Fara í efni
Pistlar

Liðið sem aldrei lék heimaleik

ORRABLÓT - XXX

Þegar ég var að vaxa úr grasi á Akureyri var ekki nóg að æfa knattspyrnu með Þór eða KA, enginn var maður með mönnum nema að hann væri líka í hverfisliði. Þau voru á hverju strái, bókstaflega.

Fyrsta hverfisliðið sem ég átti aðild að var með varnarþing í Heiðarlundi og í eigu bræðranna Sigurðar og Jóns Kristins Sveinmarssona, sem voru aðalspaðarnir í götunni, og hét einfaldlega Sigga og Nonna-lið.

Bræðurnir sóttu að mér árla morguns einn daginn og upplýstu mig um að ég hefði verið valinn í leikmannahópinn, sem var mikill heiður enda ég einhverjum árum yngri en þeir. Samningaviðræður fóru fram gegnum bréfalúguna á heimili mínu enda var ég enn í náttfötunum. Man ekki hvort þér létu mig skrifa undir eitthvað en það hlýtur eiginlega að vera.

Einhverja leiki á ég með Sigga og Nonna-liði, sem fram fóru á túnum í grenndinni eða malbikinu við Lundarskóla, en dag einn var allt búið og bræðurnir lögðu liðið niður. Hafa líklega vaxið upp úr þessari starfsemi. Þá stofnaði Óli nokkur grís nýtt lið, sem ég var líka í. Viðurnefni hans hafði ekkert með þá göfugu skepnu svínið að gera, heldur tengt því að Óli var óvenjulega heppinn maður, það er grísóttur. Grísaði sig máttlausan í öllu og engu. Það hlýtur að hafa haft áhrif á gengi liðsins enda þótt ég muni það ekki vel.

Síðan flutti ég í Þorpið og eitt af mínum fyrstu verkum var að sjálfsögðu að setja á laggirnar hverfislið. Hlaut það nafnið DBS. Það hafði ekkert með reiðhjólin góðu að gera, Den Beste Sykkel (eða druslan bundin saman, eins og gárungarnir kölluðu það), enda þótt við byggjum flestir að eða ættum eftir að eignast slíkan kostagrip. Við vorum einfaldlega að vinna með fyrsta stafin í götuheitum okkar, Drangshlíð, Borgarhlíð og Smárahlíð.

Starfsemi DBS varð snemma blómleg. Æfingar fóru fram á heimavelli liðsins, Þúfnavöllum, á túninu milli Borgarhlíðar og Smárahlíðar, en hann var því miður ekki löglegur til keppni að dómi UEFA, en eins og nafnið gefur til kynna var völlurinn með afbrigðum ósléttur. Auk þess sem þar var aðeins eitt mark, sem Samúel Jóhannsson, Sammi baðvörður í íþróttahúsi Glerárskóla, smíðaði fyrir okkur úr timbri. Helvíti gott í því marki sem stóð af sér ófáa stormana.

Fyrir vikið lék DBS alla leiki í sögu sinni á útivelli. Má þar nefna malbikið við Glerárskóla en lið sem starfaði sunnar í Hlíðahverfinu sló eign sinni á það. Einnig var glímt við lið úr Holtunum á grasinu fyrir neðan Einholtið en þar voru fín mörk, meira að segja tvö, og Síðuliðið á flunkunýjum velli þar um slóðir. Síðuhverfið var óðum að byggjast upp á þessum árum.

Erkiféndur okkar voru þó SL, Seljahlíð og Litlahlíð, og langflesta leiki lék DBS á túninu milli þeirra gatna, sem var mun sléttara en okkar eigið tún og mörkin lögleg á alla kanta.

Metnaðurinn var mikill og við komum okkur, eitt hverfisliða á svæðinu, upp keppnisbúningi. Það voru svarbláar Adidas-treyjur sem við keyptum í íþróttabúðinni í verslunarmiðstöðinni í Sunnuhlíð. Búðin hafði yfir að ráða merkivél og við létum okkur ekki nægja að láta þrykkja númerum á bakið, heldur líka auglýsingu framan á búninginn. Gosdrykkurinn 7-Up varð fyrir valinu en það hafði engan markaðslegan tilgang, við fengum ekki krónu í styrk. En drykkurinn þótti okkur góður. Og það var alveg nóg.

