Fara í efni
Tré vikunnar

Rúbínreynir

TRÉ VIKUNNAR - LXXXVII

Mikill fjöldi reynitegunda hefur verið reyndur á Íslandi og margar þeirra spjara sig ljómandi vel. Sumar þeirra koma alla leið frá Asíu. Ein af þeim asísku reynitegundum sem hér hafa verið reyndar þykir svo fögur að hún er kennd við eðalsteina á íslensku. Kallast hún rúbínreynir eða Sorbus bissetii McAll. Rúbínreynir vex hér prýðilega og er ákaflega fallegur en dálítið viðkvæmur fyrir haustkali. Hann er einn af svokölluðum smáblaðareyniviðum sem margir hverjir mynda örtegundir eins og við höfum áður fjallað um. Það á einnig við um rúbínreyni. Þessi tiltekna örtegund hefur aðeins fundist í vesturhluta Sichuan í Kína. Smáblaðareynitré er hópur reyniviða sem er með lauf sem í fljótu bragði minna á burkna.

Þar sem garðar virðast almennt fara minnkandi á Íslandi hefur athyglin beinst í auknum mæli að lágum trjám sem taka fremur lítið pláss. Slíkar tegundir eru afar heppilegar í litla garða. Þess vegna hefur kastljósinu verið beint að þessum smáblaðareynitegundum eins og rúbínreyni. Auðvitað má að sjálfsögðu líka rækta hann í stórum görðum. Að auki geta natnir ræktunarmenn ræktað rúbínreyni í skýldum sumarbústaðalöndum og til skrauts í skógarrjóðrum.
 
 

Rúbínrauð ber og glansandi, græn laufblöð í sólskininu. Mynd: Kristján Friðbertsson.

Almenn lýsing

Rúbínreynir er fremur hægvaxta runni og verður ekki nema um 2 til 5 metrar á hæð og krónan getur orðið um 4 m í þvermál. Honum virðist vera eðlislægt að verða margstofna runni en er oft klipptur til þannig að hann myndi einstofna tré. Þannig nær hann meiri hæð en ef hann þarf að fóðra marga stofna. Hvort heldur hann er stór runni eða lítið tré er tegundin falleg og vekur mikla athygli. Einkum á það við um berin og glæsilega haustliti.

 

Upp úr miðju sumri má oft auðveldlega þekkja rúbínreyni á laufunum. Einkum á það við á sólarlausum dögum. Þá er þetta einkenni meira áberandi. Svo eiga laufin það til að dökkna áður en þau fara í haustliti. Þessi litur stafar af hæringu á laufunum sem getur fangað raka. Þá eru blöðin svona ljós. Mynd: Linda Ólafsdóttir.

Greinar og brum

Greinarnar eru rauðbrúnar að lit. Þær eru fremur þykkar og stífar miðað við líkar reynitegundir.

Brumin eru dökkrauð og allt að 10 mm löng. Rauðbrún hár vaxa út úr enda þeirra og í minna mæli við brumhlífapörin eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

 

Brum á rúbínreyni að hausti til. Áberandi rauðbrún hár út úr enda þess og færri hár við brumhlífarnar. Blöðin eru í haustlitum og sjá má hversu eldrauðir eða rúbínrauðir blaðstilkarnir eru á haustin. Mynd: Sig.A.

Laufblöð

Laufblöðin eru með áberandi rauðleitan blaðstilk. Það sama á við um blaðstilkinn og greinarnar að hann er óvenjustífur miðað við skyldar tegundir. Runninn sjálfur er venjulega nokkuð dökkur.

Algengast er að rúbínreynir laufgist í maí. Laufin eru stakfjöðruð og allt að 20 cm löng og oftast með 11-15 pör af smáblöðum en sum blöðin hafa ekki nema 9 pör smáblaða. Svo vex alltaf eitt, stakt smáblað fremst á hverju laufblaði. Smáblöðin eru 30 x 11 mm að stærð og með smáar tennur allt niður að blaðstilknum á stærri blöðum en smærri blöð eru stundum með tennur á ¾ hluta smáblaðanna. Efra borð blaðanna er dökkgrænt og glansandi en neðra borðið er matt. Við viss birtuskilyrði eru laufin mun ljósari en almennt gerist. Það má sjá á einni mynd hér að ofan. Einkum á þetta við á miðju sumri ef mikill raki er í loftinu. Þá er eins og rakinn setjist í smágerð hárin á laufinu.

