Fara í efni
Pistlar

Seldi upp án þessa að missa úr skref

ORRABLÓT - XXXII

Í byrjun sumars 1988 tilkynnti Sigurður Sverrisson, ættfaðir okkar, íslenskra þungarokkara, í þætti sínum Bárujárni á Rás 2 að hann hygðist standa fyrir hópferð á tónleikahátíðina Monsters of Rock í Castle Donington á Englandi síðar um sumarið.

Hlustunarskylda var á þáttinn meðal norðlenskra málmhausa og við félagarnir létum ekki segja okkur þetta tvisvar, ég, Birgir Karl Birgisson, Eiríkur Árni Oddsson og Sævar Árnason; við ætluðum með, sama hvað það kostaði.

Við biðum frekari fyrirmæla að sunnan og ég man að ég hljóp heim í leikhléi á einhverjum leik á Þórsvellinum skömmu síðar til að hringja í Sigga, í fyrirfram auglýstan símatíma, til að bóka okkur. Það gekk eftir, þrátt fyrir þétt álag á landsímakerfið þetta kvöld. Maður náði ekkert alltaf í gegn milli landshluta, eins og þið munið.

Eiríkur Árni Oddsson, Sævar Árnason og Birgir Karl Birgisson á Inverness Court-hótelinu í Lundúnum sumarið 1988.

Því næst fengum við langt bréf frá Sigga, um ferðatilhögun og almenn áform, sem ég á enn í skjalasafni mínu. Og þvílíka veislan sem við áttum fyrir höndum. Bandvalið var ruddalegt: Helloween, Megadeth, Guns N‘ Roses, David Lee Roth, Kiss og Iron Maiden. Vorum við, fábrotnir sveitamennirnir, búnir að tryggja okkur aðgang að sjálfu Himnaríki?

Allir fíluðum við Maiden í tætlur enda stærsta málmband í heimi á þessum tíma. Eiki og Sævar voru ungir kvaddir í Kissherinn og a.m.k. ég var farinn að hafa dálæti á bæði Helloween og Megadeth. Biggi tjáði hins vegar öllum sem vildu heyra að hann væri fyrst og fremst að fara að horfa á David Lee Roth og þá sérstaklega gítarséníð sem honum fylgdi, Steve Vai. Menn binda bagga sína mismunandi hnútum. Sjötta bandið þekktum við minnst, Guns N‘ Roses, enda til þess að gera nýtt af nálinni. Ég hljóp út í Tónabúðina til að kaupa frumburð sveitarinnar, Appetite for Destruction, en skilaði plötunni aftur eftir fyrstu hlustun. „Þetta er óttaleg undanrenna!“

En jæja, við köstum þá bara af okkur vatni og tökum upp nesti meðan þeir piltar ljúka sér af.

Sumarið var óvenju lengi að líða en á endanum vorum við komnir til móts við hópinn, 39 manns, á Hótel Loftleiðum. Þar var hver maðurinn öðrum loðnari, 38 strákar og ein stelpa. Að vestan, að mig minnir. Öll klár í að feykja flösu eins og enginn væri morgundagurinn. Segi ég og skrifa.

Eiríkur Hauksson var aðstoðarfararstjóri.

Þarna voru nokkrir Akureyringar, auk okkar. Fóstbræðurnir Hrafn Stefánsson og Hjörleifur Árnason, Krummi og Lalli, og Þorkell Ingi Ingimarsson, Keli, sem var mikill mótorhjólamaður. Við kinkuðum kolli til þeirra. Utan hóps voru svo aldavinur minn Magnús Ingi Magnússon og félagi hans, Guðni Konráðsson, gítarleikari þess ólseiga akureyrska málmbands Skurk. Þar sem fyrrnefndur Lalli lamdi auðvitað húðir.

Þarna var líka gamall félagi úr 1. bekk í MA, Stefán Máni Sigþórsson frá Ólafsvík, sem síðar átti eftir að verða einn vinsælasti rithöfundur landsins. Hann var, muni ég rétt, að koma úr þriggja vikna sólarlandaferð en lét sig samt hafa það að taka slaginn. Ég meina, það var skyldumæting á þetta gigg allra gigga.

Guðmundur Pétursson gítarleikari var líka á svæðinu en hann var þá þegar farinn að gera garðinn frægan með Bláa bílskúrsbandinu. Siggi Sverris rak trippin og honum til halds og trausts var enginn annar en Eiríkur Hauksson, leðurbarki Íslands, sem þá var reyndar búinn að taka ákvörðun um að flytja til Noregs og ganga til liðs við metnaðarfullt málmband, Artch.

