Fara í efni
Pistlar

Hvar er hinn sanni jólaandi?

MENNSKAN - 10

Ég er jólabarn! En hvenær er rétti tíminn til að komast í jólastuð?

Sumir segja að það eigi að bíða með alla jólagleði fram að aðventu og þá sé rétti tíminn til að finna jólaandann. Aðrir halda sig við að gleðin byrji ekki fyrr en á Þorláksmessu eða jafnvel ekki fyrr en klukkurnar hringja á sjálfum aðfangadegi.

Mér finnst gaman að finna fyrir jólagleðinni löngu fyrir jól. Að hlusta á jólalög í október er eins og að stelast til að kíkja í einn jólapakkann.

En er það hinn sanni jólaandi? Er það ekki bara svindl? Svona eins og að horfa á glimmerskreytta og sykurhúðaða jólamynd um mitt sumar á Netflix?

Fyrir framan mig eru þrjár jólaglerkúlur. Ég tek þá fyrstu og hristi hana. Snjóflygsurnar þyrlast um innan í kúlunni og þegar snjórinn kyrrist horfi ég á myndina sem birtist og hugsa um jól æskuáranna. Þar er að finna spenninginn yfir skó í glugga, tilhlökkun um jólapakkana, gleði vegna nýs jólakjóls og nóg af sætindum. Ég finn piparkökuangan, greniilm, lykt af mandarínum og hangikjöti. Æskuminningar í bland við jólailm og margspiluð jólalög geta fært okkur jólaandann. Í huganum köllum við fram fallegar jólamyndir og í glerkúlunni sjáum við mjúk snjókornin svífa yfir barnakór sem syngur „Bjart er yfir Betlehem.“

Hvað gerist ef ég tek upp kúluna sem er fjærst er og hristi hana. Er jólaandann frekar að finna í framtíðar jólakúlunni? Þegar við höfum loksins meiri tíma til að njóta. Þegar við erum mögulega komin í stærra hús eða þegar börnin eru farin að heiman. Þegar fjárhagurinn er orðinn betri og við njótum betri lífsgæða. Verður þá auðveldara að finna jólaandann? Þann sama og býr í mandarínulyktinni og gömlu góðu jólalögunum. Kannski er jólaandinn falinn í framtíðinni og við þurfum einungis að sýna af okkur þolinmæði og þrautseigju til að bíða eftir hinni sönnu jólagleði.

En hvað með jólakúlu jólanna sem framundan eru? Ég tek hana upp og hristi duglega. Snjórinn feykist til og frá og síðan kyrrist allt og fyrir framan mig birtist falleg jólamynd. Jólatréð er tendrað á torginu, jólastjarnan skín í miðbænum. Kærleikur berst manna á milli, gleði og bros. Í jólakúlu komandi jóla er að finna einlæga ósk um að hvert mannsbarn geti fundið jólaandann í sínu hjarta. Hversu krefjandi sem lífið er og flókið þá geti það staldrað við og fundið þessa hríslandi gleði jólanna. Hjá sumum er kúlan full af glimmeri, hlátri og jólagleði. Aðrir þurfa að hrista kúluna sína vel og vandlega og kreista fram svolítið glimmer og eins og eina jólakúlu. Mögulega með því að hlusta á jólalögin eða með því að virða fyrir sér jólaskreytingar og jólasnjóinn á trjánum. Að upplifa gleðina í gegnum börnin þegar jólatréð er tendrað eða þegar jólasveinarnir birtast. Kannski berst jólaandinn með hlátri barnanna, brosi gamla mannsins eða með birtunni af gömlu jólastjörnunni.

Jólaandinn er ekki einungis í minningum fortíðar né í draumum framtíðar. Hann er í hlýjunni sem kviknar þegar við gefum af okkur, gefum okkur tíma til samveru og þegar við brosum hvert til annars. Jólagleðin er í litlu augnablikunum, í faðmlagi ástvina, í samveru vina og í öllu því sem kveikir hlýju í hjörtum okkar.

Jólaandinn byrjar með þér og mér. Hann birtist okkur þegar við hægjum á, opnum hjörtun og finnum fegurðina í því sem er í kringum okkur. Hvar sem þú ert, skaltu líta í kringum þig. Jólaandinn er ekki langt undan og það er í góðu lagi að komast í jólastuð þegar rétti tíminn er fyrir þig.

Gleðileg jól.

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00