 

Ber og lauf á rúbínreyni í Síðuhverfi á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Haustlitir þessarar tegundar eru einstaklega glæsilegir. Má segja að þeir séu eldrauðir eða jafnvel rúbínrauðir. Að vísu geta eðalsteinar sem kallast rúbínar verið nokkuð misjafnir á litinn. Haustlitirnir birtast vanalega í september og standa oftast fram í október.

 

Lauf í kvöldsól að hausti. Þetta er sama tréð og hér fyrir ofan. Mynd: Sig.A.

Blóm og ber

Blómin eru hvít og smá. Þau birtast nánast um leið og laufgun hefst í júní. Vanalega er það þannig að blómin verða að fullu þroskuð áður en tréð verður allaufgað. Eins og títt er um reynitré mynda blómin sveipi.

 

Vormynd af rúbínreyni. Blöðin ekki að fullu sprottin en blómin fallin og grænjaxlar komnir í ljós. Mynd: Steinar Björgvinsson.

Þegar berin birtast eru þau áberandi ljósgræn. Svo þroskast þau og verða vínrauð í ágúst. Síðan lýsast þau og verða bleik. Ef þau standa nægilega lengi á trénu og frost spilla þeim ekki að ráði verða þau næstum alveg hvít er líður á haustið. Hér á landi er sumarið oftast of stutt til að þetta gerist en þess finnast þó dæmi.

 

Á Íslandi er fátítt að haustið sé nægilega langt og milt til að berin nái að verða svona ljós eins og hér má sjá. Það gerist þó stundum. Myndin er fengin héðan en ekki kemur fram hver tók hana.

Það vekur athygli að berin eru breiðari en sem nemur lengd þeirra. Þau eru því örlítið flatari en almennt gerist. Þau eru um 10,5 x 12 mm að stærð og vaxa á stilkum. Þetta sést vel ef grannt er skoðað. Á berjunum má oft sjá nokkur rauðbrún hár.

Engin önnur reynitegund hefur bæði svona laufblöð og þessa gerð berja. Því reynum við að lýsa þessu nokkuð náið. Lesendur ættu að geta greint tegundina á þessum atriðum.

 

Ber, greinar og lauf á rúbínreyni. Mynd: Steinar Björgvinsson. 

Fjölgun

Rúbínreynir myndar auðveldlega fræ hér á landi sem verða dökkbrún er þau þroskast og um 4 x 2,5 mm að stærð. Tegundin er fjórlitna með samtals 68 litninga (2n = 68). Eins og svo margar skyldar tegundir frá Asíu myndar rúbínreynir fræ með geldæxlun. Trén skiptast ekki á erfðaefni við önnur tré. Því er tegundin alveg fræekta. Allir afkomendurnir hafa sama erfðaefnið og foreldrarnir þannig að munur milli einstaklinga stafar eingöngu af umhverfisaðstæðum eða stökkbreytingum. Þetta er ástæða þess að tegundin er sögð mynda það sem við köllum örtegund.

Einfaldast er að sá fræjunum að hausti til í bakka og koma þeim þannig fyrir að mýs komist ekki í þau. Það má gera með músaneti eða glerplötu. Svo þarf að geyma bakkann á góðum stað allan veturinn og leyfa mold og fræjum að frjósa. Undir vorið má taka bakkann inn í gróðurhús eða inn í bjartan glugga og þá spíra fræin og upp vaxa plöntur sem allar hafa sama erfðaefnið og móðurplantan.

Sömu aðferð má nota á allar aðrar reynitegundir á Íslandi og sumar þeirra eru fræekta eins og rúbínreynir á meðan aðrar stunda hefðbundna kynæxlun.

