Fara í efni
Pistlar

Takk elsku kennari!

MENNSKAN - 8

Hver var uppáhalds kennarinn þinn? Var það hlýja ömmulega kennslukonan með mjúku röddina eða sú virðulega og vel klædda með móðurlega augnaráðið? Var það brosmildi karlkennarinn sem sló á létta strengi og las áfram þó að nestistíminn var búinn eða töffarinn sem vissi allt og þú ímyndaðir þér að hefði upplifað ótrúlegustu ævintýri?

Börn sjá kennara með sínum augum og í þeirra eyrum eru orð kennarans heilög. Það er ekkert víst að minningarnar séu nákvæmlega réttar eða sannar en þær fylgja okkur samt upp á fullorðinsárin því kennarar eru svo stór hluti af æskuárunum.

Ég var svo heppin að skipta oft um kennara á minni skólagöngu. Ég held að það hafi verið forréttindi að hafa kynnst svona mörgum ólíkum kennurum þó svo að margir telji betra að sami umsjónarkennari fylgi bekk í nokkur ár. Mér þótti vænt um alla kennarana mína og allir færðu þeir mér eitthvað veganesti út í lífið.

Fyrsti umsjónarkennarinn minn var hlýja ömmutýpan sem tók á móti mér í núllbekk eins og hann hét þá. Ég sé hana fyrir mér með gráa hárið, lágvaxna og vingjarnlega. Hún hélt alltaf ró sinni, sýndi okkur góðvild en festu um leið. Hún kenndi mér reglusemi og einbeitingu. Næstu tveir kennarar voru svipaðar týpur. Virðulegar konur, glæsilegar en svolítið fjarlægar. Ég bar mikla virðingu fyrir þeim og langaði til að sýna þeim hvað í mér bjó. Ég lærði eljusemi, öguð vinnubrögð og að hafa gaman af námi.

Næst fékk ég karlkennara sem alltaf brosti og það var stutt í hláturinn. Mér þótti óskaplega vænt um hann. Hann var með skegg og átti sérstakan kaffibolla með skegghlíf. Í nestistímunum las hann fyrir okkur ævintýrabækur Enid Blyton og hélt stundum áfram langt inn í kennslustundina af því að bókin var svo spennandi. Hann kenndi mér að njóta bókalesturs. Hann kenndi mér að hafa gaman og að í skólanum á að ríkja gleði.

Næsti kennari var lífsreynd kona. Hún hafði ferðast, tekið þátt í ævintýrum og hún var töffari. Hún las fyrir okkur Dýragarðsbörnin og gerði mig logandi hrædda við dóp sem kom sér vel á unglingsárunum. Mér fannst hún flott og hún var góð fyrirmynd fyrir sjálfstæði og fyrir það að þora að standa með sjálfum sér.

Í gagnfræðaskóla kenndu mér alls konar litríkir karakterar. Við uppnefndum nokkra, sem er auðvitað ekki fallegt, en hefur nú loðað við kennarastéttina. Við elskuðum suma, hræddumst aðra og hötuðumst út í einhverja. Allt eftir því í hvaða námsfögum okkur gekk vel og hvaða verkefni voru sett fyrir hverju sinni.

Á menntaskólaárunum var staðan svolítið svipuð en væntumþykjan og hatursbylgjurnar urðu heldur minni en áður. Ég minnist kennaranna sem brostu til okkar, sem höfðu gaman af því að kenna og komu með gleði inn í kennslustund til okkar. Líffræðikennarinn minn var í algjöru uppáhaldi, íslenskukennarar, þýskukennarinn og efnafræðikennarinn. Kannski af því að þau fög voru í uppáhaldi eða þá að fögin urðu uppáhalds af því að kennararnir voru það. Ég gæti haldið áfram að tala um mína eftirminnilegustu kennara í fleiri skólum, í tónlistarskólum, myndlistarskólum og í háskólum.

Kennarar eru litríkir karakterar og skemmtilegar týpur. Þeir eru elskaðir og hataðir, dáðir og lastaðir. En þeir eru mikilvægir og því fylgir ábyrgð að vera kennari. Þeim ber að mennta og ala upp næstu kynslóð. Þá sömu og tekur við þegar starfsævi okkar lýkur. Þeir eru í raun að undirbúa ungmenni fyrir framtíð sem enginn veit hvernig verður. Að þjálfa einstaklinga undir störf sem ekki er búið að finna upp. Fyrir tækni og tölvur sem enn er ekki búið að hanna. Þeir þurfa að fá börn til að vera reglusöm, sýna elju og vinnusemi. Að þau hafi gaman af námi og læri að gleðjast. Þau þurfa að öðlast trú á sjálfum sér og að þora að vera þeir töffarar sem þau eru.

Síðar varð ég sjálf kennari og þá bjó ég svo vel að því að hafa haft þessa góðu kennara. Ég segi oft að kennarastarfið hafi valið mig en ég ekki það. Ég var nefnilega ákveðin í einu í lífinu og það var að verða ekki kennari. Þegar menntaskólaárunum lauk var ég í krísu með sjálfa mig og átti í basli með að ákveða næstu skref í námi til framtíðar. Ég gerði nokkrar tilraunir sem ég fann mig ekki í en skráði mig að lokum í Kennaraháskóla Íslands með það í huga að verða ekki kennari. Fyrstu vikurnar eftir að námið hófst sveif um gangana í háskólanum. Námið var skemmtilegt þrátt fyrir að ég ætlaði ekki að starfa sem kennari. Seinna þegar ég fór í æfingakennslu og fékk að prófa að kenna var ekki aftur snúið. Það er gaman að vera kennari þó svo að það sé erfitt, ábyrgðarfullt, krefjandi, lýjandi, stressandi og slítandi. Þrátt fyrir allt þetta álag er þetta samt að mínu mati eitt skemmtilegasta starf í heimi og það er kominn tími til að starfið sé metið að verðleikum.

Það er ekki í lagi að kennarar þurfi að vinna aukavinnu til að geta haldið áfram að starfa við það sem þeir menntuðu sig í eins og ótal kennarar þurfa að gera. Það er ekki í lagi að starfið sé talað niður og gert lítið úr því. Það er ekki í lagi að fólk hafi ekki skilning á því að börnin og framtíð þeirra er í höndum kennara. Það er ekki í lagi að tala bara um þægilega innivinnu og löng frí og gleyma álaginu, ábyrgðinni, löngum vinnudögum og áreitinu sem fylgir. Árangur af kennarastarfinu verður ekki einungis mældur í einkunnum eða útkomu í alþjóðlegum könnunum. Árangurinn birtist í framtíðinni hjá ungmennunum sem taka við þjóðfélaginu.

Mig langar til að þakka öllum kennurunum mínum fyrir þau fræ sem þeir sáðu hjá mér. Hjá ykkur fékk ég hvatningu og ég fann að þið höfðuð trú á mér. Hjá ykkur óx ást mín á bókmenntum og ég öðlaðist sjálfstraust til að skrifa. Þið ýttuð undir ævintýralöngun og ferðaþrá. Þið kynntuð mig fyrir snilli mannslíkamans og hvernig allt lífkerfið hefur áhrif hvert á annað. Þið sýnduð mér fram á mikilvægi heilbrigðis og hreyfingar og fyrst og síðast hversu mikilvægt það er að læra alla ævi. Að verða aðeins betri og fróðari manneskja í dag en í gær.

Til hvers og eins kennara sem kenndi mér.

Takk elsku kennari!

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30