtu eða niður í jarðveginn. Betra er að það gerist ekki of hratt þ í þá gætu orðið flóð. Skuggi trjánna og jöfn dreifing á snjónum mun hægja á ferlinu og draga úr hættu á vorflóðum. Auk þess er skógarjarðvegur gegndræpari (hefur meira ísig eins og við segjum frá hér síðar) en jarðvegur á skóglausu landi og getur því tekið í sig meira vatn sem síast þannig rólega áfram innan kerfisins. Þannig miðlar skógurinn vatninu á vorin sem þarna bíður frosið í vistkerfinu. Kostirnir eru fleiri og munum við nefna suma þeirra í greininni. Mynd: Sig.A.
Hringrás vatns
Vissulega höfum við áður nefnt hringrás vatns í pistlum okkar, til dæmis hér. Að auki er sitthvað kennt um hana í grunnskólum landsins. Samt þykir okkur rétt að rifja hana upp, svona til að koma okkur í gírinn. Það gerum við með því að birta myndina hér að neðan. Hún sýnir hvernig vatn dreifist um vistkerfið. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga fyrir framhaldið.
Þar sem regn fellur í gróskumikla jörð geymir moldin vatnið og það er nýtt af gróðri. Ef ástand lands er slæmt rennur vatnið af yfirborðinu án þess að nýtast, getur valdið miklum flóðum og tekið með sér jarðveg og næringarefni. Hvort tveggja getur valdið skaða. Teikninguna fengum við lánaða úr ritinu Að lesa og lækna landið en hana teiknaði Fífa Finnsdóttir.
Við þetta má bæta þeirri vel þekktu staðreynd að þegar hlýtt, rakt loft stígur upp úr hafi eða vötnum þá kólnar það, þéttist og myndar ský. Þegar loftið rís upp dregur það kaldara loft í stað þess er reis upp þannig að hringrás myndast. Þannig er kerfið, sem sést á myndinni hér að ofan, á stöðugri hreyfingu.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.