Fara í efni
Pistlar

Mér leiðist – kaffiboð fyrir einn

MENNSKAN - 2

Okkur leiðist öllum einhvern tímann. Spurningin er hvernig við bregðumst við og hvað við gerum þegar okkur leiðist? Þegar manni leiðist þarf maður að finna leiðina að því að að láta sér ekki leiðast.

Þessa mánuði er ég stödd á eyju í Danmörku og þegar maður er aleinn í ókunnugu landi eru alveg líkur á því að manni leiðist stundum en þá þarf að taka til sinna ráða.

Er það gott eða slæmt að láta sér leiðast? Allt litróf tilfinningaskalans fylgir okkur mannfólkinu og þar á meðal eru leiði, depurð og sjálfsvorkunn. Mörgum hundleiðist oft og börn kvarta gjarnan yfir því að þeim leiðist. Stundum þarf ekki annað en að myndinni ljúki sem þau eru að horfa á að þeim fari að leiðast. Á undanförnum árum hef ég æ oftar heyrt frasann að það sé í rauninni gott að börn upplifi það að láta sér leiðast. Á tímum síma og skjáa sé svo mikið afþreyingaefni að börnum leiðist aldrei.

„Þau kunna bara ekki að láta sér leiðast en þau hafa gott af því.“

Áður fyrr tók ég undir þessa umræðu en í dag er ég búin að skipta um skoðun.

„Það á engum að láta sér leiðast.“

Það þarf vissulega að temja sér þolinmæði og læra að bíða en mikilvægast er að læra að láta sér ekki leiðast. Að finna leiðir, verkefni og virkni til að sigra leiðann. Nýta ævintýraþrá, sköpunargleði og undrun yfir öllu því sem er í kringum okkur.

„Leiðist þér ekki að vera ein í nýju landi?“ er spurning sem ég hef oft fengið að heyra að undanförnu. Svarið er „nei, mér leiðist ekki en mér gæti leiðst.“ Ég gæti vorkennt sjálfri mér og látið mér leiðast alla daga en ég er svo blessunarlega laus við það. Einn sunnudag var ég við það að láta mér leiðast. Ég var lengi að koma mér á fætur og uppfull af því að nú væri sunnudagur og þá væru allir á Íslandi að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldum sínum eða vinum.

„Og hvað ætlar þú að gera í því?“ spurði ég sjálfa mig og svarið var; „ég ætla að halda kaffiboð fyrir einn.“

Ég dreif mig út í búð og keypti í pönnukökur, rjóma, súkkulaði og rauðar rósir. Ég tók fram fallega postulínskaffistellið sem fylgir gamla húsinu sem ég dvel í, puntaði upp með útsaumuðum blúndudúk og bauð sjálfri mér í danskt-íslenskt gamaldags kaffiboð. Mér leiddist ekki þennan sunnudag. Þetta var virkilega skemmtilegt og mér leið svolítið eins og ég væri aftur orðin barn í dúkkuleik.

Að lifa í gleði, halda í barnið innra með sér og hafa gaman af lífinu eru mikilvægar dyggðir. Hluti af því er að finna leiðir til að láta sér ekki leiðast. Sú persóna sem kann þetta einna best er sköpuð af þeim frábæra rithöfundi Astrid Lindgren. Línu Langsokk leiddist aldrei þó að hún byggi ein á Sjónarhóli með apa og hesti. Hún var snillingur í að breyta lífinu í ævintýri. Lína kunni að fara í alls konar leiki, fjársjóðsleit inni í trjánum, hún fékk þjófana til að stíga við sig dans og hún klæddi sig upp á fyrir kaffiboð. Hún var kannski ekki alltaf sú orðheppnasta og kom sér oft í ógöngur. Hún var hvatvís og utan við sig en hún hafði gaman af lífinu. Þess vegna elska allir Línu Langsokk og við eigum að taka hana okkur til fyrirmyndar og læra að njóta þess sem lífið færir okkur:

  • að veita eftirtekt því sem er í kringum okkur
  • að undrast og gleðjast yfir því sem við sjáum
  • að taka á móti því sem kemur til okkar
  • að lifa lífinu lifandi.

Hér á eyjunni er hver dagur ævintýri og alltaf eitthvað nýtt að upplifa. En það þarf ekki að fara til útlanda, ekki í annað sveitarfélag og ekki einu sinni út fyrir götuna til að taka á móti lífinu af undrun og áhuga.

„Látum okkur ekki leiðast.“

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. október 2024 | kl. 06:00

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30