Það er vá fyrir dyrum – Börnin okkar

Það er landris og náttúruvásérfræðingar og vísindamenn landsins spá í spilin. Þeir gefa sér nokkra daga til að meta stöðuna. Ef þörf þykir færa almannavarnir stöðuna yfir á hættu/neyðarstig, fólk er kallað til og gripið er til aðgerða samkvæmt tilbúinni áætlun. Vaktin er staðin þar til öll hætta er liðin hjá.
Á sama tíma og land rís og upp úr jörðu gýs gefa sérfræðingar skólakerfisins sér nokkra daga, vikur, mánuði og ár til að bregðast við lágu risi barnanna okkar hvað lesskilning varðar sem er undirstaða alls náms og lykill að farsæld. Menn lýsa ekki yfir hættu/neyðarstigi, fólk er ekki kallað til, það er engin aðgerðaráætlun. Það stendur enginn vaktina. Það ber enginn ábyrgð.
Um 40% barnanna okkar eða um 1600 unglingar mælast undir stigi 2 í lesskilningi (PISA 2022) eftir tíu ára skyldunám í grunnskóla. Það merkir að þessir einstaklingar glíma við stórar áskoranir hvað áframhaldandi nám eða þátttöku í atvinnulífi varðar (OECD). Það hriktir í stoðum jafnréttis með svona niðurstöðu á borðinu.
Á sama tíma og land rís og upp úr jörðu gýs gefa sérfræðingar barnanna okkar sem glíma við fjölþættan vanda sér daga, vikur, mánuði og ár til að bregðast við. Menn lýsa hvorki yfir hættu né neyðarstigi. Það er engin aðgerðaráætlun. Það stendur enginn vaktina. Það ber enginn ábyrgð.
Fleiri börn leiðast af beinnri braut yfir á þá grýttu og sársaukafullu og það sárvantar aðgerðir og úrræði. Aðstandendur kalla af örvæntingu út í tómið.
Tökum okkur náttúruvásérfræðingana og almannavarnir til fyrirmyndar. Vinnum saman sem eitt teymi, gerum aðgerðaráætlanir sem við grípum til komi til hættu/neyðarstigs og tökum mið af vísindum, köllum til fólk og stöndum vaktina í þágu barnanna okkar.
Það er vá fyrir dyrum, gefum okkur bara nokkra daga. Hvert einasta barn er demantur sem við eigum að slípa svo glansi allan hringinn svo hvergi beri skugga á. Demantur sem allir vilja bera og allir gæta.
Eflum grunnskólana, mælum árangur og gefum áskoranir miðað við færni, eflum félagsfærni og hreyfingu og hlúum að velferð. Útskrifum börnin okkar full sjálfstrausts, læs og skrifandi. Verum land tækifæranna fyrir öll börn sem verða fyrr en varir fullorðin.
Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari


Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Hin raunverulega byggðastefna

Raunfærnimat er öflugt tæki

Gefum von og söfnum rauðum fjöðrum í vængi vonarinnar
