Fara í efni
Tré vikunnar

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

TRÉ VIKUNNAR - LXVI

Árið 1965 bjuggu foreldrar þess er þetta skrifar á Raufarhöfn. Það var hafísár. Í minningu þeirra var eins og hitinn þar færi aldrei yfir 10°C þótt það kunni að vera ýkjur. Óhætt er að fullyrða að garðrækt hafi ekki verið tiltakanlega áberandi á þeim tíma þar við ysta haf. Um sumarið áttu þau erindi til Akureyrar. Þá komu þau við í Lystigarðinum. Það var stund sem seint gleymist. Var virkilega hægt að rækta allan þennan fallega gróður á Íslandi? Eða var þetta draumur?

Sjálfsagt er upplifun margra af fyrstu heimsókn í Lystigarðinn lík þessari heimsókn þótt kuldinn árið 1965 hafi gert áhrifin enn meiri en við þekkjum núna. Að minnsta kosti reyndi móðir þess er þetta skrifar að koma sem oftast í garðinn eftir þetta „til að hlaða batteríin“ eins og sagt er. Heimsókn í garðinn er gefandi og nærandi. Þar gefst okkur tækifæri til að komast í snertingu við mikinn fjársjóð.

Þessi pistill fjallar um garðinn og hversu gott er að heimsækja hann.

Hér er alveg gráupplagt að taka sér rómantíska göngu með elskunni sinni. Takið eftir ljóskerunum og seríunum sem auka áhrifin. Mynd: Sig.A.

Umhverfi hinna fyrstu manna  

Tími jarðsögunnar og þróunar í heiminum er óralangur. Hann er svo langur að við eigum erfitt með að gera hann okkur í hugarlund. Í samanburði við jarðsöguna er þróunarsaga mannsins örstutt. Hún er samt margbrotin, flókin og í sífelldri endurskoðun eftir því sem fleiri kurl koma til grafar. Þessi saga getur hjálpað okkur að skilja okkur sjálf og þörf okkar fyrir tengingu við náttúruna og græn svæði. Það er ekki tilviljun að jógahópar skuli sækja í Lystigarðinn.
 
 

Eikartré í rjóðri. Að baki má sjá tré og runna. Mannshugurinn laðast að svona umhverfi. Þó að líf okkar hafi breyst mikið á síðustu árþúsundum hefur heilinn ekki uppfærst í samræmi við breytt umhverfi. Okkur líður betur í rjóðrum skóga en á götum stórborga. Mynd: Sig.A.

Talið er að aðskilnaður forfeðra simpansa og manna hafi orðið fyrir um 5-7 milljónum ára. Á mælikvarða þróunarsögunnar er þessi atburður ekki í mjög fjarlægri fortíð. Þetta er svipaður tími og rekbeltið á Reykjanesskaga hefur verið virkt.

Þessi sameiginlegi forfaðir okkar var skógardýr. Forfeður simpansanna héldu sig í trjánum en okkar forfeður fóru niður á jörðina og lærðu að ganga uppréttir. Enn í dag erum við mörkuð af þessari lífsreynslu áa okkar. Flestum okkar líður vel í skógum, enda þróuðumst við lengi í þeim og samkvæmt fróðlegri BA ritgerð sem Sigurrós Oddný Kjartansdóttir skrifaði árið 2013 er nú talið að fyrstu uppréttu forfeður okkar, sunnapar eða Australopithecus tegundir hafi verið skógardýr. Svo gerðist það að loftslagsbreytingar urðu til þess að skógar tóku að dragast saman og graslendi að aukast. Þessa vist lögðu forfeður okkar undir sig. Fyrstu tegundirnar af okkar ættkvísl, Homo spp. eru taldar hafa séð dagsljósið fyrst fyrir um 2 - 2,5 milljón árum síðan. Þessir forfeður okkar bjuggu á svæðum þar sem skógar og opin svæði skiptust á. Enn líður okkur vel í slíku umhverfi og við sækjum í það, hvort heldur sem það er náttúrulegt eða manngert.

Ef til vill er þetta meginástæða þess að rjóður eru svona mikilvæg í útivistarskógum. Frummaðurinn í okkur getur leitað skjóls í skóginum en einnig sótt opnu svæðin þegar þurfa þykir. Þetta er líka það umhverfi sem við sköpum í garðrækt. Við höfum grasflatir sem við skýlum með trjám og runnum.

 

Garðurinn skartar fögrum litum. Hér er horft út úr einskonar skóglendi yfir í rjóðrin sem við höfum svo lengi laðast að. Þar er skjól, friður, litir og blómaangan. Mynd: Sig.A. 

