Féll af kústhestbaki

ORRABLÓT - XXXIV
„Þú verður að gera eitthvað! Þú verður að gera eitthvað strax!“ hrópaði Ella kennari á mig að tjaldabaki á árshátíð Glerárskóla vorið 1986 en ég var kynnir á hátíðinni. „Brúðuleikhúsið hrundi og aumingja krakkarnir eru háskælandi á sviðinu.“
Ég lét ekki segja mér það tvisvar, greip kústhest sem stóð þar álengdar, brá mér á bak og skeiðaði inn á sviðið – með viðeigandi (ó)hljóðum. Án þess að vera endilega með plan. Í öllu óðagotinu steingleymdi ég hins vegar að sviðið var útbíað í leikmunum og eiginlega um leið og ég varð sýnilegur áhorfendum hnaut ég um stóran púða eða pullu, féll fram fyrir mig og steinlá. Salurinn veinaði úr hlátri og meira að segja blessaðir brúðuleikararnir, sem voru að mig minnir í 1. bekk, voru farnir að brosa út í annað að óförum mínum þegar þeir voru leiddir út af sviðinu.
Blótari í gervi sýslumanns á árshátíð Glerárskóla 1986.
Það sem gerði fall mitt ennþá tilkomumeira var sú staðreynd að ég var klæddur í sýslumannsbúning frá 19. öld, ógurleg stígvél, frakka og með virðulega húfu á höfðinu. Þetta var í hááttunni þannig að ég var auðvitað búinn að safna í gott möllett. Því hafði hins vegar verið sópað í heilu lagi undir húfuna enda langsótt að menn í innsveitum hafi mikið verið að vinna með möllett þarna á 19. öldinni.
Eftir sýninguna komu nokkrir kennarar og foreldrar að máli við mig og þökkuðu mér kærlega fyrir þessa „frábærlega hönnuðu atburðarás" og fyrir að hafa „beint athyglinni frá litlu börnunum". Ég kinkaði bara kolli og var ekkert að leiðrétta þetta. Staðreyndin var hins vegar sú að ég hrasaði bara. Alveg óvart.
Að öðru leyti gekk árshátíðin snurðulaust fyrir sig en þetta voru þrjár ef ekki fjórar sýningar fyrir smekkfullu hálfu íþróttahúsi Glerárskóla. Brúðuleikhúsið hrundi eins og spilaborg á þeirri seinustu. Ýmsir gerðu þarna góða hluti. Félagar mínir Þórir Áskelsson, Axel Vatnsdal og Sverrir Ragnarsson, sem þá voru í 8. bekk, léku til dæmis Bakkabræður af ísmeygilegri kímni og hljómsveit skipuð kennurum hlóð í nokkra smelli eftir Styx, The Moody Blues og fleiri gamla meistara.
Fyrr um veturinn, á jólaskemmtun í þessum sama sal, stálum við 9. bekkingar (sem þá var elsti bekkurinn) senunni. Mikið vaxtarræktaræði hafði þá gripið um sig meðal þjóðarinnar og Sigurður Gestsson og fleiri Akureyringar að gera góða hluti á mótum vítt og breitt um landið. Við sáum sóknarfæri í þessu og buðum upp á skemmtiatriði sem öðrum þræði var keppni í vaxtarrækt.
Ég stóð fullklæddur í sviðsjaðrinum og kynnti keppendur á svið, einn af öðrum. Þeir voru Ingólfur Jónsson, Rúnar Friðriksson, Héðinn Brynjar Héðinsson og Páll Viðar Gíslason, allir á stuttbuxum einum fata (gamla góða Speedo-skýlan var of mikið) og í anda slíkra móta voru kapparnir að sjálfsögðu löðrandi í olíu. Við tæmdum úr hverjum brúsanum af öðrum í sturtuklefanum fyrir sýninguna til að hafa þetta sem ýktast. Allt voru þetta spartverskir menn og vöðvastæltir – Rúnar átti síðar eftir að reyna fyrir sér í kraftlyftingum með góðum árangri – þannig að mögulega hafa einhverjir áhorfendur talið að hér væri um fúlustu alvöru að ræða. En það var lykkja í handritinu. Nema hvað? Seinastur á svið var nefnilega grennsti maðurinn sem við fundum í árganginum, Sigurjón Egill Jósepsson. Vöðvar voru alls ekki að þvælast fyrir honum. Vann hann salinn að vonum strax á sitt band og hlaut að verða hlutskarpastur. Grjóni, sá dásamlegi drengur, púllaði þetta með stæl enda með góðan húmor fyrir sjálfum sér.
Páll Viðar Gíslason og Axel Stefánsson í banastuði fyrir æfingu hjá Þór vorið 1986 – Sigurður Gestsson vaxtarræktarkappi – Rúnar Friðriksson á aflraunaæfingu í útskriftarferð 9. bekkinga úr Glerárskóla vorið 1986.
