Fara í efni
Tré vikunnar

Korkeik

TRÉ VIKUNNAR -   LXXXIV

Hinir nýútskrifuðu stúdentar úr Flensborg höfðu ákveðið að fara í að minnsta kosti eina skipulagða skoðunarferð í stað þess að flatmaga alla daga á ströndinni í Algarve eftir djamm næturinnar. Þeir sátu spakir og þunnir í illa loftræstri rútunni. Nýstúdentarnir voru flestir í meira lagi litaglaðir í klæðaburði. Flestir strákarnir voru með sítt að aftan eins og allir alvöru töffarar þarna á 9. áratugnum en stelpurnar voru margar með „varanlegt“ í hárinu. Leiðsögumaðurinn sagði frá því helsta sem fyrir augu bar og þreyttist ekki á að segja hvað Portúgalir væru frábærir á allan hátt. Þeir framleiddu bestu appelsínurnar, grilluðu bestu sardínurnar og áttu frægustu landkönnuði sögunnar. Allt þetta bar hann saman við Spánverjana sem að mati leiðsögumannsins stóðu Portúgölum langt að baki á öllum sviðum. Svo kom rúsínan í pylsuendanum. Hann benti á þessi undarlegu eikartré sem stóðu í skipulögðum röðum og sagði að ekki væri nóg með að Portúgalir framleiddu meiri og betri kork en Spánverjar heldur væru þeir stærstu korkframleiðendur í heimi. Fátt virtist fylla leiðsögumanninn meira stolti en korkframleiðslan í landi hans.

 

Glæsilegir Flensborgarar í útskriftarferð í Portúgal að hugsa um eitthvað allt annað en tré. Mynd úr eigu Páls Poulsen.

Það var þá sem flestir nýstúdentarnir óskuðu sér þess að hafa bara farið á ströndina eins og alla hina dagana í þessari þriggja vikna ferð. Flestum voru þessar staðreyndir gleymdar þegar fyrstu korktapparnir voru dregnir úr flöskum kvöldsins. Þetta voru fyrstu kynni undirritaðs af korkeik, Quercus suber L., sem er tré vikunnar.

 

Korktappar. Myndin fengin frá hlaðvarpsþættinum My favorite trees sem er helsta heimild þessa pistils.

Úti í hinum stóra heimi eru allskonar tré. Sum þeirra eru ræktuð í stórum stíl. Oftast er það annað hvort til matar, svo sem eplatré og ólífur, eða til viðarframleiðslu, eins og greni og fura. Einnig þekkist að tré séu ræktuð til skjóls og fegurðarauka. Ekkert af þessu á við um korkeikurnar, þótt þau veiti skjól og viðurinn sé nýttur þegar trén eru felld. Þær eru samt ræktaðar á heilu ökrunum. Ástæðan er fyrst og fremst innra lag barkarins. Rétt er að halda því til haga að til eru fleiri tegundir trjáa sem fyrst og fremst eru ræktuð vegna barkarins. Má nefna kanill, Cinnamomum spp. sem dæmi. Um það tré munum við fjalla þegar nær dregur jólum. Svo lengi sem þurft hefur að loka vínflöskum hefur korkur komið sér vel. En gildi korksins fyrir þarfir fólksins er umtalsvert meira en bara það. Að auki skiptir korkeikin miklu máli í þeim vistkerfum þar sem hana er að finna.

 

Horft upp í krónu á barkarflettri korkeik. Myndina á Marilisa Crespo og birti á Facebooksíðunni Unique Trees. 

Ættfræði

Eikartré, Quercus spp., tilheyra beykiætt, Fagaceae. Korkeikin, Q. suber, er ein af um 450 til 500 tegundum af eikartrjám sem til eru í heiminum. Fjölbreyttastar eru þær í Kína, Mexíkó og Bandaríkjunum. Oft er eikum skipt í hópa eftir skyldleika en korkeikin myndar þá alveg sérstakan hóp. Engar aðrar núlifandi eikur eru taldar náskyldar henni nema ef vera skyldi kínakorkeik, Q. variabilis. Hún myndar áþekkan kork sem nýttur er á svipaðan hátt.


Korkeik í Portúgal. Mynd: Guðrún Eggertsdóttir.
 

Heimkynni

Korkeikin vex við Miðjarðarhafið vestanvert og myndar mikla skóga á Spáni og í Portúgal en einnig í Marokkó, Alsír og Túnis. Hún á sér einnig heimkynni um sunnanvert Frakkland og vestan- og sunnanverða Ítalíu. Austar en það vaxa korkeikur ekki villtar. Þær eru ræktaðar utan þessa svæðis þar sem loftslag er áþekkt, meðal annars í Kaliforníu og Virginíu í Bandaríkjunum.

Villt tré geta orðið allt að 30 metrar á hæð en í ræktun eru þau að jafnaði töluvert lægri. Mest er ræktunin í Portúgal eins og leiðsögumaðurinn sagði. Helmingur heimsframleiðslunnar á korki kemur þaðan.

 

Útbreiðsla korkeikarinnar samkvæmt norskri Wikipediusíðu. Sýnt er með grænum lit hvar hana er að finna. Krossarnir sýna hvar hún hefur náð að sá sér út frá ræktun og telst vera ílendur slæðingur.