Í flugvélinni, sem Flugleiðir lögðu til, reif Keli, sem fyrr var getið, upp vídjókameru og rölti sem leið lá niður eftir ganginum. Rætt var við mann og annan og honum yfirleitt vel tekið, nema af mér, sem var niðursokkinn í málsverð minn. Málsverðurinn var vitaskuld hápunktur allra flugferða á þessum árum og sýndi ég því Kela algjört tómlæti. Biggi bjargaði mér fyrir horn; sagði nokkur vel valin orð við myndatökumanninn.

Þegar loðhausunum sleppti í vélinni kom Keli að manni í teinóttum jakkafötum og kjaftaði á honum hver tuska. Það var þá Björgólfur Guðmundsson athafnamaður. Fór samtal þeirra um víðan völl og fram kom að Björgólfur væri ekki á leið á Monsters of Rock. Því miður.

Svipmynd úr þungarokksplötubúðinni Shades sálugu í Soho, Lundúnum.

„Hann getur ekki munað þetta, helvítið á honum,“ hugsið þið nú ábyggilega með ykkur, lesendur góðir. Og það er rétt hjá ykkur. Ég man þetta ekki en fékk óvænta hjálp fyrir nokkrum árum, þegar þetta merka myndband lenti í símanum hjá mér gegnum fyrirbrigði sem kallað er Facebook og ég kann lítil skil á. Myndbandið er sumsé í raun og sann til.

Við höfðum nokkra daga í Lundúnum áður en tónleikarnir fóru fram og menn fundu sér sitthvað til dundurs. Misjafn sauður er í mörgu fé og einn úr hópnum (ekki að norðan) varð fyrir því óláni að eyða öllum gjaldeyrinum sínum fyrsta kvöldið. Siggi tók eftir það að sér að skammta honum vasapening. Greiðslukort voru síður en svo orðin almenn og við fórum utan með reiðufé annars vegar og ferðatékka hins vegar, sem við skiptum á þar til gerðum afgreiðslustöðum.

Við fjórmenningar frá Akureyri vorum allir forfallnir áhugamenn um fótmenntir og fórum fyrir vikið þráðbeint í opinberar heimsóknir á bæði Highbury, heimavöll Arsenal, og sjálfan þjóðarleikvanginn, Wembley. Fyrir utan Highbury rákumst við á starfsmann sem harðneitaði í fyrstu að hleypa okkur inn á leikvanginn en lét svo til leiðast eftir að við höfðum sannfært hann um að við værum komnir alla leið frá Íslandi í þeim eina tilgangi að berja völlinn augum. Ofurlitlar eyfirskar ýkjur hafa aldrei drepið nokkurn mann. Eða er það?

Á Wembley, gamla leikvanginum, nutum við leiðsagnar manns að nafni Travis og fengum meðal annars að skoða búningsklefana og ganga upp þrepin 39 og lyfta eftirlíkingu af enska bikarnum, sigurlaununum á elsta knattspyrnumóti í heimi.

Þess utan vorum við mest á Oxford-stræti sem okkur fannst aldrei ætla að enda. Á þessum tíma var verðlag allt annað en í dag og hægt að gera kjarakaup. Mestum tíma vörðum við í plötubúðum, Virgin Megastore, HMV og þungarokksbúllunni Shades sem var til húsa í kjallara í Soho. Þar var ótrúlegt að koma og myndin þaðan sem fylgir segir líklega meira en þúsund orð. Jafnvel tvö þúsund orð.

Hittuð þið virkilega Pelé?

Eftirminnileg er líka ferð með Eika Hauks á vaxmyndasafnið Madame Tussauds, þar sem við félagar létum mynda okkur með Pelé. Myndin var býsna raunveruleg og við skrökvuðum því að fólki þegar heim var komið að við hefðum í raun og sann hitt sjálfan sparkkónginn. Menn störðu opinmynntir á myndina og síðan á okkur, þessa frægu menn!

En leiðréttum það svo auðvitað strax. Vel upp aldir.

Tónleikahátíðin mikla var á laugardegi, 20. ágúst, og haldið var árla dags upp í Leicesterskíri með langferðabifreið. Það var ótrúleg upplifun fyrir 17 og 18 ára drengi frá Akureyri að vera allt í einu staddir innan um 107 þúsund manns en metfjöldi sótti tónleikana þetta sumarið.

Þegar við gengum inn á svæðið tók maðurinn við hlið okkar upp á þeim ósköpum að selja upp. Var í annarlegu ástand, eins og þar stóð. Hér var þó greinilega um vanan mann að ræða en hann hann hélt fullkomnum takti og missti ekki úr eitt skref meðan hann losaði allt lauslegt úr iðrum sér. „Lagsi, ég sagði þér það," varð félaga hans að orði, „þú hefðir ekki átt að borða þessa helvítis pylsu áðan."

Ábyggilega hárrétt mat.

