Öll viljum við hafa betri aðgang að heimilislækni en er í boði í dag. Talið er að það vanti um 200 sérfræðinga í heimilislækningum núna til þess að mögulegt sé að veita eðlilega þjónustu. Í mörgum öðrum sérgreinum er of lítil endurnýjun. Skýringar á aukinni þörf fyrir lækna eru auknar faglegar kröfur, fólksfjölgun og nýir hópar skjólstæðinga og skipulagsbreytingar. Ef ekki er brugðist við hratt mun geta skapast enn meiri vandi því þörfin á eftir að stóraukast á allra næstu árum vegna hraðrar öldrunar þjóðarinnar og nýrra kjarasamninga sem taka tillits til styttingu vinnuvikunnar.
Vitað er að álag á marga lækna er allt of mikið og veikindafjarvera þeirra hefur aukist og lítið má út af bregða til að hún stóraukist vegna þess hve langvinnt álagið hefur verið.
Staðan varðandi álag og mönnun er svipuð víða á landsbyggðinni og stjórnendur þar eru farnir að hugleiða að nýta sér erlendar læknaleigur, með kostum og göllum sem því fylgja.
Þrátt fyrir að allir sjái að læknaskortur er staðreynd og engir nákvæmir útreikningar séu til um hve marga lækna er þörf á að mennta á ári hverju, hafa lengi verið takmarkanir á fjölda þeirra sem geta hafið læknanám í Háskóla Íslands. Þrátt fyrir að fjöldi þeirra sem komast inn að hausti hafi verið aukinn nokkuð á allra síðustu árum, aðallega fyrir þrýsting frá Læknafélagi Íslands, þá er ljóst að of fáir eru í læknanámi á Íslandi. Skýr rök fyrir þessum hindrunum í Læknadeild Háskóla Íslands liggja ekki fyrir og auka mætti fjárveitingar til námsins ef verulegur áhugi væri fyrir að efla það.
Á síðasta áratug hafa fleiri og fleiri ungir Íslendingar, sem dreymir um að verða læknar, farið í nám við læknadeildir erlendis. Þetta eru nú orðið nokkur hundruð ungmenni sem leggja á sig langt nám erlendis á eigin kostnað og fjölskyldna sinna. Þau eru nú farin að skila sér heim og eru þegar orðin mikilvægt vinnuafl sem munar um bæði á Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og í Heilsugæslunni, þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi ekki lagt krónu í menntun þeirra. Erlendu læknadeildirnar sem íslensku læknanemarnir læra við eru vel skipulagðar og reknar eftir skýrri viðskiptaáætlun án þess að nokkur niðurgreiðsla eða stuðningur sé í boði og til námsins sækja nemar frá mörgum öðrum löndum.
Við gætum vel gert það sama hér á Íslandi, boðið upp á læknanám þar sem kennt væri á ensku eftir viðurkenndum gæðastöðlum og nemar kæmu frá öðrum löndum. Unnið væri eftir sjálfbæru rekstrarmódeli. Íslensku nemarnir kæmust líka að og þó námið væri dýrara en við Háskóla Íslands gætu þeir sparað sér ferðakostnað og uppihald erlendis og fjarveru frá ástvinum sínum. Og ef að íslenska ríkið sæi sér hag í því gæti það stutt við nám íslensku læknanemanna. Búast má við að ungt fólk frá Norðurlöndunum og ýmsum öðrum löndum, sem nú fer í læknanám til mið- og austur Evrópu, gæti allt eins valið að stunda slíkt nám á Íslandi. Við Háskólann á Akureyri hefur verið möguleiki á að stunda nám í ýmsum heilbrigðisfræðum sem skipulagt hefur verið af miklum metnaði og gengið framúrskarandi vel, m.a. í hjúkrun og iðjuþjálfun. Vel kæmi til greina að þar væri boðið upp á læknanám með þessum hætti hvort sem skólinn gerði það sjálfur eða í samvinnu við rekstraraðila. Fyrir norðan eru þegar margir reyndir kennarar í heilbrigðisfræðum og mikil þekking er til staðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og í Heilsugæslunni og fyrir sunnan eru margir velmenntaðir og reyndir læknar og heilbrigðisvísindafólk sem hefði áhuga á að kenna en hafa ekki fengið stöður hjá Háskóla Íslands. Þetta fólk myndi ekki víla fyrir sér að skjótast norður til að kenna. Slík viðbót í skólakerfinu gæti því virkað mjög örvandi á fræðasamfélag heilbrigðisstétta. Þar að auki er það reynsla margra nágrannaþjóða að það er gott ráð til að styrkja mönnun á landsbyggðinni að bjóða upp á nám þar.
Þetta er mitt innlegg til nýrrar ríkisstjórnar sem tillaga um sparnað, því vönduð og skilvirk heilbrigðisþjónusta er góð fjárfesting og mikil þörf er á nýsköpun og breyttu hugarfari.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir