Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Einsemdin hið innra, trúin og kærleikurinn

Séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.

Séra Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur predikaði við messu í Hólakirkju í Eyjafjarðarsveit eftir hádegi í dag, á öðrum degi jóla.



Þegar eldri sonur minn var lítill fól ég honum það hlutverk að lesa jólaguðspjallið yfir hátíðarmatnum á aðfangadagskvöldi. Ég hygg að þetta hafi nú frekar ýtt undir leshraða hans því auðvitað vildi drengurinn geta snætt sem fyrst hamborgarhrygginn og brúnuðu kartöflurnar og svo náttúrlega biðu pakkarnir óopnaðir undir trénu. Ég naut þess aftur á móti að hlýða á barnsröddina flytja mér boðskapinn um fæðingu frelsarans og friðarhöfðingjans því það er eitthvað svo rétt að meðtaka hann frá augum og rödd barnsins. Ekki síst þegar barnið þarf að hafa fyrir því að lesa orð sem eru því torskilin því þannig varpar barnið ljósi á það hvernig við öll hvert og eitt stöndum frammi fyrir lífinu sjálfu, já eins og börn sem eru að reyna að skilja hið óskiljanlega um leið og þau vona á hið góða. Það er eiginlega alveg bannað að flytja jólaguðspjallið með miklu sjálfsöryggi og tilþrifum, aðrir textar falla betur að slíku. Jólaguðspjallið er ekki til þess gert að við föngum það og gerum að okkar heldur fljótum með því eins og allar persónur þess. Því eins ólíkar og persónurnar eru þá eiga þær það allar sameiginlegt fyrir utan Heródes reyndar, að hvíla í æðruleysi og trú og uppskera fyrir vikið hugrekkið sem ber þau að lokum að jötu Jesúbarnsins. Þó getur maður rétt ímyndað sér að þau hafi öll verið skelkuð þarna á einhverjum tímapunkti sögunnar. Nú þess vegna voru auðvitað englarnir alltaf að hvetja þau áfram og segja „verið óhrædd.“ Englar eru hér og vísa okkur veginn.

Einmanaleiki hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu. Ég fagna því innilega því sennilega er fátt sem nútímamanneskjunni hefur þótt eins erfitt að ræða. Í rauninni þykir minna mál að tala um hina ýmsu geðkvilla og taugaraskanir en einmanaleika. Einhverra hluta vegna fylgir einmanaleikanum skömm eins og til marks um að við séum eitthvað misheppnuð ef hann skekur okkur. Þó er ekkert jafn víst í þessu lífi fyrir utan dauðann sjálfan en að við lifum einmanaleika á einhverjum tímapunkti ævinnar. Það er rétt að taka það fram að einmanaleiki þarf ekki að haldast í hendur við það að vera einn með sjálfum sér. Í raun getur einmanaleiki einmitt orðið nístandi sár þegar við erum innan um aðra og kannski aldrei jafn nístandi og einmitt þá. Ég held að einmanaleikinn skjóti rótum innra með okkur í frumbernskunni. Þegar klippt er á naflastrenginn við fæðingu og barninu lyft frá móðurskauti öskrar það í fyrsta sinn af lífs og sálarkröftum, það skynjar öryggisleysi og þráir aftur nándina, vill ekkert með vigtun og mælingu hafa, bara finna ylinn frá mömmu, húðina mjúku og lyktina hennar. Tengslamyndun er ein af okkar frumþörfum og raunar sú djúpstæðasta.

Mamma mín sem lést í upphafi þessa árs var ein af tíu systkinum. Það er sannarlega áskorun að tilheyra svo stórum hópi. Þegar amma hafði fætt þrjú elstu börn sín sagði læknirinn við hana að nú skyldi hún ekki eignast fleiri ef hún vildi halda heilsu, eftir þær skeleggu ráðleggingar bættust aðeins sjö í hópinn. Þau komust öll á legg og vel það og urðu farsælar manneskjur. Engu að síður greiðir maður visst gjald fyrir að vera einn af tíu systkinum þar sem annað foreldrið er mikið í burtu og hitt með heilsubrest.

