Veikar varnir Akureyrar
Ég skrifa þetta vegna þess að mér finnst að varnir Akureyrar hafi brugðist.
Landsnet sækir gegn hagsmunum bæjarins og kosnir fulltrúar íbúa virðast ekki ná því að verjast þessari atlögu sem er gegn hagsmunum sveitarfélagsins.
Atlagan birtist í tillögu að breytingu á skipulagi sem er þessa dagana komið í kynningu.
Ef íbúar vilja gera athugasemdir við þessi áform verður að gera það fyrir 9. janúar n.k. á vef Akureyrarbæjar.
Reyndar eru rök fyrir því að athugasemdafresturinn verði rýmkaður, fólk er oft upptekið af öðru á jólum en gaumlesa sig í gegnum svona forsendingar eins og þessi tillaga er í raun.
Ágengnin ýtir á að bærinn gefi eftir landsvæði svo Landsnet geti lagt þar háspennuloftlínu sem myndi takmarka byggingarmöguleika vestan við Móahverfið og verðfella fasteignir í Gilja- og Móahverfi.
Þetta tel ég vera ígildi eignaupptöku og hlýtur því að vera bótaskylt.
Ef viðurkenndur hlutlaus aðili tekur undir það að eins og staðan er í dag að það sé ekki mögulegt að vera með jarðstreng á þessum stað er alveg hægt, án þess að hverfa frá núverandi skipulagi, að leyfa loftlínu til bráðabirgða þar til tenging 220 kV kerfisins til Hvalfjarðar væri komin í gagnið. Landsnet hefur reynslu af slíkum tilfæringum utan í byggðinni í Hafnarfirði.
Þá yrði bráðabrigðalínan strax tekin niður og tilbúinn jarðstrengurinn tæki við. Þessi lausn myndi lágmarka skaðann af áformum Landsnets og ástæðulaust fyrir Akureyringa að semja um neitt annað.
Það kom ítrekað fram á kynningu Landsnets á fundi í Giljaskóla í fyrra að kerfið muni ráða við jarðstrenginn Akureyrarmeginn þegar tengingin er klár í Hvalfirði.
Ýtarlegri umfjöllun með spurningum í lokin
Núverandi gilt skipulag
Núgildandi skipulag var samþykkt og staðfest 2018. Að beiðni Landsnets var Blöndulína 3 sett inn á skipulagið. Háspennuloftlínunni er ætlaður staður vel ofan byggðarinnar og tilheyrandi jarðstreng valin leið að Rangárvöllum. (tengivirkið við Akureyri)
Skipulagið var unnið í fullu samráði við Landsnet sem nú hefur snúið við blaðinu hálfum áratug seinna.
Skýrsla óháðs aðila segir jarðstreng mögulegan
Þegar styrinn stóð um jarðstreng í Hólasandslínu línu austan og sunnan Akureyrar var óháður aðili fengin til að meta hve langan jarðstreng væri hægt að vera með í þeim hluta án þess að ofbjóða kerfinu. Niðurstaðan var sú að kerfið myndi bera 2 x 12km jarðstrengssett í 220 kV hlutanum.
Landsnet féllst á þetta álit.
Þar sem jarðstrengurinn sem lagður var í Hólasandslínu 3 sunnan Rangárvalla er styttri en útreikningar gerðu ráð fyrir og er þar að auki rekinn einfaldur er ljóst að borð er fyrir báru varðandi strenglögn í Blöndulínu 3.
Jafnvel þó að gamla 132 kV Byggðalínan (Kröflulína) hafi verði lögð í jörð sunnan Rangárvalla og nýr 66kV jarðstrengur verði lagður til Dalvíkur.
Samkvæmt gildandi skipulagi þarf að leggja um það bil 2.25 km jarðstreng í Blöndulínu.
Strengirnir verða reknir einfaldir þar til búið verður að tengja 220 kV kerfi til Grundartanga í Hvalfirði en þá eykst geta kerfisins til að ráða við strengina tvöfalda ef ástæða þykir til.
Landsnet gerði ekki athugasemdir við þessa óháðu útreikninga þegar þeir voru birtir.
Þrátt fyrir þessi atriði öll eru fulltrúar Landsnets búnir að þrýsta á Akureyringa til að gefa eftir um ófyrirséða framtíð og hleypa 220 kV loftlínu mun nær íbúabyggðinni en áður var samþykkt.
Nauðsynlegt er að fá aðra óháða úttekt ef Landsnet vill ekki kannast við þessar stærðir í dag.
