Fara í efni
Pistlar

Tengsl sitkagrenis við verkalýðsfélög

TRÉ VIKUNNAR - LXIX

Fyrri heimsstyrjöldin var stríðið sem átti að binda endi á allar styrjaldir. Eins og kunnugt er náðist það markmið ekki. Í þeirri hörmungarstyrjöld var beitt ýmsum nýjungum sem lítt eða ekki höfðu verið notaðar í stríðum áður. Þar á meðal voru herflugvélar. Þær höfðu sést áður í hernaði en aldrei í líkingu við það sem þarna varð. Þá voru flugvélar í fyrsta skipti smíðaðar gagngert til að taka þátt í hernaði. Síðan hafa öflugar herflugvélar verið partur af nær öllum stríðum, enda má með þeim sálga fólki í stórum stíl án þess að gerandinn sé sjálfur í verulegri hættu. Það liggur ef til vill ekki í augum uppi, en þessi saga tengist bæði sitkagreni og verkalýðsbaráttu skógarhöggsmanna.

 

Málverk af flugorrustu í fyrri heimsstyrjöld. Þá var timbur aðalbyggingarefni vélanna. Myndin er af Pinterest og hana á Chip DuRant.

Flugvélar í fyrri heimsstyrjöld

Fyrri heimsstyrjöldin var tími mikilla og örra breytinga á öllu er við kom flugi og flughernaði. Orrustuflugvélar, njósnaflugvélar og sprengjuflugvélar urðu mikilvægur þáttur í hernaðaraðgerðum stríðsins. Flugvélar þurftu að vera léttar og tiltölulega sterkar og burðargrind nánast allra flugvéla á þessum tíma var úr viði. Seinna var farið að nota málma í þessum tilgangi en samt var það svo að jafnvel í seinni heimsstyrjöldinni var timbur í sumum tilfellum notað í flugvélasmíði.
 

Vorið 1917 ákváðu Bandaríkjamenn að taka beinan þátt í heimsstyrjöldinni. Á þeim tíma voru yfirburðir Þjóðverja í lofthernaði miklir. Því þótti það lykilatriði fyrir bandamenn að framleiða betri og fleiri flugvélar. Til þess þurfti að fá mikið af léttum en sterkum spýtum. Ekkert tré uppfyllti þessi skilyrði betur en sitkagreni, Picea sitchensis. Sitkagrenið mátti einnig nota í flutningaskip og margt annað sem gagnast getur í hernaði. Gríðarlegt magn sitkagrenitrjá var fellt í þessum tilgangi frá vorinu 1917 og til stríðsloka. Á árunum 1917 og 1918 var sitkagreni frá norðvesturhluta Bandaríkjanna notað til að smíða 16.952 bandarískar flugvélar, 4.881 franska flugvél, 258 breskar og 59 ítalskar (National Park Service 2017).

 

DeHaviland flugvél úr sitkagreni. Myndin fengin héðan. Sama fyrirtæki smíðaði fræga flugvél í seinni heimsstyrjöldinni, DeHaviland Mosquito, sem var einnig smíðuð úr tré, þar á meðal sitkagreni. Annars voru flestar flugvélar í þeirri styrjöld úr málmi.

Heimkynni

Sitkagreni vex villt við norðvesturströnd Norður-Ameríku, allt frá norðurhluta Kaliforníu og norður til suðurhluta Alaska. Á Íslandi verður sitkagreni allra trjáa hæst og hafa þau hæstu nú náð 30 metra hæð og vaxa enn. Nálægt Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku verða þau allra grenitrjáa hæst. Það má heita merkilegt að á þeim slóðum vaxa margir risar af ýmsum tegundum. Það er nánast eins og sérhver ættkvísl eigi sér sína risa á þessum slóðum. Hæstu sitkagrenitrén má finna í Washingtonríki. Þar telst eðlilegt að trén verði um 40-50 metra há og finna má tré sem eru yfir 80 metra há. Þau eru þá hærri en Hallgrímskirkja, svo dæmi sé tekið. Þarna er sitkagreni algengasta tegund skógartrjáa.
 