Margt var brallað utan hefðbundins skólatíma í Glerárskóla. Á mánudagskvöldum var alltaf opið hús og jafnan vel mætt. Slegið var upp dansiballi í stóru stofunni í nýjustu álmunni. Mig minnir að hún hafi verið nr. 16 en þið leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál. Þar þeyttu diskóspaðar á borð við Örn Ólaf Jónsson, Davíð Rúnar Gunnarsson og Jóhann Gísla Sigurðsson nýjustu skífunum. Í annarri stofu rúllaði vídjóið, bíómyndir, þættir og heitustu tónlistarmyndböndin úr Skonrok(k)i, sem síðar varð Poppkorn. Svo var alltaf bara hægt að sitja fram á gangi og spjalla eða grípa í spil.
Þarna var líka borðtennisborð. Sjálfur hafði ég lært borðtennis meðan ég var við nám í Þelamerkurskóla, þar sem sportið naut gríðarlegrar hylli. Í því samhengi var ég ekki nema þokkalegur meðalmaður en í Glerárskóla var ég allt í einu orðinn þrælgóður í borðtennis. Það helgaðist af því að áhuginn var svo gott sem enginn. Það voru helst bræðurnir Stefán og Elvar Thorarensen sem skoruðu mig á hólm.
Við tókum oft leik á opnu húsi og til að byrja með vann ég bræðurna næsta auðveldlega. Þeir sóttu hins vegar í sig veðrið, einkum Elvar sem æfði vel. Stebbi sat einbeittur á milli okkar og taldi stigin. Elvar dró jafnt og þétt á mig og að því óhjákvæmilega hlaut að koma – hann vann mig. Fólk sem þekkir til veit að ég er mjög tapsár maður en þetta er í eina skiptið í lífinu sem ég hef orðið ánægður með að tapa. Ekki var nefnilega annað hægt en að gleðjast með bræðrunum sem föðmuðust og stigu æðisgenginn stríðsdans þarna við borðið.
Langþráðu markmiði var náð.
Blótari og Steinar Birgisson áratugum eftir hittinginn í Ártúnsbrekkunni. Það sem Axel Stefánsson hefði gefið fyrir að vera á þessari mynd! Þarna má líka sjá svokallaðan hálfmána og hægra megin eru hestar í Ártúnsbrekkunni – alveg satt!
Vorið 1986 fórum við 9. bekkingar í útskriftarferð, eins og lög gera ráð fyrir, alla leið til Reykjavíkur og Hveragerðis. Var okkur smalað inn í ljómandi huggulega langferðabifreið og lagt í'ann. Við komuna suður lentum við á rauðu á umferðarljósum sem þá voru efst í Ártúnsbrekkunni. Renndi þá lögreglubíll, Svarta María, upp að hlið okkur og hver haldiði að hafi verið undir stýri? Jú, enginn annar en Steinar Birgisson, landsliðsmaður í handbolta. Axel bekkjarbróðir minn Stefánsson áttaði sig fyrstur manna á þessu, mikið handboltafrík og síðar landsliðsþjálfari kvenna. Þóttist hann að vonum hafa himin höndum tekið: „Nei, nei, nei, nei, Steinar Birgisson!!!“ hljóðaði hann upp yfir sig. Við hin stukkum að sjálfsögðu á rúðuna. Ég veit ekki hvað aumingja Steinar hefur haldið. En kannski var hann bara vanur þessu.
Löngu síðar átti ég eftir að spila bumbufótbolta með Steinari Birgissyni, þeim mikla öðlingi, og það skal ég segja ykkur að hann er grjótharðasti nagli sem ég hef kynnst á velli. Eigi menn val um að fara öxl í öxl við Steinar eða steinsteyptan útvegg þá mæli ég allan daginn með steinsteypta útveggnum!
Eftir að hafa séð Steinar í Ártúnsbrekkunni lagði Axel til að snúið yrði við á punktinum og haldið aftur heim. Þessi upplifun yrði ekki toppuð. Því var andmælt og við kláruðum ferðina sem varð hin skemmtilegasta. Við gistum í Hagaskóla og sitthvað varð til dundurs í borginni. Við kíktum í búðir á Laugaveginum, snæddum hádegisverð í Múlakaffi og tókum spilakassana á Hlemmi til kostanna, svo eitthvað sé nefnt. Eitt kvöldið borðuðum við á flatbökustað á Laugaveginum sem mig minnir endilega að hafi heitið El Sombrero. Þar pantaði ég mér hálfmána, í fyrsta og seinasta skipti.
Við gistum líka í Hveragerði og skelltum okkar að sjálfsögðu í tívolíið sem þá var á staðnum, klessubílar, slöngubátar, kolkrabbi, þeytivinda og sitthvað fleira. Svo höfum við ábyggilega fengið okkur ís í Eden. Og grillað í apanum. Sem var auðvitað alls ekki í Eden.
Einnig var farið á Þingvelli í ferðinni og í útsýnisferð um suðurlandið, þar sem margt var um hrossið í haga. Ekkert þeirra var þó úr kústi.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.


Jesús og Júróvisjón

Dýrtíð

Kári og Skúli

Borð og stólar upp kirkjutröppurnar
