Fara í efni
Pistlar

Hver á að ala upp barnið mitt? Við þurfum allt þorpið

MENNSKAN - 4

Fátt jafnast á við það að verða foreldri. Að umvefja krílið ást og sverja að elska og vernda það út fyrir endimörk alheimsins. Undrunin og gleðin yfir öllu sem krílið gerir, þegar það brosir, bablar og tekur fyrstu skrefin. Ábyrgðin er mikil og getur orðið yfirþyrmandi. Get ég verndað afkvæmi mitt fyrir hættum heimsins, veitt því öryggi, ást og umhyggju? Hvernig á ég að fara að því að koma þessum einstaklingi til manns?

Ljónin kenna ljónaungunum hvernig á að veiða, fuglarnir kenna ungunum sínum að fljúga og antilópurnar kenna kálfunum að hlaupa. Hjá mannfólki er uppeldi mun flóknara. Það eru svo margar reglur í samfélaginu, hvað má og hvað ekki og stundum týnast foreldrar í frumskógi misvísandi boðorða um hvað sé best hverju sinni í uppeldi barna þeirra. Hvenær á ég að segja já og hvenær nei? Hvenær á ég að hvetja og hvenær að letja? Er þá ekki betra að fagfólk sjái um uppeldið?

Síðustu tuttugu og fimm árin hef ég starfað í leik- og grunnskólum og mín upplifun er sú að ábyrgð á uppeldi hefur verið að færast yfir til leik- og grunnskólanna. Ég merki þetta meðal annars í umræðunni í þjóðfélaginu og um tíma fannst mér ég ekki geta opnað spjallþátt í sjónvarpinu nema að einhvers staðar kæmi fram setningin, „þetta ætti nú að kenna í grunnskólum“. Umræðan er þörf en mætti að mínu mati vera uppbyggilegri. Oftar en ekki er einungis talað um neikvæðar afleiðingar einhvers sem ekki var kennt í grunnskóla.

Fjölbreytt kennsla fer fram í skólum og börn og ungmenni þjálfast þar daglega í samskiptum og lífsleikni, langt umfram markmið aðalnámskrár. Það er aðdáunarvert að fylgjast með kennurum að störfum. Hvernig þeim tekst að halda öllum boltum á lofti og sinna hverjum og einum nemanda, hvetja og hrósa. En kröfurnar á hendur kennurum þurfa að vera raunhæfar. Börn eru einungis hluta úr degi í skólum og aðeins er skóli starfræktur 180 daga ársins og það er takmarkað hvað hægt er að kenna og þjálfa í stórum og fjölbreyttum bekkjarhópum. Uppeldishlutinn fer fram á fleiri stöðum, í íþrótta- og tómstundastarfi, hjá stórfjölskyldunni og síðan fyrst og fremst hjá foreldrum.

Ég held að margar ástæður séu fyrir því að ábyrgð á uppeldi hafi smám saman verið að færast yfir á skólana. Hraðinn í samfélaginu er meiri og vinnuumhverfi foreldra er oft krefjandi. Bæði fullorðnir og börn vilja sinna fjölbreyttum áhugamálum og tómstundum. En ég held að ein helsta ástæðan sé óöryggi sem foreldrar finna í hlutverki sínu og einhver ofurtrú á því að fagfólk í skólum sé hæfara þegar kemur að uppeldi og menntun.

Undanfarið hefur skólaumræða snúist mikið um vöntun á samræmdu námsmati og hvernig best sé að draga nemendur í dilka eins og kindurnar. Finna þá sem skara fram úr svo þeir geti komist inn í betri skóla og skammast í hinum yfir því hversu lélegir þeir eru í lestri.

Ég velti því fyrir mér af hverju við þurfum að setja alla í sama boxið og bera saman á þennan hátt? Að mínu mati er það tímaskekkja.

Veltum því fyrir okkur hvernig einstaklinga við þurfum á vinnumarkað í framtíðinni? Við getum í rauninni ekki vitað það þar sem við þekkjum ekki framtíðina en mögulega þurfum við skapandi frumkvöðla sem eru lausnamiðaðir, flinkir í samvinnu, góðir og glaðir. Við þurfum að rækta hvern og einn dýrmætan einstakling og finna hvar styrkleikar og hæfileikar allra liggja. Við eigum að byggja undir sjálfstæða hugsun, réttsýni og hjálpa unga fólkinu að kafa sjálft eftir tilgangi lífsins og finna sína hillu.

Það er mikilvægt að allir hljóti ákveðna grunnmenntun og þjálfist í að verða góðir námsmenn. Að læra og þjálfa grunnfærni í lestri, ritun og stærðfræði. Við það bætist mikilvægi þess að skilja grunninn í forritun og tækni, stunda listir og búa yfir verklegri kunnáttu. Það þarf að virkja áhugahvöt og námfýsi og ala upp námsmenn sem bæta við sig lífið á enda því við erum alltaf að læra og tileinka okkur nýja hluti.

Börnin okkar og ungmenni þurfa jákvæðni og tiltrú. Þau þurfa ekki endalaust að heyra hvað þau séu ómöguleg og hvað þau séu með lélegan lesskilning. Þau þurfa að finna fyrir sömu undrun og gleði eins og þau upplifðu frá foreldrum sínum við fyrsta brosið, fyrsta bablið og fyrstu skrefin. Íslensk ungmenni eru upp til hópa frábær. Alls staðar í samfélaginu eru þau að gera svo ótrúlega skapandi og flotta hluti sem teygja sig langt út fyrir landsteinana. Komum auga á þessi flottu og frábæru ungmenni og fögnum með þeim. Búum til fyrirmyndir fyrir börnin þar sem hugrekki, þor, sköpunarkraftur og gleði eru í forgrunni.

Allt þorpið þarf að koma að uppeldi barna og ungmenna sem er samvinnuverkefni. Foreldrarnir standa ekki einir þó að ábyrgðin sé vissulega þeirra. Skóli og heimili þurfa að tala saman og sameinast um gildin í uppeldinu. Það felst mikill styrkur í því ef foreldrar geta fengið stuðning og heimilin styðji þær áherslur sem lagðar eru í skólunum.

Foreldrar standa ekki einir með ábyrgðina og enginn fer heldur í gegnum uppeldishlutverkið án mistaka. Það er hægt að leita eftir ráðleggingum, boðið er upp á uppeldisnámskeið, það eru til handbækur, stuðningshópar og pepparar.

Eins og ljónið kennir ljónaunganum og antilópan kálfinum kennir foreldrið barninu. Þjálfar með því muninn á réttu og röngu og heldur áfram að umvefja uppeldið með kærleika og væntumþykju. Það er meðbyrinn út í lífið.

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30