Ósammála varðandi bílastæði í miðbænum

Bæjarfulltrúar Framsóknar vilja að endurskoðuð verði og mótuð skýr stefna í bílastæðamálum í miðbæ Akureyrar en tillaga þeirra þess efnis var felld á fundi bæjarstjórnar í gær. Meirihluti bæjarfulltrúa segir stefnu liggja fyrir.
Eitt mála á dagskrá fundarins í gær var umræða um framtíðarsýn og stefnumótun í bílastæðamálum miðbæjar Akureyrar. Málshefjandi var Framsóknarmaðurinn Gunnar Már Gunnarsson sem lagði fram eftirfarandi tillögu ásamt hinum bæjarfulltrúa flokksins, Sunnu Hlín Jóhannesdóttur:
Í ljósi mikillar uppbyggingar í miðbæ Akureyrar er nauðsynlegt að endurskoða og móta skýra stefnu í bílastæðamálum. Skipulag miðbæjarins og aðgengi að bílastæðum hefur veruleg áhrif á þjónustu og verslun, samgöngur og uppbyggingu ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að tryggja að framtíðarlausnir taki mið af þörfum íbúa, fyrirtækja og gesta, á sama tíma og horft er til breyttra ferðavenja.
Við leggjum til að skipulagsráð fái það hlutverk að fara í heildstæða greiningu og stefnumótun fyrir bílastæðamál í miðbæ Akureyrar. Jafnframt að sú vinna fari fram í samráði við hlutaðeigandi aðila.
Stefnan liggur fyrir
Atkvæði með tillögunni greiddu Gunnar Már, Sunna Hlín, Ásrún Ýr Gestsdóttir VG og Jón Hjaltason, óháður, en á móti voru Halla Björk Reynisdóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir og Andri Teitsson, öll L-lista, Heimir Örn Árnason og Lára Halldóra Eiríksdóttir Sjálfstæðisflokki og bæjarfulltrúi Miðflokksins, Hlynur Jóhannsson. Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar, sat hjá.
Fulltrúar L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks óska bókað:
Stefna fyrir bílastæðamál í miðbæ Akureyrar liggur fyrir og kemur fram í núgildandi deiliskipulagi. En uppfært deiliskipulag sem unnið var af fulltrúum allra flokka tók gildi um mitt ár 2021. Að auki liggur fyrir stefna skipulagsráðs um gjaldtöku á bílastæðum í miðbænum.
Leysum málin eftir á ...
„Síðan deiliskipulag miðbæjarins öðlaðist gildi (fyrst 2014, og svo í talsvert breyttri mynd 2021) þá hafa ýmsar skipulagsbreytingar verið gerðar – og ekki nema von. Við erum jú að verða vitni að mestu uppbyggingu á miðbæ Akureyrar í áratugi,“ segir í grein sem Gunnar Már skrifaði í kjölfar fundarins í gær og birtist á Akureyri.net í dag.
Gunnar segir síðan: „Að mínu viti þá höfum hins vegar á undanförnum árum nálgast bílastæðamálin eins og bútasaumsteppi: Við leysum málin eftir á, svona eins og efni standa til, hverju sinni.“
Þetta er ekki góð aðferðafræði fyrir framtíðarskipulag bæjarins að mati Gunnars. „Við vitum hver þróun bæjarins hefur verið á undanförnum árum, og við höfum líka ágætis hugmynd um hvert bærinn stefnir. Akureyri er öflugasti ferðaþjónstubær landsins og umferðin um hann, bæði af erlendum og innlendum ferðamönnum, mun bara aukast á næstu árum. Við sjáum það á allri uppbyggingu að ferðaþjónustuaðilar sem og aðrir fjárfestar hafa trú á þessum bæ. Við sem bæjarfulltrúar eigum að hafa hana líka.“
- Grein Gunnars Más: Þetta snýst nú á endanum um bílastæði


Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Ég styð Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem formann – en hvers vegna?

Glitrum saman – nýsköpun í heilbrigðisþjónustu fyrir einstök börn á landsbyggðinni

Eitt lítið Naustahverfi á Tjaldsvæðisreitinn?