Böndin voru hvert öðru betra. Helloween reið á vaðið en þeir þýsku voru að túra Keeper of the Seven Keys-plöturnar á þessum tíma og í vargaformi. Sitthvað lauslegt gekk yfir Michael Kiske söngvara til að byrja með enda ekki allir búnir að gleyma orrustunni um Bretland. En hann lét sér það í léttu rúmi liggja, hækkaði bara tóninn í samræmi við áreitið.

Highbury, heimavöllur Arsenal, sumarið 1988.

Megadeth negldi sitt gigg. Músíkséníið og þjóðfélagsrýnirinn Dave Mustaine í essinu sínu, skyrpandi stáli. Um hvern ætli hann sé að yrkja í Peace Sells, áratugum fyrr?

What do you mean I "hurt your feelings?"
I didn't know you had any feelings
What do you mean I "ain't kind?"
I'm just not your kind
What do you mean I "couldn't be the president
Of the United States of America?"
Tell me something
It's still "we the people", right?

Guns N' Roses féllu vel í kramið og við félagar lögðum meira að segja við hlustir. Seinna átti ég eftir að eignast Appetite for Destruction aftur og kunna að meta hana fyrir afbragðsverkið sem hún er. Sumt tekur bara tíma í þessu lífi, sjáiði til.

Það kætti okkur að svaladrykkurinn sem seldur var á svæðinu var Svali. Já, Svali, framleiddur á Íslandi. Hann var sumsé kominn með markaðshlutdeild á Bretlandi á þessum tíma. Magnað. Hvað fór eiginlega úrskeiðis? Svali dó bara drottni sínum fyrir nokkrum árum. Mest sakna ég Svala með sítrónubragði.

Miðinn sem veitti aðgang að „himnaríki“.

Annars voru tónleikagestir upp til hópa meira í bjórnum. Ekki mátti koma inn á svæðið með gler, þannig að menn umhelltu ölinu í þykka poka. Úr varð hringrás en bjórinn endaði auðvitað aftur í pokanum, eftir að hafa runnið gegnum neytandann. Þá hentu menn pokunum frá sér og þegar mest var voru mörg hundruð á lofti í einu. Einn hafnaði á öxlinni á mér. Ég leit snöggt á kvikindið en lækkaði svo öxlina og lét það falla til jarðar. Sjálfsagt voru kamrar þarna en fæstir höfðu tíma eða vilja til að vitja þeirra og ófáir drógu bara upp garðslönguna þar sem þeir stóðu – og létu vaða.

David Lee Roth var hress að vanda og Steve Vai enn hressari. Þvílíkur galdrakarl með gítarinn. Sælusvipur var á Bigga giggið út í gegn. Kiss gerði líka góða hluti og kveikti vel í mannskapnum áður en aðalnúmerið, Iron Maiden, steig á svið. Þá varð allt bandsjóðandi vitlaust og mannfjöldinn breyttist í úfið haf; öldugangurinn var ógurlegur og við færðumst fram og til baka, án þess að fá við neitt ráðið. Ein bylgjan át Sævar og við sáum hann fjarlægjast okkur hratt og örugglega. Fundum hann ekki aftur fyrr en í rútunni eftir gigg. Ekki er hlaupið að því að finna réttu rútuna á bílaplaninu eftir svona viðburð, þar sem þær skiptu hundruðum. En Sævar fann hana samt, einn síns liðs, eins og hann fann alltaf glufurnar í vörn andstæðinga sinna í handboltanum.

Hitt var verra að einn úr íslenska hópnum skilaði sér ekki aftur til rútu. Þá lá fyrir að tveir tónleikagestir hefðu týnt lífi, troðist undir meðan Guns N‘ Roses var að spila. Tónleikahaldarar ákváðu að halda leik samt áfram, ætti að leysa giggið upp gæti það endað með ósköpum. Siggi Sverris hafði að vonum miklar áhyggjur af þessu en gaurinn var sem betur fer heill á húfi; fann bara ekki rútuna og húkkaði far með annarri rútu og tók á móti okkur heima á hótelinu í Lundúnum. En sá léttir. Og allir komust heilir heim til Íslands.

Böndin sem komu fram þennan dag áttu heldur en ekki eftir að reynast slitgóð en þau eru öll enn í fullu fjöri, fyrir utan Kiss sem nýlega eru komnir á eftirlaun eftir lengsta kveðjutúr sem sögur fara af. Iron Maiden og Guns N‘ Roses eru enn að fylla íþróttaleikvanga eins og að drekka vatn. Hafa aldrei notið meiri lýðhylli, 37 árum eftir Castle Donington.

Sagði einhver að málmlistin væri bóla?

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00

Sambýlið á Ásbraut 3 í Kópavogi

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
17. janúar 2025 | kl. 06:00

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Sigurður Arnarson skrifar
15. janúar 2025 | kl. 16:00