 

Rúmlega 800 ára sitkagreni á Vancouver eyju undan ströndum Kanada. Myndina birti Salish Sea Nature Connections á Facebooksíðunni Big Tree Seekers.

Hættuleg vinna

Þegar Bandaríkjamenn ákváðu að taka þátt í fyrri heimsstyrjöld var á slóðum sitkagrenisins sett á stofn hver sögunarmyllan á fætur annarri til að saga trjástofna. Þannig átti að mæta kröfum stríðsherranna um nægilegt magn af þessu dýrmæta hráefni. Aftur á móti var vinnan við myllurnar og í skóginum bæði hættuleg og erfið. Þegar við bættust auknar kröfur um afköst vegna stríðsins bitnaði það mjög á öryggi verkamannanna. Til að bregðast við þessum vanda fóru sumir verkamenn að stofna félög með sér. Í nafni þessara verkalýðsfélaga voru sett á verkföll til að krefjast betri launa og þó enn frekar betri og öruggara vinnuumhverfis ásamt auknum hvíldartíma.
 
 

Það er ekkert áhlaupaverk að fella stór sitkagrenitré með handöxum og stórri sög. Sennilega hefur tekið tvo daga að fella þetta tré. Myndin fengin héðan en hana á Darius Kinsey.

Því hefur verið haldið fram að það hafi verið snöggtum skárra að höggva en saga. Það þurfti tvo menn í að saga og hreyfingarnar voru einhæfari en við að höggva. Að auki var aldrei hægt að stoppa þegar sagað var fyrr en komið var í gegn (Sigurður Ormur 2023).

Þarna, vestur í Ameríkuhreppi, hefur lengi tíðkast að leggja steina í götu verkalýðsfélaga. Þótt því hefði farið fjarri að allir skógarhöggsmennirnir hafi gengið í félögin voru þau illa séð af eigendum sögunarmyllanna og kaupendum trjáviðarins. Hætta var talin á að félögin gætu á einhvern hátt dregið úr þeim gróða sem til verður á fórnarstalli hagvaxtarhyggjunnar. Við þessu varð að bregðast. Það verður jú að halda hjólum atvinnulífsins vel smurðum. Fyrst var hefðbundnum aðferðum beitt. Atvinnurekendur gátu gripið til frasa eins og: „Drottinn leggur engum þyngri byrðar á herðar en hann getur borið“. Svo var ætlast til að verkamenn gengu til vinnu sinnar eins og dáleiddir hænsnfuglar. Þá kom í ljós að verkamennirnir höfðu meiri áhyggjur af þeim byrðum sem atvinnurekendur lögðu á herðar þeirra en þeim sem Guð setti á þessar sömu herðar. Það stefndi allt í vinnustöðvun.

Kröfur atvinnulífsins eru hrein hátíð miðað við stöðuna sem kemur upp þegar verkföll geta truflað hjól stríðsvélanna. Því var það að bandaríska alríkisstjórnin tók yfir þessa atvinnustarfsemi til að tryggja nægt framboð af sitkagreni svo hægt væri að drepa fólk í Evrópu.

 

Sögunarmylla í Vancouver í Washington sem á sínum tíma var sú stærsta í heimi. Hún var byggð til að saga niður sitkagreni. Í myllunni unnu og bjuggu 5000 hermenn. Rétt er að taka það fram að Vancouver í Washington er ekki það sama og samnefnd eyja. Hún tilheyrir Kanada. Myndin er héðan og er eignuð NPS Photo.

Aðalstöðvum framleiðslunnar var komið á fót í Vancouver í Washingtonríki. Áður en yfir lauk höfðu hátt í 30.000 bandarískir hermenn tekið þátt í skógarhögginu og starfað í sögunarmyllunum ásamt almennum verkamönnum. Þessi hópur hermanna var sérvalinn. Flestir þeirra höfðu einhverja reynslu af skógarhöggi eða sambærilegum störfum.

