Fara í efni
Umræðan

Jafnrétti, lýðræði og menntun í framhaldsskóla

Umræða um framhaldsskóla hér á landi snýst oft um skipulag og hagkvæmni sem sannanlega eru mikilvægir þættir fyrir rekstur skólanna. En eins og nemendur og kennarar í framhaldsskólum hafa jafnan lagt áherslu á þurfa gildi eins og jafnrétti og lýðræði að vera undirstaða fyrir skólastarfið.

Mennta- og barnamálaráðherra skipaði í apríl 2023 stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Verkefni hópsins er að móta aðgerðir til að ná markmiðum menntastefnu stjórnvalda til 2030 og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um eflingu iðn-, verk- og starfsnáms auk raungreinanáms. Menntastefnan var samþykkt af Alþingi árið 2021 og var mótuð í víðtæku samráði við skólasamfélagið, hagaðila og alþjóðlegar stofnanir. Stefnan nær til leik-, grunn- og framhaldsskóla og byggir á þeirri sýn að veitt skuli framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem öll geta lært og öll skipta máli. Þetta felur í sér að framhaldsskólar þurfa að bjóða nemendum nám við hæfi og þann stuðning og þjónustu sem nemendur þurfa á að halda til að geta stundað nám á farsælan hátt.

Lýðræðisleg gildi

Bakgrunnur að menntastefnu, sem nær til framhaldsskólans, eru auknar áherslur á lýðræði og jafnrétti og aukin gæði menntunar. Einn merkasti menntaheimspekingur 20. aldarinnar, John Dewey (1859-1952) lagði sérstaka áherslu á samspil menntunar, lýðræðis og jafnréttis, þ.e. „að menntun eigi sér fyrst og fremst stað í samvist sem einkennist af lýðræðislegum gildum.“ Grundvallaratriði í lýðræðislegri samvist „er því að hver og einn fái tækifæri til að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins, að hann geti upplifað sig sem hluta af því og að hann geti upplifað samfélagið sem vettvang þar sem hann getur leitast við að ná eigin markmiðum.“ Skólinn þarf því að vera „samfélag sem einkennist af virðingu, jafnræði og virkni.“ (Ólafur Páll Jónsson, 2010, bls. 32-33)

Meginforsendur menntastefnu stjórnvalda eru að öflugt og sveigjanlegt menntakerfi skuli stuðla að jöfnum tækifærum til náms. Í þessum anda Deweys, skulu öll hafa tækifæri, á eigin forsendum og án nokkurrar mismununar, til að þroskast og auka hæfni sína. Skólar og aðrar menntastofnanir eiga að taka mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinna út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt er að tryggja að öll finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess.

Nemendur kalla eftir auknu lýðræði

Út frá þessari stefnu er það m.a. verkefni stýrihópsins um eflingu framhaldsskóla að skoða hvort framhaldsskólinn hér á landi endurspegli vilja stjórnvalda og skólasamfélagsins í þessum efnum. Byggt er á þeirri forsendu að umgjörð og starf innan hvers framhaldsskóla stuðli að því að markmið menntastefnunnar náist. Þannig þurfa framhaldsskólar að vera í stakk búnir til að mæta nemendum sem eiga við námsörðugleika að stríða, upplifa vanlíðan eða hafa lítinn stuðning heima fyrir. Á undanförnum árum hafa búferlaflutningar fólks erlendis frá hingað til lands stóraukist. Þessir nýju íbúar auðga mannlífið og munu styrkja íslenskt samfélag ef rétt er á málum haldið. En þessari þróun þarf að svara með því að efla markvisst stuðning við nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn þannig að þeir fái sömu tækifæri í skólakerfinu og aðrir nemendur. Í framhaldsskólum geta verið ýmsar hindranir sem koma í veg fyrir að allir nemendur fái sömu tækifæri. Þar má nefna skort á aðgengi allra nemenda að skólahúsnæði, mismunandi inntökuskilyrði milli skóla og einhæft námsframboð. Því er unnið út frá því markmiði að í landinu séu starfræktir öflugir og sveigjanlegir framhaldsskólar með breitt námsframboð sem geti tekist á við þessar áskoranir.

