Naumur Þórssigur gegn Haukum 2 í dag

Þórsarar unnu lið Hauka2 naumlega þegar liðin mættust í Íþróttahöllinni síðdegis. Niðurstaðan varð eins marks sigur, 27-26, og Þór áfram í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Selfyssingum, en með leik til góða.
Leikurinn var eiginlega allan tímann í járnum og munurinn aldrei meiri en þrjú mörk á annan hvorn veginn. Gestirnir úr Hafnarfirðinum náðu þriggja marka forystu í fyrri hálfleiknum, en munurinn eitt mark í leikhléi, 12-13. Þórsarar höfðu síðan frumkvæðið lengst af seinni hálfleiknum og náðu mest þriggja marka forystu, en Haukaliðið náði að jafna og komast yfir þegar stundarfjórðungur var eftir. Þórsarar komust tveimur mörkum yfir, 26-24, þegar tæpar fimm mínútur voru eftir, en Haukar jöfnuðu í 26-26. Oddur Gretarsson skoraði 27. mark Þórs þegar tæp mínúta var eftir af leiknum, en lokatilraunir Hauka til að ná sér í stig báru ekki árangur.
- Þór - Haukar2 27-26 (12-13)
Leikskýrslan
Tölfræðin
Staðan í deildinni
Þór
Mörk: Oddur Gretarsson 7, Hafþór Már Vignisson 5, Aron Hólm Kristjánsson 4, Halldór Kristinn Harðarson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2, Bjartur Már Guðmundsson 1, Ólafur Atli Malmquist Hulduson 1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 15.
Refsimínútur: 10.
Haukar2
Mörk: Jón Karl Einarsson 9, Egill Jónsson 6, Kristinn Pétursson 4, Arnór Róbertsson 3, Ísak Óli Eggertsson 2, Daníel Máni Sigurgeirsson 1, Gústaf Logi Gunnarsson 1.
Varin skot: Ari Digmus Maríuson 10, Birnir Hergilsson 1.
Refsimínútur: 2.
Selfoss er á toppi Grill 66 deildar karla með 22 stig úr 13 leikjum, en Þórsarar hafa 20 stig úr 12 leikjum. Eins og fram kom í upphitunarfrétt fyrr í dag nægir Þórsurum að vinna þá leiki sem eftir er því ef þeir enda jafnir Selfyssingum ná þeir efsta sætinu á betri árangri í innbyrðis viðureignum.
Leikirnir sem Þórsarar eiga eftir eru Herði (ú), HBH (h), HBH (ú) og HK2 (h).


Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019

Ósanngjörn byrði á landsbyggðarfólk

Takk Þór! Áfram fótboltaforeldrar

„Það er ómetanlegt að hafa griðastað“
