Áskorun kennara: Orð skulu standa!

Verkfall kennara í MA, VMA og Tónlistarskólanum á Akureyri mun að óbreyttu hefjast á morgun. Félagsmenn í Kennarasambandi Íslands sem starfa í þessum þremur skólum sendu frá sér áskorun í gær þar sem skorað er á samninganefndir ríkis og sveitarfélaga að standa við gefin loforð og efna samkomulagið frá 2016 um að jafna laun á milli markaða.
Samningafundi þessara þriggja deiluaðila, kennara, ríkisvaldsins og sveitarfélaganna lauk á áttunda tímanum í gærkvöld án niðurstöðu, en fundur samninganefndanna í gær var sá fyrsti í nokkrar vikur þar sem allar samninganefndirnar funduðu saman. Ríkissáttasemjari staðfesti við fréttastofu Rúv í gærkvöld að boðað hefði verið til nýs fundar í dag.
Áskorunin sem félagsmenn KÍ í Menntaskólanum, Verkmenntaskólanum og Tónlistarskólanum á Akureyri sendu frá sér í gær er svohljóðandi:
Við skorum á samninganefndir ríkis og sveitarfélaga að standa við gefin loforð og efna samkomulagið frá 2016 um að jafna laun á milli markaða. Við skorum á ráðamenn að efna gefin fyrirheit um að kennarastarfið verði metið að verðleikum og að launakjör okkar verði leiðrétt. Við skorum á „valkyrjur og kryddpíur“, Samband íslenskra sveitarfélaga, bæjarstjórn Akureyrar og þingmenn að leita lausna til að semja við kennara. Við treystum samninganefnd KÍ og hörmum að ekkert bólar á efndum þrátt fyrir að samninganefnd KÍ sé búin að leggja fram lausnir og tillögur að úrbótum. Fjárfestum í kennurum og fjárfestum í menntun. Orð skulu standa!


Útvistun kjarasamninga

Töfrar tónlistar

Verði stórveldi með eigin her

Yfirgripsmikið þekkingarleysi
