Fara í efni
Pistlar

Karlakór í Kalabríu – I

Mánudaginn 7. október síðastliðinn lögðu félagar í Karlakór Akureyrar - Geysi ásamt fylgifiskum af stað til Kalabríu, héraðs syðst á Ítalíu. Ferðin var skipulögð af ferðaskrifstofunni Heimsferðum í samráði við ferðanefnd KAG.

Kalabría er nýr áfangastaður Heimsferða. Fyrsti íslenski hópurinn þangað fór frá Akureyri en þota ítalska flugfélagsins Neos hóf sig á loft frá flugvellinum þar.

Eftir um það bil fimm tíma þægilegt flug var lent á Lamezia Terma flugvellinum á rist Ítalíustígvélsins. Ferðalangarnir dvöldust ekki allir á sama stað. Hluta þeirra var ekið á hótel í hinum undurfagra strandbæ, Tropea, sem valinn var fegursti bær Ítalíu fyrir nokkrum árum. Kórfélagar og fleiri héldu til á TUI Magic Life hótelinu sem er í um það bil tuttuga mínútna akstursfjarlægð frá Lamezia Terme.

Ein sundlauganna á Magic Life.

Kalabría og önnur héruð syðst á Ítalíu hafa ekki orðið fyrir sama ágangi sólþyrstra túrhesta og aðrir hlutar landsins en það er að breytast. Hótelið Magic Life er ein vísbending þess. Það var byggt skömmu fyrir kóvíd af þýsku fyrirtæki, TUI, og hafði aðeins starfað skamman tíma þegar þurfti að loka því. Hótelið var opnað aftur þegar faraldurinn hafði runnið sitt skeið en eins og kunnugt er varð Ítalía mjög illa úti í honum.

Hengirúmin á leiðinni niður á strönd.

Hugmyndafræðin á bak við Magic Life er að skapa umhverfi þar sem öllum þörfum ferðamanna er sinnt. Allt er innifalið í dvalargjaldinu, gisting, allur matur, snakk og drykkir. Allskonar afþreying er í boði. Hótelgestir ganga í gegnum dásamlegan furuskóg niður á einkaströnd með sólbekkjum, sólhlífum, strandbar og veitingastað. Á leiðinni í gegnum skóginn er boðið upp á leiksvæði fyrir börn, útitafl, bocciabrautir, pall fyrir jóga, hengirúmasvæði, aðstöðu til að stunda bogfimi og þegar á ströndina er komið blasir við völlur fyrir strandblak . Fimm sundlaugar eru á svæðinu, hárgreiðslustofa, spa, líkamsræktarstöð, verslun og barir. Einn þeirra er opinn allan sólarhringinn. Aðalveitingastaðurinn býður upp á allskonar hlaðborð en ennfremur eru fjórar aðrar matsölur á svæðinu. Gestir geta skráð sig í sundleikfimi, farið í túra á fjallahjólum eða leigt sér ýmiskonar siglingartæki. Þau sem kunna tennis geta valið um nokkrra velli til að spila íþróttina. Þeim sem aldrei hafa sveiflað tennisspaðanum gefst kostur á kennslu í henni. Auk þess eru fótboltavellir í þessum töfraheimi, leiksvæði fyrir börn og sjálfsagt gleymi ég einhverju í allri þessari upptalningu.

Pizzo

TUI Magic Life er tilbúinn heimur, hannaður til að höfða til ferðamanna en heimilisfang hótelsins er í strandbænum Pizzo. Boðið er upp á skutlu og leigubíla frá hótelinu þangað og Pizzo er skemmtilegur bær. Auðvitað er hann manngerður eins og hótelið sem reis á nokkrum árum en Pizzo var margar aldir að myndast og hannast. Það finnur maður um leið og gengið er niður í gamla bæinn. Öfugt við manngerða túrhestaveröldina á hótelinu er Pizzo iðandi af sögu. Þar standa ágengir kaupahéðnar fyrir utan smábúðir í þröngum götum og reyna að selja vegfarendum ilmvötn, hatta, drykki, gleraugu eða annan varning. Vertar ganga í veg fyrir þig og beina fólki veg inn til sín, þar sem gjarnan er boðið upp á tartufo, sérstakan og gómsætan ís sem fundin var upp í Pizzo – eins og Akureyri er bærinn frægur fyrir ísgerð. Í Pizzo eru sögufrægir staðir. Þar eru til dæmis margar kirkjur, ein þeirra grafin inn í hella á ströndinni, þar sem skipbrotsmenn leituðu skjóls og heilög María bjargaði þeim. Kirkjan er listasafn með aragrúa fagurra höggmynda. Kastalinn í Pizzo er safn og þar var einn frægasti Pizzobúinn leiddur fyrir aftökusveit og skotinn af sínum eigin hermönnum.

Ferðasöguritari og frú á ströndinni.

Á aðaltorginu, þar sem við karlakórsmenn tókum lagið, er hægt að kaupa sér sýnisferð um bæinn í þriggja hjóla farartækjum með tvígengisvélum og einum bílstjóra. Þeir eiga til að slengja löpp út úr bílnum og stíga á götuna í beygjum til að varna því að bifreiðin velti með spenntum farþegum.

Við fengum okkur þannig túr og sáum ekki eftir því.

Sólarlag á ströndinni. Eldfjallaeyjan Stromboli út við ystu sjónarrönd.

Fjöldi matsölustaða er í Pizzo. Innfæddur hafði mælt með Locanda Toscana eftir að við höfðum spurt hann um bestu matsölustaðina. Síðar sáum við að hjólbarðaframleiðandinn Michelin gefur staðnum ennfremur meðmæli og eldamennsku meistarakokksins þar, Catarinu Malerba. Eitt kvöldið pöntuðum við taxa frá Magic Life og snæddum hjá henni. Það var hverrar einustu evru virði.

Svavar Alfreð Jónsson er félagi í Karlakór Akureyri - Geysi 

Hópurinn á flugstöðinni Lamezia Terme.

Kórkarlar í strandblaki.

Þessi voru í bílnum á undan okkur.

Myndist hættuástand í ferðinni er hægt að ýta á verndardýrlingstakkann.

Einn bílstjóranna góðu.

Eftirrétturinn hjá Catarínu Malerba sem meðal annars hafði að geyma villt jarðarber.

Hárkollumeistari í Pizzo býr viðskiptavin undir kvöldið.

Í miðbæ Pizzo.

Árni Jökull hóf upp raust sína á veitingahúsatorginu í Pizzo eftir góða flatböku og stórt glas af rauðvíni, söng glæsilega aríu og uppskar dynjandi lófatak viðstaddra.

I love Pizzo.

Formaður KAG, Bensi, og ferðanefndarmaðurinn Jónas spóka sig á strandbarnum á Magic Life.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00