Fara í efni
Pistlar

Karlakór í Kalabríu – II

Fyrr í þessum mánuði dvaldi Karlakór Akureyrar - Geysir við leik og söng í Kalabríu, héraði syðst á Ítalíu. Svavar Alfreð Jónsson er einn kórfélaga og segir lesendum Akureyri.net ferðasöguna. Fyrri hluti frásagnarinnar birtist í gær og sá síðari í dag._ _ _

Nóg er að sjá og skoða í Kalabríu. Strendurnar eru fjölbreyttar með víkum, vogum, klettum, hellum og fjörusandi þar sem hægt er að liggja undir sólhlíf og hlusta á öldur Tyrrena- eða Jónahafs. Þaðan sjást eyjarnar vestur af Kalabríu. Eldfjallaeyjan Stromboli er sennilega þeirra frægust en einnig má í góðu skyggni sjá í Etnu á Sikiley, hæsta eldfjall Evrópu og eitt það virkasta í heimi. Messinasundið á milli Kalabríu og Sikileyjar er ekki nema rúmir þrír kílómetrar þar sem það er mjóst.

Fjalllendi er töluvert í Kalabríu. Hæsta fjallið er tæpir 2000 metrar. Snjóað getur í fjöllin og þar má renna sér á skíðum. Margir fallegir staðir eru í fjöllunum sem gaman er að heimsækja, m. a. Sila þjóðgarðurinn.

Stromboli blasir við frá strandbænum Tropea. Myndir: Svavar Alfreð Jónsson

Kalabría á urmul af undurfögrum þorpum og bæjum. Hluti íslenska hópsins gisti t. d. í Tropea sem kjörinn var fallegasti bær Ítalíu árið 2021. Þegar hefur verið minnst á hinn magnaða stað, Pizzo og ennfremur skoðaði hópurinn sig um í fiskimannabænum þokkafulla Scilla. Strandgatan í borginni Reggio Calabria, Lungomare Falcomatà, er að sögn margra fegursti kílómetri Ítalíu. Á glæsilegu útisviði þar tók Karlakór Akureyrar Geysir lagið fyrir vegfarendur.

Kalabrískt hnossgæti, laukur og eldpipar.

Kalabría er sælkerahérað. Þar er hægt að gæða sér á allskonar sjávarfangi, sverðfiski, túnfiski og skelfiski, svo nokkuð sé nefnt. Sérlega ljúffengur rauðlaukur er eitt helsta stolt sveitanna á vesturströndinni og þar eru líka ræktuð kynstrin öll af fagurrauðum eldpipar. Kalabríubúar hafa gjarnan matinn sinn duglega kryddaðan. Þar er hægt að kaupa hressilega sterkt eldpiparmauk og bragðmiklar kryddpylsur í búðum eða beint frá bóndanum. Upplagt er að dýfa brauðinu í kalabríska ólífuolíu og láta kalabrísk gæðavín gæla við góm og tungu.

Í Hellakirkjunni í Pizzo.

Kórfélagar syngja í Hellakirkjunni.

Kalabría á helling af helgum stöðum og einlæg og þjóðleg katólska er áberandi með útialtörum og líkneskjum af Maríu guðsmóður og dýrlingum. Yfir aðaltorginu í Pizzo stendur Ave Maria á stóru ljósaskilti uppi á ráðhúsinu. Kórinn heimsótti safn í klaustri heilags Brúnós, sem stofnaði munkareglu karthúsíana um það leyti er Ísland var að kristnast. Reglan starfar enn og er ein sú strangasta í kaþólsku kirkjunni. Munkarnir lifa einir, hver í sínu rými og hittast aðeins yfir máltíð á sunnudögum. Þá er þeim heimilt að tala saman. Fjórtán munkar halda til í klaustrinu í Serra San Bruno en þar er safnið sem hópurinn fékk að skoða. Í sömu ferð höfðum við viðkomu við skógartjörn sem orðinn er mikill helgistaður. Þar öðlast vatnið lækningarmátt á öðrum degi páska ár hvert. Þótt enn sé langt til páska prófuðu einhverjir kórfélagar vatnið. Þeir urðu alla vega ekki verri eftir það – og jafnvel ekki laust við að sumir hefðu eitthvað skánað.