Við hjá Skógræktarfélaginu erum vel meðvituð um hversu mikilvægt þetta er og tökum mið að því í okkar skógarreitum. Við viðurkennum samt fúslega að sennilega er svona umhverfi hvergi eins vel heppnað í Eyjafirði og í Lystigarðinum. Þar skiptast á annars vegar fjölbreyttir trjálundir með allskonar runnum og hins vegar opin svæði. Falleg og forvitnileg blóm lífga svo upp á allt saman. Tjarnir og bekkir setja punktinn yfir I-ið. Þetta er umhverfi sem hæfimaðurinn, Homo habilis og reismaðurinn, H. erectus hefðu kunnað vel við og allir afkomendur þeirra, allt til vorra daga.

 
Vatn og vatnsniður hefur mikið aðdráttarafl fyrir alla aldurshópa. Nokkrar tjarnir eru í garðinum og þessi snotri gosbrunnur bætir við réttum hljóðum. Í garðinum má örva alla skynjun: Sjón, lykt, heyrn, snertingu og bragð. Myndir: Sig.A.

Maðurinn er margslungin lífvera og um margt óútreiknanleg. Það virðist samt vera þannig að í erfðamengi tegundarinnar er skráð að á svona stöðum sé gott að vera. Því miður hafa tengsl margra við græn svæði rofnað eftir að borgamyndun hófst. Því eru græn svæði innan bæjarmarka og í grennd þeirra mjög mikilvæg fyrir andlega jafnt sem líkamlega heilsu.

 

Í öllum ellefu reitum Skógræktarfélagsins má einnig hlaða batteríin þótt umhirðan sé ekki eins og í skrúðgörðum, enda eru skógar ekki skrúðgarðar. Þessi mynd er af lítilli tjörn í Kjarnaskógi. Mynd: Sig.A.

Vistþjónusta

Okkur hættir mörgum til að líta mjög þröngt á þjónustu náttúrunnar og ræktaðra svæða. Oft er bara horft á stöðuna út frá beinhörðum peningum og því sem gengur kaupum og sölu. Aðrir þættir sitja, því miður, oft á hakanum. Hvernig er hægt að meta það til peninga að geta gengið um fallegt umhverfi og notið blómailmsins, fuglanna og fegurðarinnar í amstri dagsins? Væri garðurinn eitthvað verðmætari ef krafist væri aðgangseyris?
 

Lystigarðurinn á Akureyri er athvarf frá skarkala lífsins sem um 190.000 manns heimsækja á hverju ári, samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum garðsins.

 

Samkvæmt teljara við hliðin á Lystigarðinum komu 191.988 gestir í garðinn árið 2023. Myndin sýnir hvernig heimsóknirnar dreifðust yfir árið. Flestir komu í garðinn þann 17. júní eða 3216 en þann 8. janúar komu aðeins 22 í garðinn. Mynd og upplýsingar: Travis Anthony Þrymur Heafield.

Samfélög manna eru umkringd náttúrunni og eru háð henni á margvíslegan hátt. Ofnýting vistkerfa skerðir þjónustuna og dregur úr velferð okkar. Vel skipulögð svæði innan og við bæjarmörkin geta því bætt lýðheilsu íbúanna og haldið við náttúruauðinum sem umhverfið bíður upp á. Tilvistargildi Lystigarðsins verður því seint ofmetið. Hann auðgar líf okkar og veitir okkur lífsgæði sem vert er að standa vörð um.

 

Fyrstu skrefin. Mynd: Sig.A.

Nútímamaðurinn eyðir nú mun minni tíma úti við heldur en forfeður okkar og því eru tengsl okkar við náttúruna að dvína. Á sama tíma hefur aldrei verið meiri þörf fyrir náttúrutengingu. Rannsóknum, sem benda á ávinning þess og mikilvægi að verja tíma í náttúrunni, hefur fleygt fram. Bendum við á nokkrar heimildir um slíkar rannsóknir í heimildaskrá.

Við þetta má bæta að lýsingin í garðinum spilar stóra rullu. Það er auðvitað dimmt stóran hluta ársins hjá okkur og því frábært að garðurinn skuli vera lýstur svo mikið upp sem raun ber vitni og göngustígar mokaðir svo hægt sé að njóta garðsins á öllum árstímum.

Tvær desembermyndir úr Lystigarðinum. Myndir: Sig.A.