Eins og Dewey benti á fyrir meira en einni öld síðan er aðgreining eða tvíhyggja milli bóknáms og verknáms úrelt. Í nútíma samfélagi eigum við að draga úr þessari tilgangslitlu flokkun í bóknám og verknám. Í framtíðinni ætti svo til hver framhaldsskóli hér á landi að geta boðið fram margs konar samsett nám, t.d. bóknám, iðn- og starfsnám, listnám svo nokkrar tegundir náms séu nefndar, sem býr ungt fólk sem best undir framtíðina. Hér er þó ekki um algild markmið að ræða og taka þarf tillit til styrkleika hvers framhaldsskóla, sögu, hefða, staðsetningar og hagkvæmni í rekstri.

Skoðanir nemenda í framhaldsskólum skipta að sjálfsögðu afar miklu máli fyrir þessa umræðu. Í tengslum við vinnu stýrihópsins leituðu stjórnendur Tækniskólans eftir samráði við nemendur skólans. Í samtali við rýnihóp nemenda, sem stundar fjölbreytt nám í skólanum, kom fram að þeir telja að „aðgreining í orðum eins og fjölbrautaskóli og menntaskóli skapi stéttaskiptingu sem sé gríðarlega stýrandi fyrir grunnskólanemendur í dag. Þeir benda á að menntun sé menntun og að ekki eigi að aðgreina hana jafn mikið og gert er í dag og veltu fyrir sér af hverju allir framhaldsskólar væru ekki kallaði menntaskólar.“ (Hildur Ingvarsdóttir, 18. maí 2023). Hér má finna athyglisverðan samhljóm milli skoðana nemenda Tækniskólans og klassískra hugmynda John Dewey um menntun, lýðræði og jafnrétti sem gæti verið mikilvægur vegvísir um þá menntastefnu sem framhaldsskólinn hér á landi gæti mótað og fylgt.

Framtíðin er ekki falin

Þegar horft er til framtíðar mætti einnig taka inn í myndina þau sjónarmið um menntakerfið sem komu fram í skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið. Þar segir m.a. að menntakerfið muni gegna lykilhlutverki í að nýta tækni erlendis frá og stuðla að öflugri staðbundinni færni í þróun nýrrar tækni. Mikilvægt er að fólk búi yfir getu til að leysa flókin vandamál, beita gagnrýnni og skapandi hugsun, og hafa samskipti við annað fólk. Þá þarf að líta til fleiri þátta þegar kemur að menntun eins og t.d. kennsluaðferða, uppbyggingar þverfaglegs náms, m.a. á sviðum vísinda, tækni, handverks og lista, aukinna möguleika og áskorana sem gervigreind skapar sem og bættrar líðanar ungs fólks í námi. Síðast en ekki síst er mikilvægt að til sé öflugt stoðkerfi sem styðji við störf kennara og nám nemenda í framhaldsskólum. Í því sambandi er hér vakin athygli á frumvarpi til laga um nýja mennta- og skólaþjónustustofu sem mennta- og barnamálaráðherra hefur lagt fram. Mjög mikilvægt er að framhaldsskólakennarar og nemendur framhaldsskóla taki virkan þátt í uppbyggingu þessarar stofu.

Vegvísir um skólaþróun

Fyrstir framhaldsskóla, eftir skipulega gagnaöflun og viðræður við stýrihópinn, hafa Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri ákveðið að leggja saman krafta sína og skoða sameiningu í einn öflugan framhaldsskóla sem yrði m.a. reiðubúinn að takast á við þær áskoranir sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Ef úr sameiningu verður gæti orðið til 1.800 nemenda skóli með mjög fjölbreyttu og öflugu námsbrauta- og námsvali fyrir nemendur á öllum aldri. Þannig fengju mun fleiri nemendur en áður tækifæri til að takast á við margs konar samsett nám, t.d. bóknám, iðn- og starfsnám og listnám á jafnréttisgrundvelli. Möguleikar gæfust á því að byggja upp öflugra stoðkerfi sem styðji við störf kennara og nám nemenda í hinum sameinaða skóla.

Skólabærinn Akureyri hefur ótal margt fram að færa til íslensks samfélags ekki síst fyrir tilstuðlan þessara tveggja ágætu framhaldsskóla og Háskólans á Akureyri. Skoðun á sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri getur markað ákveðin tímamót í sögu íslenska framhaldsskólans og vísað veginn um þróun annarra framhaldsskóla til framfara bæði í landsbyggðum og á höfuðborgarsvæðinu. Síðast en ekki síst gæti þessi undirbúningsvinna stuðlað að nýsköpun í skólastarfi í þágu lýðræðis og jafnréttis.

Þorsteinn Gunnarsson er fyrrv. rektor Háskólans á Akureyri og tekur þátt í að leiða stýrihóp mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskólans

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00