Gefum von og söfnum rauðum fjöðrum í vængi vonarinnar

Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, verndari Lions á Íslandi tók á móti fyrstu Rauðu fjöðrinni 2025 á Bessastöðum síðastliðinn mánudag við hátíðlega athöfn. Geirþrúður Fanney Bogadóttir, fjölumdæmisstjóri Lions á Íslandi afhenti Höllu fyrstu Rauðu fjöðrina 2025 sem markar upphafið á landssöfnun Lions að þessu sinni.
Frú forseti þakkaði fyrir fjöðrina og sagði: „Fátt er mikilvægara en góð geðheilsa. Hún er grunnurinn að almennri vellíðan og velferð alls samfélagsins. Við þurfum að styðja við ungmennin okkar, vera þeim hvatning og fyrirmynd til að tala upphátt um tilfinningar sínar og líðan. Þess vegna gleður það mig mjög að Lions hreyfingin safni nú fyrir Píeta samtökin og styðji við þeirra ómetanlega starf.“
„Við leggjum lið“ eru kjörorð Lions. Meðal fjölmargra verkefna hreyfingarinnar hér á landi er landssöfnunin Rauð fjöður, sem fram fer á þriggja ára fresti.
Við undirbúning söfnunarinnar í ár var leitað til Lionsfélaga um allt land eftir hugmyndum að verðugum styrktarverkefnum. Það bárust fjölmargar tillögur sem kosið var um á þingi Lionsfélaga fyrir ári síðan.
Rauða fjöðrin 2025 verður seld við allar helstu verslanir landsins dagana 3.- 6. apríl til að fjármagna fræðslu- og forvarnarverkefni Píeta samtakanna sem ýtt verður úr vör í haust. Píeta samtökin ætla að bjóða öllum framhaldsskólanemum á landinu upp á fræðslu og til samtals um mikilvægi geðræktar og geðheilbrigðis. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að styðja við geðheilsu ungs fólks, vekja með þeim von og kenna þeim bjargráð þegar lífið virðist erfið áskorun.
Slagorð Píeta samtakanna eru meðal annarra #Segðu það upphátt og #Það er alltaf von.
Þau sem kaupa Rauðu fjöðrina gefa von og þannig safna landsmenn fjöðrum í vængi vonarinnar ungu fólki til heilla og bættrar geðheilsu. Eftir góða heimsókn og innihaldsríkt samtal kvöddu fulltrúar Lions og Píeta samtakanna Bessastaði með þakklæti í huga, það er auðséð að forsetahjónunum er umhugað um líðan þjóðarinnar og eru boðin og búin að styðja við Lions hreyfinguna og Píeta samtökin.
Þá verður einnig hægt að kaupa Rauðu fjöðrina á heimasíðu Lions www.lions.is og Píeta samtakanna www.pieta.is
#gefduvon #fyrirpíeta #rauðafjöðrin #lionsáíslandi #segðuþaðupphátt #þaðeralltafvon
Geirþrúður Fanney Bogadóttir er fjölumdæmisstjóri Lions á Íslandi og tónlistarkennari.
Ellen Calmon er framkvæmdastýra Pieta samtakanna.


Að bregðast ungu fólki í viðkvæmri stöðu

Fé án hirðis

Ákvarðanir teknar í Reykjavík – afleiðingarnar skella á okkur

Miklu stærra en Icesave-málið