Mamma varð ekkja um sjötugt, bjó þá í Reykjavík en sjö árum síðar flutti hún aftur norður og settist að hér á Akureyri í návígi við undirritaða. Hún var í sjálfstæðri búsetu en hafði aldrei lært á bíl. Mamma var fæddur verkefna og mannauðsstjóri, hún þurfti ekkert að sækja sér prófgráðu á Bifröst til að gegna því starfi. Hún fól manni endalaus verkefni og það gat stundum reynt á. Eftir því sem ég eltist varð mér hins vegar smám saman ljóst hvað bjó að baki. Mamma hringdi gjarnan í mig og hafði þá séð eitthvað sem var auglýst í Dagskránni eða Mogganum sem henni fannst áríðandi að ég nálgaðist annað hvort fyrir mig eða hana eða okkur báðar. Hún hringdi aldrei og sagði „ég er einmana, viltu koma í heimsókn?“ Hún hringdi ávallt með eitthvert skýrt markmið að leiðarljósi. Seinustu árin hennar hér var ég stundum farin að segja „mamma ég nenni ekki í þessa búð og mig vantar ekkert og þig ekki heldur en ég er til í að koma með þér á kaffihús og kjafta.“ Þá var það líka sem ég uppgötvaði þar sem við sátum augliti til auglitis og sötruðum okkar kaffi latte og snæddum sörur að mamma hafði farið á mis við mikilvæg tengsl í bernsku sinni. Mamma hennar gat ekki verið að fullu til staðar fyrir tíu börn í sinni vanheilsu og án stuðnings maka. Eðlilega ekki. Og því bjó einsemdin innra með mömmu frá frumbernsku. Hún þurfti of fljótt að vera sjálfri sér nóg. Það má alls ekki gerast meðan við erum lítil börn og höfum ekki þroska til að standa á eigin fótum andlega sem líkamlega. Þessi uppgötvun mín breytti algjörlega viðhorfi mínu til verkefnastjórnunar hennar því allt í einu skildi ég að þetta var ekki tillitsleysi heldur inngróin einsemd sem hún sjálf bar ekki kennsl á. Og þetta er saga svo margra af hennar kynslóð sem ólust upp í stórum barnahópum við vanefni og oft lítinn félagslegan stuðning.

Jólaguðspjallið er saga af frumtengslum. Guð kom í heiminn sem ómálga barn og leiddi að jötunni fólk úr ýmsum áttum. Fátæka fjárhirða, stönduga menntamenn, kornungt par sem aðeins átti hvort annað og loks ringlaðan gistihúsaeiganda í blússandi business. Já allskonar fólk, af öllum stéttum. Og hann leiddi það að jötunni undir stjörnubjörtum himni kaldrar nætur til fundar við eigið sjálf, eigin tengsl, eigin sorgir en síðast en ekki síst eigin einsemd. Þetta gerðist vegna þess að barnið býr yfir mættinum til að gera allt nýtt og þarna við jötuna varð fullorðna fólkið að börnum en barnið varð Guð og tók fólkið í faðm sér. Og trú þeirra varð sem ný og einsemd þeirra vék fyrir kærleikanum sem streymdi frá jötunni og blés þeim hugrekki í brjóst uns þau hættu að sýnast og verjast, krupu á kné í lotningu og friði og horfðust í augu hvert við annað og guðdóminn og djúpvirkur friður seytlaði um æðar þeirra. Þetta er aðeins í valdi barns að gera.

Iðkun trúarinnar er af minni reynslu eitt allra sterkasta vopnið gegn einsemd. Hlutverk kirkjunnar er að varpa ljósi á gildi manneskjunnar sem er einstakt, ómælanlegt og ómetanlegt og þess vegna yfir stétt og stöðu hafið. Einsemd okkar verður aldrei rofin með ytri gæðum heldur með því sem er ræktað innan frá. Mér fannst móðir mín ekki eiga minni trú en faðir minn sem var prestur. Ég held að hún hafi raunverulega sótt í trúna til að fást við þá einsemd sem hún fann en vissi ekki fyrr en í elli sinni hvaðan var upprunninn. Ég tengi sjálf við trúna sem andsvar við einsemd. Ekkert hefur orðið mér viðlíka styrkur í lífinu og samfylgdin við Jesú, ekkert sem hefur orðið mér jafn mikil huggun í sorg og hughreysting á ögurstundum. Stundum fer maður á staði þar sem enginn getur nálgast mann nema Guð.

Það er ekki lengur lítið barn á mínu heimili en synir mínir tveir voru hjá mér á aðfangadagskvöld og sá eldri bauðst til að lesa fyrir mig jólaguðspjallið þegar við vorum sest að borðum af því að það væri svo langt síðan hann hefði gert það síðast. Ég þáði það, að sjálfsögðu, því þó hann sé orðinn fremur dimmraddaður, kominn á þrítugsaldur, rúmlega einn og níutíu á hæð þá er hann barn Guðs og það eitt og sér er og verður alltaf nóg.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Jólakvöld séra Svavars Alfreðs

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 12:30

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00