Tók stigann í ólöglega fáum stökkum

ORRABLÓT - XXXVII
Ég ólst upp við bóklestur. Náttborð foreldra minna svignuðu undan bókum – og gera enn. Um tíma var ég sannfærður um að þau væru í keppni um það hvort gæti lesið fleiri bækur á sem skemmstum tíma. Frá fyrstu tíð áttaði ég mig fyrir vikið á því að bóklestur væri eins sjálfsagður og að draga andann. Og ef eitthvað var, mikilvægari fyrir innyflin.
Talsvert var keypt af bókum á heimilið en það dugði vitaskuld hvergi nærri til. Þá kom Amtsbókasafnið á Akureyri í góðar þarfir. Þetta glæsilega glerhýsi við Brekkugötuna sem virtist eins og höll þegar maður nálgaðist það.
Það var alltaf hátíðleg stund að koma á Amtið, fara úr skónum í anddyrinu og rölta svo á sokkaleistunum inn á stífbónað gólfið. Þar inni mátti heyra saumnál detta. Ég finn ennþá lyktina, bara við að hugsa um þetta.
Þegar ég fór að venja komur mínar á safnið var ég ekki kominn með aldur til að fá bókasafnskort sjálfur, þannig að ég fékk að fljóta með mömmu. Hámarkið var fjórar bækur á þeim tíma, mamma tók þrjár og ég eina. Og var bara þrælsáttur við það. Ein bók er betri en engin, ekki satt?
Það var svo risastór stund þegar ég loksins fékk mitt eigið bókasafnskort, ég man ekki hvað ég var gamall, kannski átta ára? Það er varða á lífsleiðinni sem ég legg hiklaust að jöfnu við ferminguna og jafnvel bílprófið.
Maður byrjaði niðri í horninu, þar sem barnabækurnar voru, á klassík eins og Fúsa froskagleypi, Kettinum með höttinn og Óla Alexander Fílibomm-bomm-bomm, sem er stórteflis nafn. Þarna voru líka náungar sem kallaðir voru Litli bróðir og Stúfur. Stúfur var spítukarl og kom ég mér sjálfur upp ígildi hans, úr plasthylki sem mig minnir að hafa verið utan af hitamæli. Gengum við saman nokkurn veg.
Seinna færði maður sig yfir skilrúmið í unglingadeildina og þar man ég langbest eftir Frank og Jóa. Ég fílaði þá bræður í strimla og um langt skeið las ég varla annað, kannski helst teiknimyndasögur, kollega mína Tinna og Sval, Lukku-Láka, Ástrík og þær kempur. Enginn sá neitt athugavert við það að Láki karlinn væri keðjureykingamaður. Eins og við munum þá var Lukku-Láki sneggri á gikkinn en eigin skuggi. Ekki má heldur gleyma Fótboltafélaginu Fal og ærslakenndum ævintýrum þess; manna á borð við Berta fyrirliða, varnarbuffið Fauta, suður-ameríska framherjann Marínó-Marínó Sólbrendó og Dagsson í markinu.
Er leið á táningsárin færði maður sig yfir í spennusögur úr smiðju Alistairs MacLeans, Jacks Higgins og þeirra kappa, auk þess sem ég hafði snemma yndi af því að lesa ævisögur knattspyrnumanna, leikara, tónlistarmanna og svo stjórnmálamanna og annarra áberandi manna í samfélagi þjóðanna. Auk þess sem alþýðumenning hefur alltaf verið mér ofarlega í huga.
Enginn var maður með mönnum nema að hann kynni einhver skil á Halldóri Laxness og við lásum Íslandsklukkuna strax í gaggó. Þau verk þurfti ég þó ekki að sækja á Amtið en dag einn birtist farandbóksali í gættinni heima og seldi foreldrum mínum allan Laxness-katalóginn. Ekki nóg með það, Þórbergur fylgdi með, eins og hann lagði sig. Á þessum tíma hafði ég ekki hitt meiri töffara í þessu lífi en farandbóksala, nema þá helst farandplötusala sem einnig voru á hverju strái. Eru þessar stéttir manna ennþá til?
Maður reyndi sig líka við íslenskan samtímaskáldskap og jafnvel rússnesku meistarana, Tolstoj, Dostojevskíj og þá kappa, þó maður hefði til þess takmarkaðan þroska. Ætli síðasta bókin sem ég tékkaði út af Amtinu hafi ekki verið Hamskiptin eftir Kafka, man eftir að hafa glímt við hana þegar ég vann sem safnvörður á Náttúrugripasafninu, um tvítugt. Hún rann ljúflega, innan um uppstoppaða fugla.
Hörður Jóhannsson er eftirminnilegastur bókavarðanna sem unnu við safnið á þessum tíma. Ljúflingur með mikla þjónustulund. Löngu síðar átti ég eftir að taka viðtal við hann fyrir Moggann eftir hvatningu frá sameiginlegum vini okkar, Þorsteini Jakobssyni, prentara og bókasafnara í Reykjavík.
