Fara í efni
Pistlar

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

ORRABLÓT - XXIX

Hjartað barðist í brjósti mér og ég hrópaði á vagnstjórann: Hraðar, maður! Hraðar! Ekki upphátt, heldur í hljóði. Haldiði að ég sé illa upp alinn? Að öðrum kosti hefði hann örugglega hent mér út. Það er alveg dæmalaust hvað móðir jörð snýst hægt þegar maður er að flýta sér.

Það er stór stund í lífi sérhvers manns þegar hann kaupir sína fyrstu hljómplötu. Um langt skeið keypti reyndar ekki nokkur maður hljómplötur en það horfir nú allt til betri vegar – og plötubúðir spretta aftur upp eins og gorkúlur í öllum helstu borgum og bæjum heims. Þannig er hin sögufræga búð His Master’s Voice (HMV) búin að opna aftur á Oxfordstræti í Lundúnum. Þar festi maður kaup á ófáum skífunum í gamla daga.

Strætisvagn á Akureyri árið 1981 – mögulega sá sem Orri Páll tók sér far með í verslunarferðinni sögulegu því þetta er LEIÐ 3, Oddeyri - Glerárhverfi. Gott ef ekki sést í þá Nætursöluna goðsagnakenndu lengst til vinstri. Mynd af Facebook síðu Strætisvagna Akureyrar.

Sjálfur lagði upp ég í þennan leiðangur árið 1981, líklega um haustið. Finn alltént lyktina af því þegar ég hugsa um þetta. Ég tengi flesta viðburði í mínu lífi við lykt. Ég hoppaði upp í strætó í Skarðshlíðinni við gatnamót Smárahlíðar og þáði far með honum sem leið lá niður á Ráðhústorg, þar sem plötubúðin var til húsa. Man ekki fyrir mitt litla líf hvað hún hét. Á þessu augnabliki leið mér, 10 ára gömlum, eins og að ég væri að verða fullorðinn. Farinn að festa fé í mínum eigin hljómplötum.

Einhverjar plötur voru til á heimilinu á þessum tíma og ábyggilega hef ég fengið sumar þeirra að gjöf frá foreldrum mínum, Halla og Ladda, Jörund og þá kappa og mögulega einhverjar bræðingsskífur með vinsælasta poppinu, Pottþétt þetta eða Pottþétt hitt, eða komu þær seinna? En nú var alvara hlaupin í málið; ég sjálfur að velja og kaupa fyrir eigið fé og aðeins ein skífa kom til greina, fyrsta plata breska rokkabillípönkbandsins Tenpole Tudor, Eddie, Old Bob, Dick and Gary. Ég hafði séð þessa vösku kappa í Skonrok(k)i hjá Þorgeiri Ástvaldssyni og varð að komast yfir gripinn.

Fyrir þessa tvo lesendur sem ekki þekkja Tenpole Tudor þá var sveitin stofnuð í Bretlandi árið 1977 af söngvaranum Edward Tudor-Pole, gítarleikaranum Bob Kingston, bassaleikarnum Dick Crippen og trymblinum Gary Long. Þar af leiðir nafn fyrstu breiðskífunnar, Eddie, Old Bob, Dick and Gary, sem er tilbrigði við gamalt stef í ensku máli, any old Tom, Dick or Harry.

Tenpole Tudor voru engar mélkisur; heldur brynvarðir töffarar sem sveifluðu fimlega um sig sverðum. Tónlistin var líka ágæt og umfram allt hress – sérsamin fyrir tíu ára stráka í Þorpinu. Hlaut að vera.

Það voru því sár vonbrigði þegar ég komst að raun um að Eddie, Old Bob, Dick and Gary var hreint ekki til í plötubúðinni á Ráðhústorginu. Hvurslags búlla er þetta eiginlega? hugsaði ég með mér. Er henni ekki kunnugt um helstu strauma og stefnur í rokkheimum? Þekkja menn kannski ekki einu sinni Þorgeir Ástvaldsson?

