Fráleitar hugmyndir við Austursíðu
Einhver spurði í athugasemdakerfum „hvað er í vatninu hjá ykkur á Akureyri?“
Tilefnið var undarleg afgreiðsla Skipulagsráðs um 7 hæða hús nánast á bílastæði við Norðurtorg. Auðvitað koma allskonar tillögur til skipulagsyfirvalda um breytingar á skipulagi. En að Skipulagsráð taki jákvætt í að breyta AÐALSKIPULAGI vegna byggingar háhýsis með fjölda íbúða á bílastæði við verslunarmiðstöð er alllt að því hlægilegt. En auðvitað er það ekki hlægilegt, það er grátlegt að skipulagsyfirvöld standi ekki í lappirnar og hafni svona tillögum um breytingu á aðalskipulagi. Hlutverk aðalskipulags er að móta framtíðarstefnu fyrir sveitarfélagið til og auðvitað á ekki að hræra í því vegna hugmynda gróðamanna um að fá meiri aur í vasann. Skipulagsráð verður að standa í lappirnar og standa fast á gildandi aðalskipulagi, annað er vingulsháttur og stefnuleysi. Við höfum gott dæmi í pípum um slíkt vegna Tónatraðar og nú sjáum við enn eitt dæmið um stefnuleysi og óstöðugleika Skipulagsráðs. Hér kemur fram tillaga að henda niður risastóru fjölbýlishúsi á eða við bílastæði verslunarmiðstöðvar og utan íbúðabyggðar. Svona til gamans væri rétt að spyrja Skipulagsráð hvort tekið væri jákvætt í að byggja á öðrum bílastæðum við verslanamiðstöðvar, þar er víða afgangs pláss til að skoða það. Fordæmið væri komið.
Ég ætla ekki að fjalla um þessa tillögu að þessu sinni eins fráleit og hún nú er, það bíður betri tíma. Sannarlega rekur mig varla minni til að hafa séð jafn galna hugmynd og þessa. Íbúðarhús umkringt bílastæðum, athafnastarfsemi allskonar, auk þess við miklar umferðargötur er svo fáránleg að ég er enn að melta hana.
Ég trúi ekki öðru að jákvæðni meirihluta Skipulagsráðs hverfi þegar þeir fara að hugleiða þessi mál betur. Svona gerir maður ekki.
Það vantar ekki lóðir á Akureyri þessa stundina. Framkvæmdir að hefjast í Móahverfi þar sem reisa á 1.100 íbúðir. Það er eitthvað allt annað sem ræður för hjá þeim sem senda inn þessa tillögu. Þeir eru ekki að redda lóðaskorti fyrir bæjaryfirvöld.
Ég hef trú á að þessi hugmynd verði blásin af, annars er ekki allt í lagi hjá Akureyrarbæ.
Jón Ingi Cæsarsson er fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar