Séra Svavar Alfreð Jónsson skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook síðu sína í gær eftir viðtal Ríkissjónvarpsins við Guðrúnu Karls Helgudóttur, biskup Íslands, vegna hugmynda Kirkjugarða Reykjavíkur að tala frekar um minningarreiti en kirkjugarða og þeirrar ákvörðunar að krossinn hafi verið fjarlægður úr merki kirkjugarðanna. Svavar Alfreð gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta pistilinn. _ _ _
Ég er sammála biskupi mínum. Mér finnst nýtt merki Kirkjugarða Reykjavíkur fallega hannað og ekki síður fallega hugsað. Tilgangurinn með breytingunni er sá að sýna öllum virðingu sem leita til kirkjugarðanna um þjónustu á viðkvæmum og erfiðum tíma í lífi sínu.
Mikill meirihluti íslenskra kirkjugarða er það sem í orðinu felst: Garður við kirkju. Þannig er kirkjugarðurinn við Lögmannshlíðarkirkju hér á Akureyri. Hinn kirkjugarður bæjarins er á Naustahöfða. Hann var upphaflega tengdur fyrstu kirkjunni á Akureyri sem stóð neðan höfðans. Kisturnar voru bornar frá kirkjunni upp snarbratta brekkuna. Landið undir garðinn var gjöf frá fyrsta prestinum í þeirri kirkju. Það er því að minni hyggju eðlilegt að tala um kirkjugarða hér á Akureyri en þau sem kjósa annað geta að sjálfsögðu notast við hið gamla og góða orð grafreitur.
Þegar nýi garðurinn í Naustaborgum verður að veruleika án þessara sögulegu tenginga við kirkjuhúsin finnst mér að þar eigi að tala um grafreit. Þau sem annað kjósa er auðvitað fullkomlega heimilt að nota gamla kirkjugarðsnafnið – til dæmis með þeim rökum að um kirkjulega jarðsetningu hafi verið að ræða.
Þegar fyrsti hópur flóttafólks frá Sýrlandi kom til Akureyrar var ég starfandi í Akureyrarkirkju. Við fréttum af því að fólkið hefði ekki samastað fyrir bænahald sitt og ákváðum að bjóða því afnot af sal í safnaðarheimili kirkjunnar. Fulltrúar fólksins komu til að líta á aðstæður. Í salnum var kross hangandi á vegg. Ég bauðst til að taka hann niður á meðan þau söfnuðust saman til bæna en fékk þau svör að það væri algjör óþarfi. Jesús væri í Kóraninum og þar væri hann spámaður kærleikans.
Öfgar eru víða, hvort sem þær eru í nafni trúar, trúleysis eða annarra lífsskoðana. Ísland verður sífellt margbrotnara og fjölbreytilegra. Hér býr fólk sem aðhyllist allskonar trúarbrögð og kemur úr ólíkum menningarheimum. Ef þetta nýja og fjölskrúðuga Ísland á að halda áfram að vera friðsælasta land heimsins megum við ekki vera hrædd við fjölbreytnina. Við skulum sýna hana og vera stolt af henni. Leyfum ólíkum táknum að lifa í umhverfi sínu og allri sinni merkilegu sögu og látum þau ráða för sem vilja vera upptekin af því sem sameinar okkur en ekki öfgafólkið sem vill sundra okkur.
Íþróttafélagið Þór á Akureyri var stofnað árið 1915. Það ber nafn heiðins guðs, áhangendur klúbbsins eru við hann kenndir og kallaðir Þórsarar og þeir keppa fyrir félag sitt með heiðið trúartákn, Þórshamarinn, sér við hjarta. Þó geta Þórsarar ekkert síður verið kristnir eða trúlausir en þeirra helstu mótherjar, KA-menn.
Knattspyrnufélag Akureyrar er samt óneitanlega mun hlutlausara nafn að þessu leyti en Íþróttafélagið Þór.
Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur
Frétt RÚV