Fara í efni
Pistlar

Hvað ertu með um hálsinn, drengur?

ORRABLÓT - XXXVI

Vera má að ég hafi ekki verið nægilega mikið á geistlegu nótunum í pistlum mínum á þessum vettvangi til þessa. Úr því verður bætt í dag, hér verða prestar og kirkjur á fyrsta farrými.

Ég er svo lánsamur að kirkja var hluti af leikmynd minni í æsku og það ein fallegasta, ef ekki hreinlega fallegasta, kirkja landsins, Grundarkirkja, sem Magnús óðalsbóndi Sigurðsson reisti fyrir eigið fé og var vígð 1905, fyrir réttum 120 árum. Magnús var ekki skyldur mér en seinni kona hans, Margrét Sigurðardóttir, var afasystir mín. Fædd 1889.

Við frændurnir hengum í trjánum í garðinum kringum kirkjuna, apakettirnir sem við vorum, og fengum annað slagið að fara inn, einkum þegar gesti bar að garði. Þá tók maður af sér húfuna.

Séra Bjartmar Kristjánsson var ábyggilega sóknarprestur í sveitinni á þessum tíma en hann bjó á Laugalandi og bar í minningunni ekki oft að garði. Ég man ekki eftir mörgum guðsþjónustum á Grund á þessum tíma og eina athöfnin sem ég var örugglega viðstaddur var útför ömmu, 1982.

Fyrsti presturinn sem ég man almennilega eftir er séra Þórhallur Höskuldsson sem sá um fermingarfræðslu á Þelamörk, þegar ég var þar í blábyrjun áttunnar. Hann sat þá á Möðruvöllum. Afskaplega ljúfur maður og virðulegur. Ekki var ég þó í tímum hjá séra Þórhalli enda alltof ungur til að fermast.

Séra Pétur Þórarinsson, sem tók við af séra Þórhalli, var hress maður og mikill húmoristi. Það gustaði jafnvel af honum. Séra Pétur hafði yndi af því að spila bumbubolta með félögum sínum og naut þess í því sambandi að vera eini maðurinn á vellinum sem hafði formlegt leyfi til að jarða. Færði sér það óspart í nyt, að því er kom fram í viðtölum við hann í fjölmiðlum.

Báðir létust þessi höfðingjar, séra Þórhallur og séra Pétur, langt fyrir aldur fram.

Prestunum í Akureyrarkirkju, séra Pétri Sigurgeirssyni og séra Birgi Snæbjörnssyni, kynntist ég ekki en sonur séra Péturs, sem líka heitir Pétur, kenndi mér síðar allt um Emile Durkheim, einn af risum félagsfræðinnar, í Háskóla Íslands. Séra Pétur varð auðvitað síðar biskup yfir Íslandi.

Fyrir nokkrum árum kom ég norður til að taka viðtal fyrir Moggann við merkilegan mann, Hallgrím Jónsson flugstjóra, Mona. Þá rifjaði hann meðal annars upp eftirminnilegt Grímseyjarflug þar sem séra Pétur var honum við hlið í lítilli rellu.

„Það var bandvitlaust veður og ég í hálfgerðu basli og missti út úr mér: Djöfullinn sjálfur! Ég er að missa flugbrautina út af snjókomu!" sagði Moni. Þá svaraði séra Pétur með sinni alkunnu hægð: „Heldurðu að það sé mikil hjálp í honum?!“

Mynd af Hallgrími Jónssyni flugmanni – Mona: Árni Sæberg

Ég var nýfluttur í Þorpið þegar nýtt prestakall var stofnað, Glerárprestakall. Kosið var milli manna og annar þeirra, Pálmi Matthíasson, stóð dag einn á stigapallinum fyrir framan heimili mitt í Smárahlíðinni. Eins og góðu, guðhræddu og gestrisnu fólki sæmir buðu foreldrar mínir honum inn í kaffi og þeim fundi lauk með því að þau lýstu því bæði yfir að þau ætluðu að greiða Pálma atkvæði sitt. Sjálfur var ég bara tíu ára og ekki kjörgengur. Pálmi vann öruggan sigur í kjörinu.