Upphaf garðsins 

Árið 1910 var stofnað sérstakt félag í bænum. Hét það Lystigarðsfélagið og yfirlýst markmið félagsins var að stofna til Lystigarðs í bænum. Tveimur árum síðar var garðurinn formlega stofnaður. Um sögu hans má lesa í bókinni Konur gerðu garðinn, sem gefin var út í tilefni 100 ára afmæli Lystigarðsins árið 2012 (Ásta Camilla 2012). Garðurinn hefur verið stækkaður nokkrum sinnum frá opnun hans og er nú nálægt 3,7 hekturum að stærð og fjöldi tegunda, undirtegunda og yrkja sem finna má í garðinum er vel á áttunda þúsund (Ásta Camilla 2012).
 
 

Eitt af fjölmörgum, fögrum trjám í garðinum ásamt fallegum blómum og þægilegum grasflötum. Í fjarska sér yfir Pollinn í Vaðlaheiðina. Mynd: Sig.A.

Hlutverk 

Lystigarðurinn hefur margþætt hlutverk. Hann er skipulagður bæði sem grasagarður og skrúðgarður. Öll notkun hans verður að taka mið að því. Þess vegna hentar ekki að halda hvaða samkomur sem er í garðinum. Það þarf alltaf að gæta að því að garðurinn verði ekki fyrir tjóni. Viðburðir verða að vera þannig að þeir skemmi hvorki gróður né upplifun.
 
 

Algengt er að Akureyringar minnist stóru stundanna í lífi sínu með heimsókn í Lystigarðinn. Hér eru það brúðhjónin Elva Gunnlaugsdóttir og Kristján Sturluson ásamt bræðrunum Bjarma og Mána Kristjánssonum. Þau létu ekki rigningu stoppa brúðkaupsmyndatöku í garðinum. Myndina tók Daníel Starrason og er hún birt hér með leyfi brúðhjónanna.

Oft hefur það vakið furðu margra að ekki skuli vera fleiri grasafræðingar sem starfa í garðinum. Það er með hreinum ólíkindum hversu vel þeim hefur tekist að halda við þessu safni lifandi plöntutegunda sem raðað er upp af smekkvísi eftir skyldleika tegunda. Það auðveldar áhugasömum að afla sér grasafræðilegrar þekkingar og öllum almenningi að njóta.

 

Eitt af glæsilegustu trjám Akureyrar er þessi alaskaösp 'Randi'. Um hana höfum við skrifað áður. Mynd: Sig.A.

Garðurinn hefur einnig hagnýtt hlutverk. Þar er hægt að reyna ýmsar tegundir og yrki til að komast að því hvað þrífst vel og hvað gengur ekki hér norður undir heimskautsbaug. Í þessum tilgangi stunda starfsmenn garðsins fræskipti við grasagarða um allan heim.

Í garðinum eru þó ekki eingöngu garðplöntur. Þar eru einnig til sýnis stór hluti íslensku flórunnar.

Garðurinn er lifandi plöntusafn og í honum eru ræktaðar garðplöntur og villtar plöntur frá öllum heimsálfum. Eins og gefur að skilja er slíkt safn mjög viðkvæmt og mikilvægt að ganga vel um garðinn og forðast eins og hægt er að valda tjóni. Þegar þetta er haft í huga er auðvelt að skilja af hverju ekki er ætlast til að stundaðir séu boltaleikir, hjólreiðar eða annað það sem skaðað gæti viðkvæmar plöntur eða truflað upplifun gesta. Vel má vera að við skrifum annan pistil um hinn grasafræðilega tilgang garðsins.

Hægt er að fá sér hressingu á Kaffi Lyst eða taka með sér nesti. Framan við kaffihúsið er grasflöt sem stundum er nýtt undir ýmsa viðburði. Myndir: Sig.A.
 

Mömmur og möffins er einn af þeim viðburðum sem haldnir hafa verið í garðinum. Myndin fengin héðan.

Almenningur

Allur almenningur hefur aðgang að garðinum og hann er mjög vel sóttur. Garðurinn er auðvitað grasagarður þannig að mörg fara í garðinn til að skoða gróður, bæta við sig þekkingu, fá hugmyndir og auðvelda sér skipulag eigin garða. Í þessu sambandi má nefna að í mjög mörgum pistlum Skógræktarfélagsins um tré má sjá myndir úr Lystigarðinum.
 