Kraftaverkatjörnin.

Síðasta kvöldið í Kalabríu hélt Karlakór Akureyrar Geysir tónleika í ráðstefnumiðstöð Magic Life. Á þriðja hundrað stólum hafði verið stillt upp í salnum og þegar kórfélagar hófu sönginn undir stjórn Valmars var setið í nánast öllum. Undirtektir voru góðar og þurti að syngja mörg aukalög.

Ítölsk kona gaf sig fram við nokkra kórmenn eftir tónleikana, þakkaði innilega fyrir sig og hrósaði okkur fyrir að bæði hefði sést og heyrst að við hefðum svo gaman af að syngja. Hún sagðist vera frá Toskana og þar eins og annars staðar á Ítalíu, ætti söngurinn undir högg að sækja. Það væri mikið áhyggjuefni, ekki síst í þessu heimalandi söngsins.

Söngurinn bætir andlega og líkamlega heilsu og eflir samfélag mannanna. Það er verðugt verkefni karlakórsins og annarra söngfugla að finna leiðir til að gera veg hans sem mestan. Þessi ferð þjappaði okkur kórfélögum saman í þeirri mikilvægu baráttu.

Frábærir lokatónleikar í flottum sal! Mynd: Bryndís Björnsdóttir

Eitt einkenni vel heppnaðra ferðalaga er ljúf heimkoman. Þótt veikindi hafi herjað á hópinn var hann sæll með leiðangurinn. Við erum þakklát þeim sem gerðu þetta Kalabríuævintýri mögulegt, frábærum fararstjórum Heimsferða, þeim Ágústu og Heru og þeirra hjálparkokkum, læknunum í hópnum sem liðsinntu og líknuðu, Valmari, flinka stjórnandanum okkar, Bensa formanni fyrir að hafa góða skikkan á öllu og síðast en ekki síst samferðafólkinu sem var svo indælt og glatt.

Takk fyrir mig! 

Svavar Alfreð Jónsson er félagi í Karlakór Akureyrar - Geysi

Í klausturgarðinum í Serra San Bruno

Vaktmenn nikkunnar hans Valmars.

Hellakirkjan í Pizzo er magnaður staður. Hér erum við á leið inn í hana.

Enn ein dýrðarmáltíðin.

Þrír gaurar á torgi sem kennt er við þann fjórða.



Hitafundur á ströndinni.
 


Í Tropea

Á útsýnisstaðnum ægifagra Capo Vaticano.

Capo Vaticano


Capo Vaticano


Heiðursmenn á ferð.

 
Þessir heilluðu senjóríturnar í Reggio.
 

Gengið á útisviðið við strandgötuna í Reggio Calabria. Messínasund og Sikiley í bakgrunni.
 


Sungið á sviðinu glæsilega við strandgötuna í Reggio Calabria. Mynd: Mynd Bryndís Björnsdóttir.

Hið þokkafulla sjávarpláss, Scilla.


Ágústa fararstjóri reynir að hafa stjórn á liðinu.


Götumynd frá Scilla, vinnubíll og munkar spjalla við vegfarendur.


Fiskimannahverfið í Scilla.

Felix og Badda tsjilla í Scilla.


Veitingahús í Scilla.


Tónleikarnir undirbúnir í Magic Life.


Ferðafélagi úr Karlakór Eyjafjarðar bauð upp á snafs eftir tónleikana í Magic Life. Hér eru menn vel sungnir.

Gott var að sitja á þessum bekk í skóginum á milli hótels og strandar. Ég gæti alveg hugsað mér að setjast í hann aftur.

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. október 2024 | kl. 06:00

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30

Sláturtíð

Jóhann Árelíuz skrifar
27. október 2024 | kl. 14:30

Ójöfnuður í geðheilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
26. október 2024 | kl. 09:00