Fara í efni
Tré vikunnar

Um mórber og óvænt heimsmet

TRÉ VIKUNNAR - XCV

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli sama daga til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Mórber vaxa á samnefndum runnum eða trjám þar sem frost eru fátíð nema á miðjum vetri. Því er þau ekki að finna utan dyra á Íslandi. Ættkvíslin á sér merkilega sögu og kemur við á óvæntustu stöðum. Tegundirnar voru fyrir langalöngu talin nauðaómerkileg en það breyttist fyrir löngu. Eins og allir vita er mikill munur á hugtökunum „fyrir löngu“ og „fyrir langalöngu“.

Það sem kom mórberjum ofar í goggunarröðina er sú staðreynd að ein tegundin er grundvöllur silkiframleiðslu í heiminum. Þar með eignast mórberjarunnar hlutdeild í einu heimsmeti en annað heimsmet eiga þeir alveg einir. Sagt er frá þeim báðum í pistlinum.

Nafnið á plöntuættkvíslinni, sem ber fræðiheitið Morus L., hefur að geyma merkilegt dæmi um flökt á milli svokallaðra grannhljóða.

Þetta, ásamt ýmsu öðru, er efni þessa pistils. 

Sortumórber, Morus nigra. Myndin fengin héðan. Ljósmyndarinn kallar sig born1945. 

Fjöldi tegunda

Heimildum ber ekki alveg saman um hversu margar tegundir eru til af mórberjum, eða Morus tegundum. Kemur þar meðal annars til að mörkin milli tegunda og undirtegunda eru ekki alltaf glögg. World Flora on Line gefur upp 20 viðurkennd nöfn auk undirtegunda og afbrigða en sumar heimildir telja tegundirnar færri. Má sem dæmi nefna að Schulz (2020) segir í sinni bók að tegundir ættkvíslarinnar séu 12. Þetta er merkilegt í ljósi þess að vefsíðunni er meðal annars haldið úti af vísindamönnum Kew Gardens en Kew Publishing gefur út bókina. Vel má vera að hressileg rifrildi heyrist á kaffistofu vísindamannanna í Kew þegar talið berst að mórberjum, fyrst svona langt er á milli hugmynda þeirra um fjölda tegunda. Rétt er þó að nefna að vísindamenn Kew Gardens eru ekki þeir einu sem koma að síðunni. Grasafræðingar hjá Missouri Botanical Garden koma einnig að síðunni og þegar þetta er skrifað er síðan vistuð þar. Þeir verða líka að ráða einhverju, blessaðir karlarnir. Í stað þess að rífast á kaffistofunni í Kew geta vísindamennirnir hneykslast í sameiningu á kollegum sínum í Missouri.

 
Vetrarmynd frá Oregon í Bandaríkjunum af einstofna mórberjatré. Myndin fengin héðan.
 

Við ætlum ekki að fjalla um allar þessar tegundir. Við viljum fyrst og fremst segja ykkur frá tveimur tegundum, sem báðar vaxa sem villtir slæðingar í Evrópu, en nefnum að auki þá þriðju, svona í framhjáhlaupi. Þessar þrjár tegundir eru í stafrófsröð fræðiheita: Hvítt mórber eða bara mórber, Morus alba L., sortumórber, M. nigra L. og roðamórber, M. rubra L.

Eins og glöggir lesendur hafa vonandi tekið eftir má sjá bókstafinn „L.“ á eftir heitunum. Það merkir að það var sjálfur Linnæus hinn sænski, höfundur tvínafnakerfisins sem við notum til að nefna allar lífverur, sem gaf tegundunum fræðiheitin.

Í lok pistilsins fjöllum við nánar um þær tvær tegundir sem vaxa villtar í Evrópu en þangað til bregður þremur tegundum fyrir hér og þar í textanum.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Tafla yfir nöfn mórberja á nokkrum tungumálum. Stundum hefur R-hljóðið breyst í L-hljóð. Má nefna að Svíar eru ekki sammála nágrönnum sínum í Noregi og Danmörku. 

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30