Aðrir fara um garðinn til að njóta kyrrðarinnar og fegurðarinnar. Losna við stress og anda að sér fersku lofti. Þarna er hægt að setjast inn á kaffihús eða taka með sér nesti. Stundum eru viðburðir í garðinum sem er af hinu góða svo framarlega sem þeir valda ekki tjóni á garðinum eða skerða upplifun þeirra sem sækja garðinn. Hefðbundnar útihátíðir eiga varla heima þarna. Viðburðir í garðinum verða að taka mið af fjölbreyttu hlutverki garðsins.

Tvær vetrarmyndir af reynigöngum í garðinum. Myndir: Sig.A. 

Ferðamenn sækja mikið í garðinn, enda sýnir þessi garður bæði Íslendingum og erlendum gestum hvað hægt er að gera á norðurslóðum. Að auki fá gestir tækifæri til að skoða sýnishorn hinnar íslensku flóru.

Fjögur línurit sem sýna fjölda farþega á skemmtiferðaskipum í Akureyrarhöfn borið saman við fjölda þeirra sem heimsækja garðinn í maí, júní, júlí og ágúst árið 2023. Þegar skemmtiferðaskip eru í höfn eykst fjöldi gesta í garðinum. Myndir: Travis Anthony Þrymur Heafield.

Starfsmenn garðsins halda einnig úti fróðlegri heimasíðu þar sem hægt er að fá upplýsingar um ótrúlegan fjölda tegunda, afbrigða og yrkja. Á heimasíðunni er hægt að leita eftir plöntum, bæði á íslensku og latínu. Kosturinn við að geta skoðað plöntulista á latínu er meðal annars sá að þannig er hægt að fá yfirlit yfir plöntur sem tilheyra sömu ættkvísl. Plöntunum er skipt í tvo hópa á síðunni. Annars vegar garðplöntur, hins vegar flóru Íslands. Tilgangur þessarar heimasíðu er meðal annars sá að koma þeirri reynslu, sem fæst í garðinum, til almennings. Við hjá Skógræktarfélaginu leitum iðulega á þessari síðu okkur til fróðleiks og upplýsinga. Á henni má sjá fjöldann allan af frábærum myndum sem Björgvin Steindórsson á mestan heiður af. Hann var forstöðumaður garðsins, frá 1997 og þar til hann lést, aðeins 61 árs að aldri árið 2016.
 
 

Silkitoppa gæðir sér á epli í snjókomu í Lystigarðinum þann 13. mars 2024. Mynd: Emma Huld Steinarsdóttir.

Sjúkrahúsið 

Nálægð garðsins við sjúkrahúsið skiptir miklu máli. Sá sem þetta ritar þurfti eitt sinn að dveljast nokkra daga á lyflækningadeild spítalans. Þegar hann fór að hressast aðeins gat hann farið út til að hreyfa sig lítillega. Þá var Lystigarðurinn alveg kjörinn. Þar er margt að skoða og hægt að rölta um í rólegheitunum og tylla sér á bekki eða í grasið þegar þreytan sækir að. Fjölmörg dæmi eru um fólk sem nýtt hefur sér þessa vistþjónustu. Konur, sem þurft hafa að dvelja lengi á fæðingardeildinni, sækja mikið í garðinn. Einnig fólk sem á erfitt með gang, fólk sem tekst á við andleg veikindi og svo mætti lengi telja. Það hjálpar að almennt er gengið rólega um garðinn og ekki asi á neinum manni.
 

Erlendar rannsóknir (sjá nokkrar heimildir í heimildaskrá) hafa sýnt fram á að manngert grænt eða náttúrulegt umhverfi sjúkrahúsa getur beinlínis flýtt fyrir bata sjúklinga og dregið úr þörf og notkun á verkjalyfjum. Þetta er eitt af því sem kom fram í sjónvarpsþættinum Náttúruáhrif eða The Nature Effect sem frumsýndur var á RÚV þann 20. febrúar 2024. Við getum nefnt fleiri dæmi. Í þessari tímaritsgrein er sagt frá því að svona umhverfi getur dregið úr stressi og bætt tilfinningalegt ástand og geðheilsu til dæmis með því að draga bæði úr þunglyndi og kvíða. Það getur aukið heilastarfsemi og vitsmunalega virkni, lækkað blóðþrýsting, bætt ónæmiskerfið, flýtt fyrir bata eftir aðgerðir og svo mætti áfram telja (Paul B. Tchounwou (ritstj.) 2021).

Tvær vetrarmyndir úr Lystigarðinum. Bekkurinn á seinni myndinni var smíðaður af Helga Þórssyni frá Kristnesi og færður garðinum að gjöf í tilefni 100 ára afmælis garðsins af Garðyrkjufélagi Akureyrar.
Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar
 
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00