Oddeyrina í öndvegi
Árum saman hafa íbúar á Oddeyri kallað eftir endurbótum og endurskipulagningar Oddeyrar. Við gerð aðalskipulags var unnið af miklum heilindum, mikið samráð var haft við hagsmunaaðila og góð sátt var um þá niðurstöðu sem fékkst úr þessari vinnu.
Nú var komið að því að færa orð í athafnir og stjórnmálamenn á Akureyri voru nokkuð sammála um að ný skyldi hafist handa. En því miður varð það ekki og sannarlega voru engir peningar sjáanlegir í verkefnin á Eyrinni.
Það verður að breytast og íbúar sem eru margir orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi bæjaryfirvalda og þrátt fyrir að það hafi breyst og unnið nýtt rammaskipulag gerðist ekkert. Nú standa nokkur „skipulög“ er varða Eyrina sem vönduð skúffugögn og ekkert meir. Miðbæjarskipulagið aftur og aftur, rammaskipulag um Oddeyri, hugmyndir um framkvæmdir á Hvannavallarreit hafa orðið að veruleika, skipulag um suðurhluta Oddeyrar frá 1998 og fleiri. Hugleiðingar um framtíð íþróttavallarins var ein hugmyndin sem unnið var með fyrir 13 árum en hvarf. Kannski gerist eitthvað núna?
En nóg um það.
Hvar eigum við að byrja? Staðan á Eyrinni.
Auðu lóðirnar, ónýtu gangstéttarnar, ryðguðu ljósastaurarnir, grotnandi skúrarnir eða ruslið?
Auðar lóðir á Oddeyri eru orðnar nokkuð margar. T.d. við Lundargötu og Norðurgötu eru 9 - 10 lóðir þar sem hús hafa horfið af ýmsum ástæðum. Þau hafa brunnið eða verið rifin. Síðan eru ótrúlega mörg hús sem standa auð eða leigð ferðamönnum og hafa jafnvel ekki verið notuð til búsetu árum saman. Það er verkefni að skoða þá hlið peningsins.
Auð hús skila ekki mannlífi og virkni.
Gangstéttar eru afar lélegar víða, götur stagbættar og holóttar. Ljósastaurar eru af ýmsum gerðum og víða kolryðgaðir. Setja ljótan svip á umhverfið. Mikil þörf er á að hefja átak í umhverfismálum og umhirðu húsa á Oddeyri. Metnaðarleysi bæjaryfirvalda æpir á alla.
Tanginn er síðan hluti af vandmálinu en þar hefur uppbygging látið á sér standa og því miður er hætta á að stórkallalegar hugmyndir þar muni leiða til þess að þar gerist fátt á næstu árum.
Íbúar eru ekki sáttir og samráð var ekkert.
Bæjarfulltrúar, það er ekki nægilegt að skrifa fallegt skipulag og stinga því síðan ofan í skúffu og gleyma því. Það þarf fjármagn og metnað til að fylgja eftir skipulagi, annars endar það sem skjal í skjalageymslu bæjarins og nú þegar eru þau orðin allt of mörg sem þar hvíla.
Nú er kominn tími á athafnir í framhaldi af orðum. Það þarf metnað, framsýni og peninga til að byggja upp hverfi. Nú er kominn tími á að hefjast handa. Látum árin 2022 til 2026 marka tímamót í endurreisn Oddeyrar.
Jón Ingi Cæsarsson er í 20. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri.