Fara í efni
Umræðan

Háskólinn á Akureyri

„Stærsta byggðaaðgerð síðasta áratugar eða þveröfugt?“ var fyrirsögn í frétt RÚV á dögunum í tilefni af boðaðri sameiningu HA og Háskólans á Bifröst. Ferlið er umdeilt.

Söguágrip

Háskólinn á Akureyri var fyrst settur við hátíðlega athöfn í Akureyrarkirkju 5. september 1987. Lög um skólann voru samþykkt á alþingi vorið 1988. Fyrsti rektor Háskólans var Haraldur Bessason.

Formlegt upphaf Háskólans á Akureyri má rekja til ársins 1982: Í maí 1982 skipaði Ingvar Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra og þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra (1961-1987), nefnd til þess að gera tillögur um hvernig vinna mætti að því „að efla Akureyri sem miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar“.

Ingvar var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983. Stefnan var tekin fyrir Háskólann á Akureyri og varð ekki stöðvuð.

Næstu ár var unnið áfram að stofnun háskólamenntunar á Akureyri þótt ýmis ljón væru dregin upp.

Heimamenn knúðu á

Heimamenn á Akureyri og Norðurlandi knúðu á og höfðu frumkvæðið en einnig störfuðu áfram nefndir á vegum alþingis og ráðherra:

„Áhugi á framgangi þessa máls hefur verið mikill á Norðurlandi. Má m.a. geta ráðstefnu sem Fjórðungssamband Norðlendinga efndi til í júní 1985. …

Sérstök háskólanefnd á vegum Akureyrarbæjar skilaði ítarlegu áliti í febrúar 1987.“

„Stofnun Háskóla á Akureyri“ eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Þurfti að svara gagnrýni frá „kerfinu“

„Hlutverk Háskólans á Akureyri verður annað fremur en að standa í beinni samkeppni við Háskóla Íslands um námsframboð og rannsóknir … Ekki er heldur gert ráð fyrir að hann verði útibú frá Háskóla Íslands. Verður því strax í upphafi að marka honum með lögum þann vettvang, að hann geti þjónað hlutverki sínu sem sjálfstæð stofnun sem bjóði upp á nýjar námsleiðir er séu í samræmi við þarfir íslensks þjóðfélags hverju sinni … Eðlilegt er að tekið sé tillit til atvinnuhátta í næsta nágrenni skólans þegar fjallað er um hlutverk hans.“

Pólitísk ákvörðun á alþingi

Stofnun Háskólans á Akureyri var pólitísk ákvörðun tekin af alþingi fyrir þrýsting heimamanna og þingmanna þeirra. Enda lögð áhersla á tengingu skólans við heimaslóð þótt hann væri opinn á landsvísu:

Í lögum skólans stóð m.a.:

Í Háskólanefnd (stjórn) skulu m.a. „tveir fulltrúar tilnefndir til fjögurra ára.

Annar fulltrúinn og varamaður hans eru tilnefndir af bæjarstjórn Akureyrar og hinn fulltrúinn ásamt varamanni af heildarsamtökum sveitarfélaga á Norðurlandi“.

Örugglega var þessi sterka tenging skólans við heimaslóð mikilvægt lífakkeri hans næstu árin.

Haraldur Bessason rektor

Þrautseigja og kraftur fyrsta rektorsins, Haralds Bessasonar, starfsfólks og nemenda átti stóran þátt í að fleyta háskólanum yfir fyrstu árin. Strax í upphafi voru efasemdaraddir einkum frá háskólasamfélaginu og „kerfinu“ sem fyrir var í Reykjavík:

Að kæmi nýr háskóli sem í huga ýmissa átti bara að vera einn – Háskóli Íslands. Háskólagráður myndu lækka í verði.

Að sérkennilegt væri að íslenskur háskóli væri með eigið staðarnafn, Akureyri, við hlið Háskóla Íslands.

Að Háskóli kenndur við Akureyri sem stað fæli í sér þrengingu við ímynd skólans og alls háskólastarfs út á við.

Vildu margir að skólinn væri stofnaður sem deild – útibú – og bæri nafn Háskóla Íslands en sem betur fer tókst Háskólanum á Akureyri að standa á sínu nafni og dafna og vaxa að virðingu og metnaði á eigin forsendum.

Sterk grasrótartenging

Ég var á þessum árum skólastjóri á Hólum í Hjaltadal og fylgdist vel með þessari umræðu og baráttu Akureyringa og annarra Norðlendinga, sem var á köflum hörð og tvinnaðist inn í baráttuna fyrir Hólum í Hjaltadal.

Því miður var lögum um Háskólann breytt síðar og nú á bæjarstjórn Akureyrar eða Samtök sveitarfélaga á svæðinu ekki lengur fulltrúa í stjórn skólans. Slitið var illu heilli á þá formlegu tengingu við grasrótina heima fyrir með samræmdum lögum um opinbera háskóla. Sama var reyndar einnig gert við Hólaskóla þegar hann féll undir háskólalögin og var færður til menntamálaráðuneytis, sem var miður.

Hugsjónir – framtíðarsýn

Endurreisn Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal og stofnun Háskólans á Akureyri voru pólitískar ákvarðanir á sínum tíma, teknar af alþingi fyrir þrýsting grasrótar en ekki með boðvaldi að ofan.

Hugsjónin sem bar þessa skóla áfram var drifin af grasrót sem vildi efla fjölbreytni, þótti vænt um skólana, staðina og þá menntun, starf og ímynd sem þeir gefa byggðarlagi sínu og þar með landsmönnum öllum.

Með sjálfstraust og baráttuvilja

Mér verður hugsað til hinnar gömlu skólanefndar Hólaskóla og baráttufunda Fjórðungssambands Norðlendinga. Höfðingjanna Gísla Pálssonar á Hofi fyrir Hóla og Áskels Einarssonar, framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Norðlendinga 1971-1993, fyrir Háskólann á Akureyri.

Það er dýrmætt að eiga sterka grasrót sem er vökvuð. Gott er að muna söguna og fjöreggin geta verið brothætt.

Jón Bjarnason er fyrrverandi ráðherra, þingmaður og skólastjóri á Hólum í Hjaltadal.

Heimildir: Lög um Háskólann á Akureyri nr. 18. 1988.Lög um Háskólann á Akureyri frá 18.05 1992.Lög um opinbera háskóla nr. 85 frá 2008.RÚV 8. febrúar 2024.

Mjög skiljanleg umræða um EES

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. október 2024 | kl. 18:30

Hvalveiðar og geirfuglinn

Aðalsteinn Árnason skrifar
28. október 2024 | kl. 10:00

Vinnuvikan stytt en álag á nemendur aukið

Karl Liljendal Hólmgeirsson skrifar
27. október 2024 | kl. 16:00

Kennarar kjósa frekar mannúð en úlfúð

Hlín Bolladóttir skrifar
24. október 2024 | kl. 20:45

Bleikur dagur

Ingibjörg Isaksen skrifar
23. október 2024 | kl. 13:30

Umbúðalaust

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
22. október 2024 | kl. 11:07