Síðar kenndi séra Pálmi mér kristinfræði í Glerárskóla og fermdi mig. Hress maður og elskulegur sem hafði gaman af því að spjalla við okkur krakkana, ekkert síður á léttum nótum en siðfræðilega þungum.

Glerárkirkja var ekki risin á þessum tíma og séra Pálmi söng því messur sínar í stærstu stofunni í Glerárskóla. Mæta þurfti í að minnsta kosti fjórar guðsþjónustur til að fá að fermast og séra Pálmi þurfti að spjalda mig er leið á veturinn. Mæting mín væri ekki nægilega góð. Það helgaðist aðallega af því að messurnar voru alltaf á sama tíma og æfingar í innanhússfótbolta hjá Þór og ykkur að segja var ekkert sérstaklega erfitt að velja þarna á milli. Ég náði þó að gyrða mig í brók og fékk að fermast.

Athöfnin fór fram í Lögmannshlíðarkirkju og er það í fyrsta og eina skiptið sem ég hef komið inn fyrir þær helgu dyr. Pláss var af skornum skammti og við klæddumst því kirtlunum um borð í gömlum strætisvagni úti á bílaplani. Fyrir athöfn kom séra Pálmi að máli við mig og annan dreng í hópnum og bað okkur alvarlegur í bragði um að hafa auga með þriðja drengnum enda kom stundum fyrir að mikið óyndi greip hann upp úr þurru með þeim afleiðingum að drengurinn rauk á dyr, hvort sem hann var staddur í skólanum eða í athöfnum að einhverju tagi, og hljóp lengst út á tún. Þetta vildi klerkur fyrirbyggja með öllum tiltækum ráðum. Ég man ekki betur en að hann hafi látið okkur hafa Andrésblöð og annað afþreyingarefni í þeim tilgangi. Hvort sem það var okkur að þakka, Andrési eða einhverju öðru þá sat drengurinn á strák sínum ferminguna út í gegn og séra Pálmi gat andað léttar.

Hið nýja prestakall var duglegt að láta vita af sér og frægt var þegar þulurinn í útvarpinu mismælti sig. Held það hafi örugglega ekki verið okkar maður Sigvaldi Júlíusson (punktur is). „Guðsþjónusta í Glerárkirkju á sunnudaginn klukkan 14. Séra Sálmi Matthíasson.”

Aumingja séra Pálmi var ekki kallaður annað en séra Sálmi lengi á eftir.

Hafði ég nú lítið að segja af norðlenskum prestum næstu árin, nema hvað maður rakst auðvitað reglulega á séra Pálma á förnum vegi, hvort sem var í sundi, á vellinum eða jafnvel í ljósum. Hann var nýmóðins um margt og braut gjarnan upp staðalmyndina sem maður hafði af prestum. Ég sé til dæmis alls ekki Pétur biskup fyrir mér í ljósum.

Þegar ég var við nám í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands haustið 1993 brunaði umsjónarmaðurinn, Akureyringurinn dr. Sigrún Stefánsdóttir, með hópinn norður til að vinna eina viku á Degi. Þetta hljómar að vísu betur þegar maður segir það, að vinna eina viku á degi, enda heyrist stóra D-ið illa.

En alla vega, fantavel var tekið á móti okkur af ritstjóranum, mínum gamla íslenskukennara Braga V. Bergmann, og fréttastjóranum, Kristjáni Kristjánssyni, útherja úr Þór sem síðar átti eftir að vinna með mér á Mogganum. Við áttum sjálf að velja okkur verkefni og mér fannst upplagt að skrifa um sálarrannsóknir í mínum gamla heimabæ enda hafði ég hugboð um að þær hefðu verið býsna litríkar og líflegar gegnum tíðina.

Fyrst hélt ég á fund Skúla Lórenzsonar miðils, sem þá var formaður Sálarrannsóknarfélagsins á Akureyri, og setti hann mig vel inn í efnið. Mikilvægt var að leita sjónarmiða víðar og ég man að ég hringdi til dæmis í Ólaf Ólafsson landlækni til að kanna afstöðu læknavísindanna til slíkra mála.

