Fara í efni
Pistlar

Ég er bara ég

MENNSKAN - 1

Það er öllum hollt einhvern tímann á lífsleiðinni að stíga út fyrir þægindarammann, prófa nýjar aðstæður, ný áhugamál, kynnast nýju fólki eða nýjum samfélögum. Með því höldum við leitinni að sjálfinu áfram og kynnumst nýjum hliðum á okkur sjálfum. Þessa stundina er ég í nokkra mánuði gestur í nýju landi og um síðustu helgi datt ég fyrir algjöra tilviljun inn á viðburð hjá áhugafólki um jaðar-þjóðlagatónlist. Hópi sem kemur saman á hverju ári á tónlistarhátíðinni, Fanø Free Folk Festival, á lítilli eyju við V-Jótland í Danmörku.

Texti Stings, við lagið, Englishman in New York, kemur upp í huga mér þegar ég geng inn og virði fyrir mér tónleikagestina. Aldurinn gæti verið frá 25 ára til 60+. Fólk er frjálslega klætt og ég myndi segja svolítið hippalega. Öll kyn klæðast litríkum fötum, víðar gallabuxur eru áberandi og sítt hár. Fólk virðist þekkjast vel, heilsast og faðmast. Það lætur fara vel um sig á gólfinu, sumir eru með lítil börn í fanginu eða við hliðina á sér. Einhverjir fara úr skóm og sokkum og njóta þess að hlusta á upplifun óhefðbundinnar tónlistar.

Mér finnst fólk horfa undarlega á mig, er vingjarnlegt en fjarrænt og ég er við það að missa kúlið. „Ég hefði ekki átt að setja á mig varalit. Það er engin hér inni með varalit.“ Ég smokra mér inn þvöguna, kem auga á autt gólfpláss og sest niður, meðvituð um að ég er utanaðkomandi gestur í hópi þessa listafólks. En ég næ að slaka á og eftir smá stund fer ég að njóta stundarinnar. Ég er á nýjum stað með fólki sem ég þekki ekkert og er að hlusta á tónlist sem ég er alls ekki kunnug. En tilfinningin er endurnýjandi og frelsandi. Ég er að upplifa eitthvað algjörlega nýtt og framandi.

Það er gaman að velta mennskunni fyrir sér og hvað felst í því að vera manneskja. Félagsþörf okkar er mismikil en frumþörfin fyrir því að tilheyra er okkur öllum mikilvæg. Leitin að sjálfinu hefst snemma en mótast mjög hratt af utanaðkomandi þáttum. Lítil börn vilja vera sjálfstæð og gera hlutina sjálf. Þau spegla sig í umhverfinu, herma eftir foreldrum og fólkinu í kringum það. Síðar á lífsleiðinni taka hópar vina og félaga við sem mótandi afl einstaklingsins. Við erum lituð af samfélaginu sem við lifum í og reynum eftir fremsta megni að passa inn í allskonar staðalímyndir. Stundum verður þörfin fyrir því að tilheyra sterkari okkar eigin sjálfi og hætta er á að fólk gleymi leitinni að sjálfum sér. Það fer að haga sér eins og samfélagið, eða staðalímyndin segir því að haga sér, þrátt fyrir að það sé mögulega ekki í samræmi við persónuleika þess eða sjálfsvilja. Það vill tilheyra hópnum og keppist því við að koma sér upp umgjörð því til sönnunar sem getur falist í nýjum bíl, áhugamáli vinahópsins eða nýjustu tískufötunum.

En hvaða hópi tilheyri ég? Miðaldra konum sem eltast við nýjustu merkjavöruna? Útivistarfólkinu sem tekur þátt í nýjasta sportinu hverju sinni? Lífskúnstnerum sem njóta góðs matar og drykkjar og vita allt um nýjustu veitingastaðina eða kannski bara flippuðum hópi áhugafólks um jaðartónlist.

„I’m an alien in New York“, er tilfinning sem margir tengja við þegar þeir koma inn í hóp ókunnugs fólks og inn í aðstæður sem þeir hafa ekki prófað áður. Maður verður ofur meðvitaður um sjálfan sig og hætta er á að oftúlka hugsanir annarra. Það eru litlar líkur á því að allir hafi verið að góna á mig þegar ég kom inn á tónlistarhátíðina á Fanø og varla nokkur sem hefur kippt sér upp við veru mína þar. Við erum sjálf oft okkar verstu óvinir og það eru hugsanirnar okkar sem geta leitt okkur í villu vegar.

Það má nefnilega vera allskonar, rokkari einn daginn og pönkari hinn daginn. Það er skemmtilegast að leyfa sér að vera á mörgum hillum og tilheyra fjölbreyttum hópum mannflórunnar.

Ég passaði bara alveg inn í flipphóp tónlistarfólksins í græna síða pilsinu mínu og gullskónum. Enginn þarna inni var að velta varalitnum mínum fyrir sér og fólk brosti vingjarnlega til að bjóða mig velkomna inn í samfélagið.

Leitin að okkur sjálfum tekur alla ævi og það er mikilvægt að vera opin fyrir breytingum sem þroska okkur í þá átt sem lífið leiðir okkur.

Við megum vera alls konar og tilheyra fjölbreyttum hópum mannlífsins.

Ég er bara ég og þú mátt vera þú!

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00