Yfirlýsingar Landsnets missaga og ekki samkvæmt raunveruleikanum
Stefna stjórnvalda er skýr, -jarðstrengir eiga ekki heima í þéttbýli. Landsnet vísar grimmt í þessa stefnumörkun varðandi umdeildar línulagnir í Borgarfirði og bendir á að þar komi jarðstrengur ekki til álita. Af einhverjum ástæðum vill Landsnet ekki kannast við þessa sömu stefnu í Eyjafirði.
Þrátt fyrir fullyrðingu verkefnastýru Landsnets Á Giljaskólafundinum um að Landsnet hygðist ekki nota jarðstreng við Rangárvelli er staðreyndin er sú að spennuvirkið á Rangárvöllum er ekki hannað fyrir beina loftlínutengingu alla leið. Loftlínan endar í mastri fyrir strengtengingu og þaðan verður jarðstrengur lagður inn í bygginguna sem hýsir tengivirkið.
Á sama fundi sagði verkefnastýra Landsnets að það væri „ómögulegt“ að hafa jarðstreng samkvæmt gildandi skipulagi en fulltrúi tæknideildar Landsnets sagði að það væri „erfitt“.
Mér finnst svona tvísaga yfirlýsingar mjög tortryggilegar og það líti illa út að fulltrúi Landsnets tali svona. Ásakanir um að Akureyringar séu að „spilla fyrir uppbyggingu dreifikerfisins“ eru ekki svaraverðar frekar en annað bull. Samningarnir um drjúgan hluta línuleiðarinnar eru enn nánast á byrjunarreit.
Þetta kostar sitt
Auk áhrifa skipulagsbreytingarinnar á nýtanlega byggingarmöguleika í framhaldi af Móahverfinu verða áhrifin á tekjur bæjarsjóðs neikvæð ef tillögur Landsnets verða að veruleika.
Verðmat íbúðarhúsa nálægt stærstu loftlínunum (220 kV) lækkar. Því fylgir að eigendurnir sjá fram á það sem ég tel vera bótaskylda eignarýrnun og um leið lækka tekjur bæjarins af fasteignagjöldunum.
Húsnæðisstofnun hefur gefið út viðmið um lækkað verðmat orlofshúsa sem standa innan eins km fjarlægðar frá 220 kV háspennuloftlínum. Samsvarandi viðmið um þéttbýli hefur ekki verið birt.
það er einfaldlega vegna þess að eigendastefna Landsnets sem alþingi hefur staðfest tvisvar gerir ekki ráð fyrir 220 kV loftlínum svona nálægt þéttbýlinu. Mestallt Giljahverfið og allt Móahverfið eru innan eins km fjarlægðar frá línustæðinu sem Landsnet teiknar upp í tillögunni að breyttu skipulagi.
Vallahverfi í Hafnarfirði er það hverfi á höfuðborgarsvæðinu sem er næst 220kV loftlínum og þar er líka lægsta fasteignamatið á höfuðborgarsvæðinu.
Er Landsneti treystandi?
Ef skoðað er hverjar eru efndirnar á samkomulagi sem Hafnfirðingar og Landsnet gerðu sín á milli um loftlínur sem voru farnar að þrengja að og takmarka þróun byggðarinnar þá finnst mér það ljóst að það sé tilgangslaust að gera einhverskonar „samkomulag“ við Landsnet um staðsetningar og líftíma háspennulínanna.
Upplýsingar sem vantar. Kallar á lengingu umsagnarfrestsins.
Er Landsnet að reyna að láta Akureyringa gefa eftir fyrir vindorkuverin sem erlendir aðilar stefna á í Fljótsdalshreppi og víðar? Samanber athugasemdir Landsvirkjunar vegna þessa.
Eitthvert „samkomulag“ milli bæjarstjórnar og Landsnets sem byggir á skipulagstillögunni virðist vera í fæðingu, hvers vegna fylgir það ekki með í kynningunni á skipulagstillögunni?
Það myndi skýra betur hvað mun fylgja þessu glaðningi frá Landsneti.
Starfsmaður Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var með á fundi með fulltrúum bæjarins fyrir skömmu en það kemur ekkert fram opinberlega eftir þannn fund um truflun á fasteignamat íbúða í Giljahverfi í samhengi við áform Landsnets.
Er eitthvað í felum?
Þetta kallar á að umsagnarfresturinn verði lengdur svo hægt sé að meta þessar upplýsingar með líka.
Ólafur Kjartansson er vélvirkjameistari á eftirlaunum og formaður Svæðisfélags VG á Akureyri og nágrenni.