Svo þurfti auðvitað að fá viðhorf þjóðkirkjunnar og í því augnamiði fór ég á fund séra Gunnlaugs Garðarssonar sem þá var orðinn sóknarprestur í Glerárkirkju en þarna var búið að vígja þá fínu kirkju. Gunnlaugur var ljúfur maður og tók mér vel. Við fórum vítt og breitt yfir sviðið og í miðju samtali bar gest að garði, séra Torfa Hjaltalín Stefánsson sem þá var sóknarprestur á Möðruvöllum. Séra Gunnlaugur kynnti okkur og þegar séra Torfi var að taka í höndina á mér kom hann auga á hálsmen sem ég leit á sem frjósemistákn en ekki kross. Séra Torfi sá hins vegar greinilega bara öfugan kross sem í seinni tíð getur verið tákn um trúleysi eða jafnvel djöfladýrkun. Fyrir vikið skutu augu hans gneistum. „Hvað ertu með um hálsinn, drengur?“ þrumaði hann. „Finnst þér við hæfi að vera með þetta hér inni?“

Það hjálpaði ábyggilega ekki til að ég var með mjög sítt hár á þessum tíma.

Áður en ég kom upp orði greip séra Gunnlaugur til varna fyrir mig og benti kollega sínum á að öfugi krossinn hefði nú talsvert víðari merkingu og væri oft kenndur við Pétur postula sem lét krossfesta sig á hvolfi fyrir þær sakir að hann taldi sig þess ekki umkominn að vera krossfestur með sama hætti og Kristur sjálfur. Sumsé kristið tákn. Menn fóru ekki að snúa upp á merkinguna fyrr en öldum síðar.

Séra Torfi fussaði hins vegar bara og rauk á dyr. Ég hef ekki séð hann síðan.

Þetta minnti mig á viðbrögð útsendara Votta Jehóva sem stungu einu sinni við hjá mér stafni meðan ég var við háskólanám og bjó á Nýja Garði. Þegar ég opnaði herbergið mitt blöstu við veggmyndir af málmböndum á borð við Metallica og Slayer og það var engu líkara en að ég hefði slegið Vottana utan undir. Þeir urðu gjörsamlega miður sín þegar þeir sáu þessa hræðilegu menn á veggjunum en höfðu að vísu betri hemil á andúð sinni en séra Torfi.

Eftir að ég hafði hlúð að þeim um stund og gefið þeim kalt vatn að drekka áttum við Vottarnir gott spjall frammi á gangi, inn í herbergið fengust þeir ekki til að koma. Þar útskýrði ég fyrir þeim að ekki væri endilega allt sem sýndist í þessum efnum. Þannig ólst James Hetfield, söngvari og gítarleikari Metallica, upp á strangtrúuðu heimili, þar sem Biblían trompaði öll mannanna lög. Sem snáði mátti hann ekki sækja tíma í líffræði í skólanum, þar sem foreldrum hans þótti það efni óguðlegt og í reynd stórhættulegt. Síðar át krabbamein móður hans upp til agna án þess hún tæki svo mikið sem eina panódíltöflu til að freista þess að draga úr þrautum sínum.

Faðir hans var löngu á bak og burt þegar móðirin féll frá og Hetfield, sem enn var bara unglingur, fékk inni hjá vini sínum, Ron McGovney, fyrsta bassaleikara Metallica. Missti svo þann bedda þegar McGovney var rekinn úr Metallica skömmu síðar á grundvelli listræns vanmáttar hans. Í staðinn kom séníið frá San Francisco, Cliff Burton, sem lést svo fáeinum árum síðar með sviplegum hætti í rútuslysi í Smálöndunum, þar sem Metallica var á tónleikaferðalagi.

Þá, eins og þegar móðir hans dó, settist Hetfield að spjalli við Guð sinn. Eins og hollt er að gera.

Þetta þótti Vottunum merkilegt.

En nú erum við komin heldur langt út fyrir bæjarmörkin. Ég get lofað ykkur því að Ron McGovney hefur aldrei sótt guðsþjónustu á Akureyri. Og aldrei klifrað í trjánum á Grund.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Tengslaröskun geðlæknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:45

Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Sigurður Arnarson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:30

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00