Þess þekkjast dæmi að rúbínreynir sé græddur á stofn annarra reynitegunda (Helgi 2024). Þar sem tegundin er sæmilega harðgerð, myndar auðveldlega fræ á Íslandi og afkomendurnir eru allir eins, sjáum við ekki tilgang með því.

 

Seint að hausti eru öll lauf fallin af þessu tré og berin orðin bleik. Stundum verða þau enn ljósari en hér má sjá. Mynd: Ólafur Sturla Njálsson.

Alþjóðleg saga

Árið 1975 barst eitt eintak af óþekktri reyniplöntu til Royal Botanic Gardens í Edinborg. Eitthvað gekk illa með þessa einu plöntu fyrsta árið og hún þótti ekki upp á marga fiska. Er menn töldu hana dauðvona var henni hent. Kom þá til sögunnar grasafræðingur að nafni Dr. L. Bisset og tók af henni þroskuð ber. Hann sendi fræin úr þeim til Ness í Liverpool árið 1976 þar sem þeim var sáð. Þar hefur tegundin vaxið alla tíð síðan og henni hefur verið dreift þaðan með fræskiptum við grasagarða út um allan heim.

Allar ræktaðar plöntur í heiminum eru komnar frá þessu tré sem var hent og Bisset bjargaði fræjunum af. Án hans væri þessi tegund ekki til í ræktun. Honum til heiðurs heitir plantan Sorbus bissetii. Það var Hugh McAllister sem gaf henni nafn og sagði söguna af nafngiftinni í bók sinni frá árinu 2005. Þessi tegund hefur ekki allaf verið seld undir þessu nafni í Bretlandi, enda kom bók McAllisters ekki á markað fyrr en þremur áratugum eftir að plantan barst til Bretlandseyja. Þar þekkist að nota yrkisheitið 'Pearls' yfir rúbínreyni. Það heiti varð til áður en McAllister gaf tegundinni nafnið sem nú er notað. Það er vel skiljanlegt að nota yrkisheiti á örtegundir, því allir einstaklingarnir eru með sama erfðaefni. Þess vegna má enn sjá rúbínreyni á breskum síðum undir heitinu Sorbus 'Pearls'.

 

Rúbínreynir myndar glæsilega haustliti. Mynd: Steinar Björgvinsson.

Íslandssaga

Það er fremur stutt síðan rúbínreynir fór í almenna ræktun á Íslandi. Samt er það svo að tegundin barst nokkuð fljótt hingað frá Ness í Liverpool. Það var Jóhann Pálsson, þáverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkur, sem pantaði fræ þaðan í gegnum Grasagarðinn í Laugardal árið 1986. Það er aðeins áratug eftir að farið var að reyna tegundina í Liverpool. Þess má til gamans geta að í sömu sendingu barst annar reynir til landsins sem einnig hefur staðið sig mjög vel og er tilvalið garðtré. Kallast hann Sorbus 'Molly Sanderson'. Þessi reynir hefur ekki náð neinni útbreiðslu en má stundum sjá á frælista Garðyrkjufélagsins (Hjörtur 2024). Hann er fræekta eins og rúbínreynirinn og mætti efalítið flokka sem örtegund.

Fræinu var sáð í Ræktunarstöð Reykjavíkur sem þá var í Laugardalnum undir stjórn Jóns Kr. Arnarsonar. Seinna varð hann um tíma framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. Það var hann sem fyrstur ræktaði rúbínreyni á Íslandi. Plöntunum var svo plantað í Laugardalsskrúðgarðinn og stóðu sig vel.

Lengi framan af gekk þessi reynir undir nafninu S. pogonopetala hér á Íslandi. Þegar McAllister kom í heimsókn árið 2007 leiðrétti hann það og í kjölfarið gáfu starfsmenn garðsins honum íslenskt heiti (Hjörtur 2024).