DBS starfrækti ekki bara knattspyrnudeild, á veturna vorum við með skákklúbb, tefldum mikið og efndum til innanfélagsmóts í skák. Á sumrin var margt gert sér til dundurs og alla vega einu sinni slógum við upp innanfélagsmóti í frjálsum íþróttum á bílaplaninu við verslunarmiðstöðina í Sunnuhlíð. Ég man að ég nældi í silfrið í langstökki án atrennu. Á ábyggilega medalíuna enn, en hún var úr pappír.

Margir góðir menn áttu aðild að DBS. Aldavinir mínir Hjalti S. Hjaltason og Ingólfur Jónsson sátu í stjórn, ásamt Tómasi Páli Sævarssyni, sem bjó í eina húsinu í Drangshlíðinni og sat því einn að 33,3% atkvæða á stjórnarfundum. Man ekki annað en að Tommi hafi farið vel með það vald.

Þarna voru líka Valur Helgi Kristinsson, síðar heimilislæknir, Friðfinnur Freyr Guðmundsson, nú verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og formaður landsstjórnar björgunarsveita, Einar Már Guðmundsson, sem í dag er framkvæmdastjóri Icelandair Cargo og Ómar Örn Jónsson, sonur Nonna Lár, stormsenters úr Þór, svo einhverjir séu nefndir. Um tíma var líka með okkur maður sem hét því tilkomumikla nafni Edward Örn Jóhannesson Edwardsson Taylor. Við kölluðum hann Brand.

Eitt haustið réðum við Brandur okkur í vinnu við að taka upp kartöflur á Svalbarðsströnd. Það var bara nokkurra daga gigg og voru sunnudagarnir valkvæðir, við áttum bara að láta vita ef við kæmum ekki. Ég ákvað að sitja hjá og bað Brand, sem ætlaði að mæta, að skila því til bílstjórans sem sótti okkur heim að dyrum. Hann svaf hins vegar yfir sig þennan morgunn og bílstjórinn greip í tómt. Kartöflubóndinn hafði engan húmor fyrir þessu og rak okkur báða.

Takk fyrir, túkall!

Ég jafnaði mig fljótt á því og erfði þetta ekki við Brand enda um eðaldreng að ræða.

Þess má líka geta að fyrstu skref mín í blaðamennsku eru tengd DBS órofa böndum en ég gaf um tíma út tímaritið Mána í hverfinu. Það kom út mánaðarlega, þar af leiðir nafnið.

Í Mána var greint skilmerkilega frá öllum úrslitum úr leikjum DBS og markaskorarar tilgreindir. Þar voru líka viðtöl við leikmenn liðsins, þar sem þeir sýndu á sér hina hliðina, eins og ég hafði séð í ensku knattspyrnutímaritunum Shoot og Match. Spurt var um uppáhaldsmatinn, -hljómsveit, -leikara og þar fram eftir götunum, auk þess sem menn voru látnir gera grein fyrir ættum sínum og uppruna. Þá var í Mána kynning á helstu liðum í ensku knattspyrnunni og myndaskop sem ég stal kinnroðalaust úr erlendum blöðum, meistari Mordillo var atkvæðamikill.

Vona að þessi þjófnaður sé fyrndur.

Máni var öðrum þræði fjölskylduverkefni. Engin ritvél var til á heimilinu en mamma var læknaritari og fékk slíkan grip lánaðan á Fjórðungssjúkrahúsinu, þegar nær dró útgáfu. Við pabbi brunuðum síðan með sjóðheitt handritið niður í Oddeyrarskóla, þar sem hann kenndi, og hann fjölritaði blaðið fyrir mig á kennarastofunni. Þetta gerðum við að kvöldlagi enda óvíst að það hafi verið vel séð. En Indriði Úlfsson skólastjóri er fallinn frá, þannig að óhætt ætti að vera að greina frá þessu núna.

Ég kann Oddeyrarskóla og Fjórðungssjúkrahúsinu ævarandi þakkir fyrir aðkomu þeirra að þessari „merku“ útgáfu.

Enda réðust þarna örlög mín í þessu lífi.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00