Fara í efni
Umræðan

Haustátakið í fullum gangi

Árstíðirnar eru ólíkar. Hver þeirra á sinn sjarma og á milli þeirra er samhengi: Vorið tilreiðir sumarið. Hvíld haustsins er kærkomin öllu hinu atorkumikla lífi sumardaganna. Haustið er bæði svæfill sumarsins og jafnframt húfan sem við setjum upp til að búa okkur undir svalviðri vetrarins.

Þetta samhengi birtist meðal annars í því, að þegar mestu annirnar á dekkjaverkstæðunum eru afstaðnar og bifreiðar landsmanna taka vonglaðar vetrinum mót, fer traffíkin að þyngjast á líkamsræktarstöðvunum.

Haustið og sláturtíðin bjóða manni ótalmargar hitaeiningaríkar kræsingar. Í vetrarbyrjun hefur það því gjarnan leikið mig þannig að á mér miðjum myndast bosmamikill hjólbarði. Verður aðkallandi að komast á annarskonar dekk, umfangsminni og stöðugri því framundan er hálka og þæfingur og mikilvægt að hafa helstu þyngdarpunkta líkamans á réttum stöðum.

Haustátakið í líkamsræktinni hefur því lengi verið árviss viðburður hjá mér og það hefst um svipað leyti og haustheimsóknin á dekkjaverkstæðið á sér stað.

Misvel hefur mér gengið að koma mér í viðunandi vetrarástand. Eitt haustið var ásigkomulag mitt þannig, að þegar ég gekk inn í sturtuklefann eftir viðureign við lóð og tæki, hafði það áhrif á alla hreyfiskynjara og fótósellur þar og vatnið tók að fossa úr hverri einustu sturtu.

Nokkrum mánuðum síðar hafði ég náð þvílíkum árangri, að þegar ég tók mér stöðu undir sturtunni fór aðeins að renna úr henni einni og þeim tveimur sem voru þar beggja megin.

Á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá því að yfirstandandi haustátak byrjaði hefur mér tekist að koma sköpulagi mínu í það horf, að ég get smeygt mér inn á milli tækjanna í salnum ef ég dreg andann djúpt að mér.

Ekki hef ég þó náð jafn glæsilegum árangri og vinur minn sem ég hitti stundum í ræktinni.

Í september setti hann sér það hógværa markmið að léttast um fimm kíló áður en árið 2024 gengi í garð.

Svo eitilharður hefur hann verið í markvissum léttingaraðgerðum að nú, þegar rúmur mánuður er til stefnu, vantar ekki nema skitin átta kíló uppá að hann nái því marki.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00