Takk Þór! Áfram fótboltaforeldrar

Takk Þór! Áfram fótboltaforeldrar.
Það er strax farið að örla á fótboltaspennu hjá mínum manni. Um leið og líður nær sumri og hugurinn byrjar að leita í skemmtilegustu stundir ársins. Úti á vellinum, spennan, orkan og gleðin.
Oft hefur mér dottið í hug að setja niður nokkur orð og þakka það sem vel er gert, sem mér finnst við almennt gera of lítið að, núna gerðist það. Því minn maður býr ekki svo vel að eiga aðgang að fótboltaliði, búandi á Þórshöfn.
Framanaf var það svo, og voru fræknir sigrar unnir og líka lærdómsríkir tapleikir með Ungmennafélagi Langnesinga. Frábær tími. En eftir því sem börnin eldast og fleiri þarf í hvert lið þá eiga minni félög erfitt með að manna keppnislið. Þá vorum við tvær virkar fótboltamömmur á Þórshöfn, með fjóra kraftmikla drengi sem bönkuðum uppá hjá Þór. Viðtökurnar voru ekkert nema frábærar. Sjálfsagt mál, allt fyrir íþróttina og til að efla börnin. Það má einnig geta þess að sömu sögu var að segja hjá KA, þar sem þrír þeirra prófuðu sig aðeins áfram fyrst. Allt hugsað í lausnum til að leyfa þessum drengjum að spila, æft heima á Þórshöfn en keppt með Þór. Öll flækjustig auðveldlega leyst, vissulega hjálpar Sportabler mikið til í þessu skipulagi.
Núna er minn yngri einn eftir af þessum fjórum, en er að fara inní fjórða sumarið sitt með Þór. Gleðin hjá honum 10 ára að fá að fara á Orkumót í Vestmannaeyjum er eftirminnilegust og ekki verra að lyfta þar bikar. Vináttan og félagslegi þroskinn situr eftir, ásamt auknu sjálfstrausti og lífsreynslu. Því fótboltinn er svo miklu meira en íþróttin sjálf.
Á hverju ári koma dramatískar fréttir af brjáluðum fótboltaforeldrum en sem betur fer er það afar, afar lítill en vissulega hávær hópur sem litar þá umræðu. Þau átta sumur sem ég hef staðið á kantinum, farið á mót og staka leiki landið þvert og endilangt, þá hef ég afskaplega sjaldan orðið vitni að leiðinlegri hegðun. Uppúr stendur meira af gleði, þreytu, rigningu, sól, plástrum, versta veðrið var á Króksmóti 2019 og sætasti sigurinn vítaspyrnukeppni í úrslitaleik á N1 mótinu 2023, nýir vinir, samheldni foreldra og kaffi í fellihýsa fortjaldi á milli leikja ofaná alla hina kaffibollana.
Allan daginn myndi ég mæla með þessu fyrir félagsþroska barnanna, hvaða íþrótt sem það er. Það er á mínu heimili spaugað með það svar sem ég kom með, þegar yngri sonurinn spurði af hverju við hefðum aldrei séð Gullfoss, og mamman svaraði um hæl að það væri „vegna þess að það væri ekki spilaður fótbolti þar“. Gullfoss er ekki að fara neitt, þessi ár koma ekki aftur.
Það er ekki sjálfgefið að kippa inn einum svona auka gaur, eða gaurum, sem bara mæta í keppnir, en getur skipt sköpum fyrir þá sem koma úr minni íþróttafélögum. Það er heldur ekki sjálfgefið að keyra landshorna á milli til að leyfa börnunum sínum að taka þátt í gleðinni. Því segi ég takk Þór og áfram fótboltaforeldrar!
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir er sérfræðingur á Rannsóknasetri í byggða- og sveitastjórnarmálum við Háskólann á Bifröst, og móðir ungs knattspyrnudrengs


Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019

Ósanngjörn byrði á landsbyggðarfólk

„Það er ómetanlegt að hafa griðastað“

Aðgengi og jafnrétti eru ekki sérréttindi heldur mannréttindi
