Úrslitakeppnirnar og ýmislegt fleira

Íþróttavikan býður upp á alls konar í þetta skipti. Úrslitakeppnir Íslandsmóta í blaki, körfubolta og íshokkí eru í gangi, en Akureyrarliðin á mismunandi stöðum í því ferli. Bæði blaklið KA hafa tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi, karlalið SA í íshokkí byrjaði einvígið gegn SR með myljandi markaveislu, en kvennalið Þórs í körfuboltanum spilar upp á áframhaldandi þátttöku eða sumarfrí á miðvikudagskvöldið. Besta deild karla í knattspyrnu er komin í gang og í vikulokin verður kvennadeild Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu loks kláruð.
ÞRIÐJUDAGUR - íshokkí
Annar leikur SA og SR í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí er á dagskrá í Laugardalnum á þriðjudagskvöldið. Fyrsti leikurinn var bráðfjörugur og skemmtilegur, ellefu marka veisla sem endaði með sigri SA.
- Toppdeild karla í íshokkí – úrslitaeinvígi – leikur 2
Skautahöllin í Laugardal
SR - SA
Þriðji leikur liðanna verður í Skautahöllinni á Akureyri strax á fimmtudagskvöld. Nái SA að vinna útileikinn á liðið möguleika á að endurheimta titilinn á heimavelli á fimmtudagskvöldið.
MIÐVIKUDAGUR - körfubolti
Kvennalið Þórs í körfubolta er komið í erfiða stöðu eftir töp í fyrstu tveimur leikjum liðsins í átta liða úrslitum Bónusdeildarinnar og verður að vinna á miðvikudagskvöldið til að fá fleiri leiki, annars fer Valur áfram í undanúrslit og Þór í sumarfrí.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik – átta liða úrslit – leikur 3
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:30
Þór - Valur
Ef Þór vinnur þennan leik verður fjórði leikur liðanna á heimavelli Vals á sunnudag. Þar dugir sömuleiðis ekkert annað en sigur til að halda einvíginu áfram.
FIMMTUDAGUR - íshokkí
Þegar þetta er ritað á mánudagsmorgni er ekki vitað hvernig annar leikurinn endar, en eins og áður sagði gæti lið SA átt þess kost að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn á fimmtudagskvöld, ef liðið vinnur fyrir sunnan á þriðjudag.
- Toppdeild karla í íshokkí – úrslitaeinvígi – leikur 3
Skautahöllin á Akureyri
SA - SR
Ef SR vinnur annan eða báða leikina í vikunni verður fjórði leikur liðanna í Skautahöllinni í Laugardal á laugardag. Enginn miskunn hjá Magnúsi, spilað annan hvern dag og barist til síðasta blóðdropa.
FÖSTUDAGUR - fótbolti
Ekki tókst að ljúka kvennadeild Kjarnafæðimótsins sem spilað var í desember og janúar. Óveður kom í veg fyrir að FHL kæmist til Akureyrar til að mæta Þór/KA, en biðin eftir Bestu deildinni verður nýtt til að spila þennan leik. Forvitnilegt að sjá hvernig liðin mæta til leiks skömmu fyrir aðalmótið. Þór/KA hefur spilað að mestu á heimaöldum leikmönnum, fengið eina að sunnan og eina að utan, en FHL hefur verið að bæta við sig erlendum leikmönnum upp á síðkastið og fæstar þeirra náðu að spila leik í Lengjubikarnum.
- Kjarnafæðimótið, kvennadeild
Boginn kl. 19:00
FHL - Þór/KA
Með sigri myndi Þór/KA tryggja sér sigur í mótinu, en ef FHL vinnur fer það eftir markatölunni hvort Þór/KA, FHL eða Tindastóll endar í efsta sætinu.
LAUGARDAGUR - blak og kannski íshokkí
Blakkonurnar í KA tryggðu sér örugglega sæti í úrslitaeinvíginu með 2-0 sigri á HK í undanúrslitum og bíða þess nú að vita hvaða liði þær mæta í úrslitaeinvíginu.
- Unbroken-deild kvenna í blaki – úrslitaeinvígi – leikur 1
KA-heimilið kl. 16
KA - Afturelding/Völsungur
Afturelding og Völsungur eigast við í hinu undanúrslitaeinvígi Unbroken-deildar kvenna og er staðan 1-1 í því einvígi. Völsungur og Afturelding mætast í oddaleik á Húsavík á þriðjudagskvöld og þá kemur í ljós hvort þessara liða verður andstæðingur KA í úrslitaeinvíginu.
- - -
Fjórði leikurinn í einvígi SA og SR er á dagskrá á laugardag, það er ef SA hefur ekki þá þegar tryggt sér titilinn. Ef úrslitin ráðast ekki í Reykjavík á laugardag verður oddaleikur í Skautahöllinni á Akureyri þriðjudaginn 15. apríl.
- Toppdeild karla í íshokkí – úrslitaeinvígi – leikur 4 (ef þarf)
Skautahöllin í Reykjavík kl. 17:45
SR - SA
- - -
SUNNUDAGUR - blak, fótbolti og kannski körfubolti
Karlalið KA í blaki tryggði sér örugglega sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn með 2-0 sigri á Aftureldingu í undanúrslitunum.
- Unbroken-deild karla í blaki – úrslitaeinvígi – leikur 1
KA-Heimilið kl. 16
KA - Hamar/Þróttur R.
Það kemur þó ekki í ljós fyrr en á miðvikudagskvöld hverjir mótherjarnir verða í úrslitaeinvíginu því eftir tvo leiki er staðan jöfn í einvígi Hamars og Þróttar úr Reykjavík, 1-1. Sigurlið í viðureign þessara liða mætir KA í fyrsta leik úrslitaeinvígisins á sunnudag.
- - -
Fari svo að Þórsstelpunum takist að vinna Val í þriðja leik liðanna sem spilaður verður á Akureyri á miðvikdagskvöld verður fjórði leikurinn í einvíginu spilaður að Hlíðarenda á sunnudag. Áfram yrði það þá barátta upp á áframhald eða sumarfrí hjá Þórsliðinu.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik – átta liða úrslit – leikur 4 (ef þarf)
Valsheimilið að Hlíðarenda kl. 19:00
Valur - Þór
- - -
Karlalið KA í knattspyrnu hóf leik í Bestu deildinni síðastliðinn sunnudag og gerði þá 2-2 jafntefli við KR á heimavelli. Næsta verkefni er verðugt því á sunnudag er á dagskrá útileikur gegn Víkingi.
- Besta deild karla í knattspyrnu
Víkingsvöllur kl. 19:15
Víkingur - KA


Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er vá fyrir dyrum – Börnin okkar

Hin raunverulega byggðastefna

Raunfærnimat er öflugt tæki
