Séra Aðalsteinn Þorvaldsson prestur við Akureyrarkirkju. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.
Séra Aðalsteinn Þorvaldsson predikaði við Hátíðarmessu í Akureyrarkirkju í dag, jóladag.
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.
Ljós í myrkrinu
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hallgrímur Pétursson orti:
Sólin til fjalla fljótt
fer um sjóndeildarhring
senn tekur nálgast nótt,
neyðin er allt um kring.
Dimmt er í heimi hér,
hættur er vegurinn,
ljósið þitt lýsi mér,
lifandi Jesús minn.
Við þekkjum vel stutta daga vetrar og myrkrið sem þeim fylgir. Við þekkjum það líka að myrkrið getur lagst yfir mannsandann líkt og Hallgrímur lýsir í ljóði sínu en þegar myrkrið er mest þá er það ljós Jesú sem lýsir Hallgrími.
Jólin eru ljósið sem skín í myrkrinu. Jólin eru straumhvörf í heiminum því Guð kemur og gengur meðal manna sem maður þegar: „Orðið varð hold“ og „í honum var líf og lífið var ljós mannanna“.
Ljós er líf
Ljósið er okkur mikilvægt, í reynd lífsnauðsynlegt. Án sólarljóss myndi allt líf taka enda. Ljós jólanna, ljós Krists, er ljós Guðs. Það er ljósið sem lýsir innra með okkur, er andlegt ljós og er ekki síður mikilvægt og lífgefandi eins og sjálft sólarljósið.
Þegar myrkur færist yfir huga og sál þá byrgir það okkur sýn, við verðum blind á aðra og blind á okkur sjálf. Myrkri verður ekki bægt í burtu nema með ljósi og við rötum ekki nema við sjáum hvert við erum að fara. Ljós leiðir til skilnings á hvert umhverfi okkar og ástand er. Ef við sjáum ekki hver vandin er þá sjáum við heldur aldrei hver lausnin er. Ljósið er líf.
Þegar ljósið lýsir manni þá hverfur líka óttinn, í myrkri hugans, í myrkri yfirhöfuð erum við óörugg, hrædd, tvístígandi. En þegar ljósið lýsir upp aðstæður þá minnkar og jafnvel hverfur óttinn. Já, ljósið er líf.
Ljós jólanna
Ljós jólanna er dýrmætt, lífgefandi og okkur gefið í kærleika. Jesús segir „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ Af okkur sjálfum getur ljósið líka lýst þeim sem myrkrið hylur. Við getum fært ljós jólanna inn í líf annarra.
Rétt og nauðsynlegt viðbragð við ljósi jólanna, ljósi heimsins, Jesú Kristi, er að vitna um það. Líkt og Jóhannes gerir, „hann kom til að vitna um ljósið.“ Vitna um að ljós heimsins er komið í þennan heim og þetta ljós bjóðist öllum sem þiggja.
Jólunum lýkur því ekki á þrettándanum heldur eru jólin rétt að byrja fyrir þá sem játa trú á Jesú Krist, Guð orðinn maður. Ljós jólanna eigum við að láta lýsa með okkur alla daga ársins, alla ævina og við eigum að lýsa ljósi jólanna, ljósi Jesú Krists, inn í líf allra sem á vegi okkar verða.
Já, ljós er líf.
Gleðileg jól, í Jesú nafni. Guð umlyki þig á allar hliðar, varðveiti ljósið í þér, láti myrkrið hverfa. Amen.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.