Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Jólaævintýraferð: Er þetta alvöru engill?

Gistiheimilið í prédikunarstólnum í Akureyrarkirkju hefur verið uppbókað undanfarið og því hefur Jesúbarnið þurft að koma sér fyrir í fjárhúsinu hjá altarinu. Nemendur Lundarskóla lifðu sig vel inn í hlutverk sín í jólaævintýrinu.

Jólaguðspjallið hefur heldur betur lifnað við í Akureyrarkirkju síðustu daga í höndum sex ára grunnskólabarna og starfsfólks kirkjunnar. Englar hafa flögrað þar um, vitringarnir þrír verið þar á vappi, sem og Ágústínus keisari, hirðingjar og að sjálfsögðu María mey og jólabarnið. Þá hefur einnig verið opnað gistiheimili í prédikunarstólnum.

„Þetta er annað árið í röð sem við bjóðum öllum 6 ára grunnskólabörnum á Akureyri og Hrafnagili í heimsókn í kirkjuna á aðventunni. Í ár þáðu allir skólarnir boðið eða tæplega 150 börn,“ segir Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti í Akureyrarkirkju, sem tekur á móti blaðamanni íklædd hvítri hárkollu og með geislabaug en þannig hefur hún meira og minna verið klædd undanfarið, í hlutverki Gabríels erkiengils.

Jólaguðspjallið lifnar við í leik

„Við bjóðum börnum upp á jólaævintýraferð um kirkjuna sem er í raun jólaguðspjallið í leik þar sem þau taka sjálf þátt. Þau upplifa söguna sem sagt sem þátttakendur, fara strax í hlutverk og lifa sig inn í þetta,“ segir Sigrún Magna og bætir við að það sé rosalega gaman fyrir krakkana að heyra þessa sögu sem og aðrar mystískar sögur, hvort sem þær eru úr kristinni trú eða öðrum trúabrögðum. Það er ekki verið að sannfæra þau um neitt hérna heldur bara gefa þeim tækifæri til að upplifa þessa stórkostlegu sögu og eiga notalega upplifun hér í kirkjunni,“ segir Sigrún Magna .

Jólaguðspjallið lifnar við í Akureyrarkirkju. Sagan er sögð á ferð um kirkjuna og þurfa krakkarnir að taka þátt í sköpun sögunnar með því að bregða sér í helstu hlutverk. 

Himnaríki á orgelloftinu ...

Blaðamaður Akureyri.net fékk að fljóta með hópi barna úr Lundarskóla í heimsókn í kirkjuna og fékk því að upplifa jólaævintýrið beint í æð. Ferðin byrjaði á því að sögumaður tók á móti hópnum við bakinnganginn í kirkjuna en þar þurftu börnin að skrá sig inn hjá Ágústínusi keisara sem vildi gjarnan fá nöfn barnanna svo hann gæti rukkað þau um skatt. Rukkunin kemur líklega inn í heimabankann. Þrjú börn úr hópnum fengu síðan vitringabúning og gjafir sem þau tóku með sér í ferðina til Betlehem sem lá upp stigann og í gegnum kirkjuna. Á leiðinni var lagið Bjart er yfir Betlehem sungið alveg þar til komið var upp á orgelloftið eða upp í himnaríki. Þar bankaði sögumaður á dyr himnaríkis og opnaði engill í fullum skrúða og bauð hópinn velkominn. Einhverjir í hópnum voru feimnir við að stíga inn  og fannst sumum óljóst hvort um alvöru engil væri að ræða eða bara leikara.

... og gistiheimili í prédikunarstólnum

Á orgelloftinu útskýrði erkiengillinn fyrir krökkunum að hlutverk englanna sé að hughreysta fólk og segja þeim að vera óhrætt við það sem væri að fara að gerast. Englahópurinn stækkaði töluvert á orgelloftinu því nokkrir úr krakkahópnum fengu það hlutverk að vera englar. Aðrir voru síðan settir í hlutverk fjárhirða og svo þurfti líka einhver að bregða sér í hlutverk Maríu meyjar og Jóseps. Ferðin hélt áfram í gegnum andyrið yfir engið hjá fjárhirðunum, að gistiheimilinu í prédikunarstólnum og loks í fjárhúsið hjá altarinu þar sem jólabarnið beið. Rökkvuð kirkjan passaði einstaklega vel við þessa ævintýraferð, en umgjörðin ýkti dramatíkina sem og dauf kertaljós og tónlist. Ekki var annað að sjá en að krakkarnir væru ánægðir með heimsóknina og líklegt að sagan um fæðingu frelsarans hafi heldur betur fest sig í minni þeirra.

Starfsfólk Akureyrarkirkju í hlutverkum sínum í jólaævintýrinu. Talsverður tími hefur farið í undirbúning og búningastúss en ríflega 140 sex ára krakkar hafa komið í kirkjuna undanfarið og upplifað jólaguðspjallið. Frá vinstri: Séra Jóhanna Gísladóttir, séra Hildur Eir Bolladóttir, séra Aðalsteinn Þorvaldsson, Tinna Hermannsdóttir æskulýðsfulltrúi og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti.

Lifa sig inn í söguna

„Við fengum þetta handrit frá Háteigskirkju sem fékk það að ég held frá Danmörku. Í fyrra upplifðum við strax að þetta væri stórkostlegt verkefni og fengum mjög góð viðbrögð. Í ár eru bæði fleiri skólar og fleiri bekkir að koma til okkar og mér finnst þau vera rosalega glöð þegar þau fara héðan og lifa sig alveg inn í þetta,“ segir Sigrún Magna. Blaðamaður gat ekki betur séð en að starfsfólk Akureyrarkirkju lifði sig líka vel inn í sín hlutverk og hafði ekki síður gaman jólavævintýrinu en börnin. „Það er líka gaman þegar maður er fullorðinn, hvort sem það er í kirkju eða annarsstaðar, að leika með börnunum. Að vera með og vera í hlutverki, þau kunna alveg að meta það,“ segir Sigrún Magna og bætir við að jólaævintýrið sé komið til að vera í Akureyrarkirkju, svo fyrstu bekkingar á næsta ári eiga þar von á góðu.

Gabríel erkiengill á orgelloftinu í Akureyrarkirkju. 

Ágústínus keisari skrásetur alla við komu svo enginn komist undan skattgreiðslu. Til hægri sést bláklæddur gistihúseigandi sem rekur gistihús í prédikunarstólnum.

Jólakvöld séra Svavars Alfreðs

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 12:30

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00