Í viðtalinu sem birtist á aðfangadag 2006 lýsti ég Herði með þessum orðum: Rólegur, virðulegur og einstaklega ljúfur í viðmóti. Fer að málum með hægðinni. Hann er sem skapaður í starfið. Jafnframt léttur á fæti. Tekur stigann upp á aðra hæð í nánast ólöglega fáum stökkum. Vilhjálmur Einarsson hefði ekki roð við honum, ekki einu sinni í silfurforminu.
Hörður var einnig gríðarlegur bókasafnari og taldi sig eiga um sjö þúsund titla. Eins og gefur að skilja var bókavarslan draumastarf. „Ég kunni alla tíð vel við mig í því starfi. Þótt það væru um 40.000 bækur í útlánunum þar sem ég var þekkti ég þær flestar í sjón og margar af þeim hafði ég lesið," sagði hann.
Það var Árni Jónsson, þáverandi forstöðumaður safnsins, sem réði Hörð sem kvaðst bara hafa fengið tvær reglur til að fara eftir. „Árni heitinn sagði: „Þú verður að vera góður við gamla fólkið og góður við krakkana.“ Þetta reyndi ég eftir bestu getu.“
Minnisstæðasti safngesturinn, að sögn Harðar, var Steindór heitinn Steindórsson frá Hlöðum. „Hann kom oft á safnið og var ákaflega skemmtilegur. Einu sinni lagði ég að honum að koma á haganlegum tíma, svona um kaffileytið, til að fá kaffi. Hann var ekki frá því og eftir það kom hann jafnan á þeim tíma. Það voru skemmtilegir kaffitímar en því miður urðu þeir stundum býsna langir.“
Hörður kvaðst oft hafa leitað til Steindórs ef hann vantaði upplýsingar um eitthvað. „Það brást aldrei að hann gat leyst úr þeim málum. Hann var vel að sér á öllum sviðum, ekki síst í sögu og bókmenntum. Þá hef ég ekki þekkt mann sem hefur haft annað eins minni og Steindór.“
Á seinni árum eftir að Gísli heitinn Jónsson menntaskólakennari hætti að kenna var hann með vinnuaðstöðu á safninu og ýmsir komu að finna hann. „Þá var svo um samið ef ákveðnir menn kæmu þá áttum við að hringja upp til Gísla og hann fór út bakdyramegin,“ sagði Hörður. Steindór var sannarlega ekki í þeim hópi.
Sjálfur man ég vel eftir Gísla uppi á annarri hæðinni en ég kynntist honum aldrei. Hann hætti að kenna rétt áður en að ég byrjaði í MA. Syni hans, Hirti Gíslasyni blaðamanni, kynntist ég hins vegar vel á Mogganum. Var um tíma undir hans stjórn á sérblaðinu Úr verinu, sem fjallaði um sjávarútvegsmál, svo sem nafnið gefur til kynna.
Það var einmitt Hjörtur sem boðaði mig á fyrstu æfinguna hjá Knattspyrnufélagi Magnúsar Finnssonar, sem starfrækt hefur verið á Morgunblaðinu frá 1976, með þeim orðum að ég yrði alltaf að mæta í hádeginu á þriðjudögum og fimmtudögum og aðeins tvær afsakanir væru teknar gildar: „Ef þú er dauður eða ef þú ert að njóta ásta!“ (Hann orðaði það síðarnefnda að vísu með öðrum hætti en Akureyri.net er fjölskylduvefur.)
Eftir þessum fyrirmælum hef ég farið fram á þennan dag enda þótt Hjörtur, sá mikli höfðingi, sé löngu hættur að vinna á Mogganum.
Ég man ekki hvenær ég uppgötvað efri hæðina á Amtsbókasafninu en hún var sannarlega heimur út af fyrir sig. Ekki síst út af öllum innbundnu heiðgulu dagblöðunum sem áttu þar heima. Þvílíkur fjársjóður.
Ætli ég hafi ekki byrjað að sækja í þau vegna ritgerðasmíða í MA. Þær setur urðu iðulega býsna langar og ég einatt kominn langt út fyrir efnið. Þessi gamli heimur var svo heillandi. Á endanum var ég farinn að líta við á efri hæðinni á Amtinu án þess að vera með ritgerðaverkefni, það er bara til að fletta gömlu blöðunum. Vinir mínir klóruðu sér í höfðinu út af þessu. En þetta er siður sem ég hef enn ekki vanið mig af, þó ég geri þetta ekki lengur á Amtinu. Mogginn er aftur á móti til innbundinn frá 1913 í Hádegismóum.
Nú get ég ekki útilokað að vísindamenn eigi á endanum eftir að finna leið fyrir okkur dauðlega menn til að ferðast í tíma en þangað til er ekki hægt að hugsa sér betra tímaflakk en að fletta gömlum dagblöðum. Tíðarandinn stekkur bókstaflega á mann upp af síðunum og sogar mann til sín. Hreinn unaður.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.


Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Rauðkál

Fíkn og viðhorf

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús
