Lausa skrúfan snýr aftur á Glerártorg helgina 15. - 16. febrúar, þar sem þátttakendur úr Grófinni – Geðrækt ætla að hitta gesti, ræða um geðheilbrigði og safna framlögum til þessa mikilvæga verkefnis. Hópurinn verður á staðnum frá 12 – 17 báða dagana, en Svava Knútur kemur við og syngur lög og segir sögur klukkan 14 á laugardeginum.
Markmið Lausu skrúfunnar er ekki bara að styðja Grófina í dag, heldur einnig að skapa framtíðarsýn þar sem fleiri valdeflandi verkefni á Norðurlandi geta fengið brautargengi.
Grófin hefur lengi verið mikilvægur stuðningur fyrir fólk sem vill rækta andlega heilsu sína. Með því að styrkja Lausu skrúfuna hjálpar þú til við að tryggja að Grófin geti haldið áfram að veita ómetanlega þjónustu í samfélaginu. Þátttakendur Grófarinnar hafa meðal annars kallað Grófina griðastað og nýtt hana til að rjúfa félagslega einangrun og finna stuðning, en hægt er að lesa fleiri reynslusögur inni á heimasíðunni.
Fyrstu kynningu verkefnisins á Glerártorgi í október var vel tekið og sýndi fram á hversu margir vilja opna umræðuna um geðheilbrigði. Febrúar hefur nú verið valinn sem sérstakur mánuður verkefnisins – mánuður sem kallar á aukna sjálfsumönnun og samstöðu. Við hvetjum alla til að mæta, taka spjallið og leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið okkar betra!
Hvað er Grófin – Geðrækt?
Grófin – Geðrækt er gjaldfrjálst úrræði fyrir einstaklinga 18 ára og eldri á öllum stigum bataferilsins sem vilja bæta heilsuna með geðrækt og batavinnu gegnum hópastarf á jafningja-grundvelli. Markmið Grófar-innar er meðal annars að skapa tækifæri fyrir þau sem glíma við andlega erfiðleika til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og á eigin ábyrgð, sem og að skapa vettvang fyrir öll þau sem vilja vinna að geðrækt á jafningjagrunni, hvort sem þeir eru notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur eða einfaldlega áhugafólk um fram-farir í geðheilbrigðismálum.
Þess má geta að Lausa skrúfan verður seld í Pennanum, Byko og Ferro Zink út febrúar.
Sonja Rún Sigurðardóttir er verkefnastjóri kynningamála og Unghuga Grófarinnar.