Ég var ekki með neitt plan B en fyrst ég var kominn alla leið oní bæ var ekki um annað að ræða en að kaupa aðra plötu. Ég valdi af hálfgerðu handahófi Get Lucky með kanadíska iðnaðarrokkbandinu Loverboy (þessa með fingurna og þröngu rauðu leðurbuxurnar á kóverinu). Það band hringdi einhverjum bjöllum enda ábyggilega verið sýnt í Skonrok(k)i líka. Þetta voru þó aum býtti, þótti mér.

Þið getið rétt ímyndað ykkur að þau voru þung, skrefin út úr búðinni. Á þeirri stuttu leið dró hins vegar óvænt til tíðinda; ég rakst sumsé á forláta stand á miðju gólfinu með fáeinum hljómsnældum eða kassettum. Og viti menn, haldiði að Eddie, Old Bob, Dick and Gary hafi ekki beðið eftir mér þar. Átekta. Ég þóttist að vonum hafa himin höndum tekið og reykspólaði (eða smækaði, eins og það er kallað fyrir norðan) aftur að afgreiðsluborðinu og óskaði eftir því að skipta á Loverboy-plötunni og snældunni sem var að brenna gat á lófann á mér – svo sjóðheit var hún.

En björninn var ekki unninn.

„Við skiptum ekki hér,“ sagði afgreiðslumaðurinn kuldalega.

Ha?

„Nei, ófrávíkjanleg regla!“

En bíddu, þú varst að afgreiða mig fyrir hálfri mínútu og ég var ekki einu sinni farinn út úr búðinni!

„Gildir einu!”

Þeir sem þekkja mig vita að djúpt er á geðvonskunni en þegar hún er drepin úr dróma, eins og þegar réttlætiskennd minni er misboðið, þá set ég í brýnnar. Ætli svipurinn á mér þarna við borðið hafi ekki verið eins og þegar ég er (óverðskuldað) skammaður fyrir varnarleik í bumbuboltanum.

Alltént var reglan ekki ófrávíkjanlegri en svo að afgreiðslumaðurinn skipti um skoðun og leysti Loverboy aftur til sín og lét mig hafa snælduna sem bar Eddie, Old Bob, Dick and Gary. Gott ef hann borgaði mér ekki á milli líka. Sennilega hefur hann séð sæng sína upp reidda, ella hefði ég verið líklegur til að standa við borðið hjá honum fram að lokun – og jafnvel lengur.

Að því búnu rauk ég þráðbeint út að Nætursölu (blessuð sé minning hennar!) og náði vagninum aftur heim í Þorpið. Næstu klukkustundirnar var kassettutækið tekið til kostanna.

Veislan hófst með hófadyn og lúðrablæstri en síðan galaði Edward Tudor-Pole, söngvari, furðufugl og afkomandi Hinriks VIII í beinan karllegg:

Deep in the castle and back from the wars
Back with my baby and the fire burned tall
"Hoorah!" went the men down below
All outside was the rain and snow

Hear their shouts, hear their roar
They've probably all had a barrel or much, much more
Hoorah, hoorah, hoorah, yea!
Over the hill with the swords of a thousand men

Önnur breiðskífa, Let the Four Winds Blow, kom frá Tenpole Tudor þetta sama ár og þá hafði gítarleikari með sérstaklega frambærilegt nafn bæst í hópinn, Munch Universe. Fljótlega eftir þetta liðaðist bandið þó af einhverjum ástæðum í sundur og maður neyddist til að snúa sér að öðru. Tudor-Pole endurvakti Tenpole Tudor löngu síðar og ekki verður betur séð en að hann starfræki bandið enn, nú í félagi við einhverja átta Norðmenn, karla og konur. Ég er ekki að skrökva þessu!

Allt eðlilegt við það.

Ég á þessa merku hljómsnældu, Eddie, Old Bob, Dick and Gary, enn og geymi hana á góðum stað á sveitasetri mínu – við hliðina á Tony Adams-treyjunni og gítarnögl sem Rob Trujillo notaði í Egilshöllinni sumarið 2004.

Næstu plötu keypti ég hins vegar í Hljómdeild KEA í Hafnarstrætinu.

Brennt barn forðast eldinn.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00

Aðventa

Magnús Smári Smárason skrifar
10. desember 2024 | kl. 16:16