Þeir dátar sem þarna voru þurftu ekki að taka beinan þátt í stríðsátökum. Þeir vissu mæta vel að þeir voru samt ekki úr allri hættu, enda áttu þeir meðal annars að brjóta á bak aftur verkalýðsfélögin sem stofnuð höfðu verið til að bæta aðstæður verkamannanna sem unnu með þeim. Að auki voru allar aðstæður alveg jafn slæmar þótt sumir verkamannanna væru hermenn.

 

Trjástofnarnir voru fluttir á járnbrautarvögnum í sögunarmyllurnar. Myndin fengin héðan og er eignuð NPS Photo.

 

Breytingar

 
Merki samtakanna sem Disque ofursti stofnaði. Takið eftir að í merkinu má sjá mikilvægustu vörurnar úr sitkagreni sem herinn lét höggva. Myndin fengin frá Wikipediu.

Ofursti að nafni Brice Disque var yfirmaður í þessari skógarhöggsdeild bandaríska hersins. Honum þótti vinnuumhverfi undirmanna sinna heldur í lakara lagi. Hann krafðist þess að þeir fengju betri og öruggari vinnuaðstæður og að vinnutíminn yrði styttur. Hann vildi einnig fá baðaðstöðu eða sturtur og hvíldar- og tómstundaaðstöðu fyrir menn sína til að létta þeim lundina á milli vakta.


Málverk af Disque ofursta

Til að leggja áherslu á kröfur sínar stofnaði Disque ofursti nýtt verkalýðsfélag í fullri sátt við bandarísk hermálayfirvöld. Félagið var kallað the Loyal Legion of Loggers and Lumbermen. Almennt gekk það undir styttingunni 4L. Þess var nú krafist að allir verkamenn í timburiðnaðinum á svæðinu yrði gert skylt að ganga í 4L. Átti það jafnt við um hermenn og óbreytta borgara. Félagið náði því í gegn að vinnudagurinn yrði ekki lengri en 8 stundir á dag og reyndar endaði þetta svo að herinn féllst á nær allar þær kröfur sem almennu verkamennirnir höfðu áður gert og höfðu þá þótt alveg út í hött. Stríðsvélarnar urðu jú að fá sitt og þegar ofurstar gera kröfur skiptir það meira máli en þegar óbreyttir verkamenn gera sömu kröfur.

(Málverkið af Disque ofursta er fengið héðan en höfundur er ókunnur þótt talið sé að hann hafi unnið fyrir bandaríska herinn).

Þannig tókst að bæta stórlega aðstæður verkamanna í skógum Bandaríkjanna og stofna verkalýðsfélög sem báru hagsmuni skógarhöggsmanna fyrir brjósti. Þökk sé mikilvægi sitkagrenisins í flugvélasmíði til hernaðar.

Það þurfti heila heimsstyrjöld til.

 

Horft upp í himinháa krónu sitkagrenitrjáa. Myndina tók John Harvey og birti á Facebooksíðunni Big Tree Seekers.

Þakkir

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fær þakkir fyrir vandaðan yfirlestur. Allar villur sem kunna að leynast í texta eru samt á ábyrgð Sigurðar Arnarsonar. Verkalýðsfrömuðurinn og skógarhöggsmaðurinn, Sigurður Ormur, fær þakkir fyrir veittar upplýsingar um skógarhögg.
 

Heimildir:

National Park Service (2017): The Spruce Production Division. Sjá: https://www.nps.gov/articles/spruceproductiondivision.htm Uppfært: 28. 12. 2017. Sótt 26.08. 2023.
 

Thomas Spade 2021: The Sitka Spruce. 12. hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni My Favorite Trees frá 9. febrúar 2021. Sjá:

 

Erik Mickelson (1999): The Loyal Legion of Loggers and Lumbermen. Sjá: https://depts.washington.edu/labhist/strike/mickelson.shtml. Sótt 28.08. 2023

Sigurður Ormur Aðalsteinsson (2023) Munnleg heimild þann 29.08.2023.
 

Myndir af trjám fengnar af þessari Facebooksíðu: https://www.facebook.com/groups/1554361428214432/search/?q=Sitka%20Spruce%20

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum en hér er pistill dagsins í heild inni.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00