 

Rúbínreynir í Grasagarðinum í Laugardal með sín dökku, gljáandi blöð, þann 17. júlí 2024. Ekki er að sjá annað en hann þrífist prýðilega. Þessi planta er á sýningarsvæðinu í garðinum og var ræktuð upp í Ræktunarstöð Reykjavíkur, sem nú er í Fossvogi. Þaðan keypti garðurinn plöntuna. Fræið fékk Ræktunarstöðin af eintaki í Skrúðgarðinum í Laugardal. Þar var tegundin fyrst ræktuð á Íslandi. Mynd og upplýsingar: Hjörtur Þorbjörnsson.

Nokkru áður en McAllister kom hingað í heimsókn fékk Skógræktarfélag Hafnarfjarðar nokkur ber af tré í garðinum sem stóð nálægt byggingu KFUM og -K. Upp af fræjunum berjanna voru ræktuð tré í Gróðrarstöðinni Þöll. Væntanlega var það í fyrsta skipti sem reynirinn fór í almenna ræktun á Íslandi. Félögum í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar þótti tréð svo fallegt að þeir kölluðu tegundina demantsreyni. Það heiti var fellt niður þegar farið var að kenna tegundina við rúbína árið 2007, enda minnur litur berjanna meira á þá en demanta (Steinar 2024). Það var sjálfur McAllister sem stakk upp á að kenna tréð frekar við rúbína en demanta því berin minna á þá. Á það var fallist. Í báðum tilfellum var tegundin kennd við eðalsteina vegna fegurðar sinnar. Það verður að teljast óvenjulegt að sami útlendingurinn gefi trjátegund bæði alþjóðlegt heiti og íslenskt heiti.

Nálægt aldamótunum, áður en starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fóru að rækta þessa tegund, var hún dálítið ræktuð í Ræktunarstöð Reykjavíkur. Þar var tegundin ekki ræktuð nema til að gróðursetja í borgarlandið en ekki til að selja almenningi. Það var ekki gert fyrr en starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar tóku upp á því. Á þeim tíma gekk tegundin enn undir nafninu S. pogonopetala eins og að framan greinir.

Nú er tegundin ræktuð víða um land og má meðal annars kaupa hann í Sólskógum á Akureyri, Nátthaga í Ölfusi og sjálfsagt víðar. Bæði í Sólskógum og Nátthaga fást um þessar mundir mjög margar forvitnilegar tegundir. Það á einnig við um Þöll í Hafnarfirði og margar aðrar stöðvar. Í Lystigarðinum á Akureyri er þessi tegund nú í uppeldi og fær eflaust góðan stað í garðinum þegar þar að kemur.

 

Rúbínreynir í Höfðaskógi við Hafnarfjörð. Mynd: Steinar Björgvinsson.

Reynsla á Íslandi

Rúbínreynir er sérlega fallegt garðtré. Eins og sjá má hér að ofan er ekki mikil reynsla af ræktun hans hér á landi. Almennt má þó segja að rúbínreynir hafi lengst af lofað góðu þótt hann sé ef til vill ekki eins harðgerður og kasmírreynir, S. cashmiriana. Hann laufgast þegar frosthætta er að mestu liðin hjá og því er vorkal mjög sjaldgæft. Aftur á móti geta snemmbúin haustfrost skaðað tréð og því miður verður hann stundum fyrir haustkali. Veturinn 2022-2023 varð sums staðar bakslag sem við segjum frá hér aðeins neðar. Á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu hefur tegundin verið í ræktun allt frá því að starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hófu ræktun og sölu á tegundinni eins og að framan greinir. Tegundin er í fáeinum einkagörðum á Akureyri og reynslan af þeirri ræktun er góð.

Hér á Íslandi má segja að tegundin þrífist í allri sæmilega frjórri og framræstri garðmold. Í garðrækt er gott að halda grasi frá stofni trjánna og ef nokkrum trjám er plantað ætti bilið milli þeirra að vera að minnsta kosti tveir metrar, svo krónan fái notið sín. Best er að koma rúbínreyni fyrir á björtum stað í góðu skjóli. Sama á við um margar aðrar, líkar reynitegundir.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45