Vist

Korkeikur eru megintré þeirra vistkerfa sem þær lifa í. Á heimaslóðum þeirra eru skógareldar tíðir og öll tré sem vaxa á þeim slóðum þurfa að taka mið af þeim á einhvern hátt. Sum, eins og ólífutrén, vaxa auðveldlega frá rótum þegar stofnarnir brenna. Önnur treysta á að fræ þeirra spíri í hlýrri öskunni og tryggi næstu kynslóð ný tækifæri. Þannig haga til dæmis sumar furur sér á þessum slóðum. Stöku tegundir mynda einangrandi lag sem ver stofninn fyrir skógareldum og þar stendur korkeikin fremst meðal jafningja við Miðjarðarhafið. Eikin myndar lag undir berkinum úr vel einangrandi og illbrennanlegum vef sem við köllum kork. Þannig þolir hún flestum trjám betur þá skógarelda sem eiga það til að brenna á heimaslóðum þeirra. Sennilega á þetta stóran þátt í því að mynda korkeikarskógavistkerfin sem eru mest áberandi í Portúgal og um vestanverðan Spán. Eikurnar standa betur af sér skógareldana en flest önnur tré á þeirra heimaslóðum.

 
Tvær myndir af korkeik í grasagarðinum í Wellington á Nýja-Sjálandi. Það er mjög langt frá náttúrulegum heimkynnum tegundarinnar. Myndirnar tók Meta Assink og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

Fjölmargar tegundir dýra þrífast vel í þessum fjölbreyttu skógum. Thomas Spade (2022) segir að 95% tegunda landspendýra í Portúgal eigi heimkynni sín í korkeikarskógum. Frægust þeirra er sennilega gaupan sem er topprándýr sinna vistkerfa. Þau gleðilegu tíðindi bárust árið 2003 frá IUCN að stofnar gaupunnar fari nú vaxandi á Íberíuskaga. Þar sem korkeikur eru ræktaðar líður langur tími á milli þess að afurðir þeirra séu hirtar. Það gerir það að verkum að villt dýr hafa það nokkuð gott í þessum skógum. Að auki framleiða korkeikur akorn sem nýtast ýmsum dýrum sem fæða.

 
 

Gaupur, Lynx pardinus, eru fátíðar á okkar tímum á Íberíuskaga. Helst er að finna þær í villtum korkeikarskógum. Myndin fengin héðan.

Lauf

Korkeikin er sígrænt tré. Eins og fleiri tré sem vaxa við svipaðar aðstæður þarf hún að hafa fyrir því að halda í það vatn sem í boði er. Þróunin hefur skilað þeim svipaðri lausn á þessum vanda og finna má hjá mörgum öðrum tegundum trjáa. Má þar nefna ólífutré sem við höfum áður fjallað um. Laufin eru leðurkennd, þykk og hærð á neðra borði. Allt hjálpar það til við að draga úr vatnstapi sem óhjákvæmilega fylgir ljóstillífun. Þrátt fyrir að eikur séu sígrænar þá taka þær sér vaxtarhlé yfir vetrarmánuðina. Einhverra hluta vegna hanga laufin þá aðgerðarlaus á trjánum og bíða síns tíma. Tréð þarf þá ekki að endurnýja öll laufin á hverju ári.

 
 

Laufblöðin á korkeik eru ólík þeim eikarlaufum sem flestir þekkja, enda eru tegundirnar nokkuð fjarskyldar. Neðra borð laufanna er mikið hært sem gefur þennan gráa lit. Efra borðið er minna hært. Myndin fengin af þessari Wikipediusíðu en hana á IKAl.

Akorn

Þau aldin sem eikur framleiða kallast akorn. Eins og margar aðrar eikur myndar korkeikin mikið af þeim. Það tekur hvert akorn tvö ár að ná fullum þroska hjá þessari tegund. Þau þykja bitur á bragðið en skipta vistkerfin miklu máli. Fjölmörg dýr treysta á akornin sem fæðu. Á það bæði við um villt dýr og húsdýr við vestanvert Miðjarðarhafið. Áður en akornin myndast þarf eikin að blómstra og myndar þá grænleita rekla sem vekja ekki mikla athygli. Hvert tré er tvíkynja og myndar bæði karl- og kvenblóm eins og aðrar eikur. Vindurinn sér um að bera frjó á milli blóma. Bændur, sem eiga akra af korkeikum, halda gjarnan sínum svörtu svínum á beit í skógarbotninum þegar akornin fara að falla af trjánum. Þau eru heilmikil veislufæða í augum svartra svína.

 
 

Akorn korkeikarinnar sver sig í ættina. Myndin fengin af norskri Wikipediusíðu.

Börkurinn

Á þeim svæðum sem korkeikur vaxa villtar eru skógareldar leiðinlega algengir eins og að framan greinir. Trén þurfa að bregðast við því á einhvern hátt. Korkeikur gera það með því að mynda einangrandi lag á milli ysta hluta barkarins og viðarins sem tréð myndar. Lagið verndar líka gegn þurrum vindum sem geta borið með sér sand og skemmt börk trjáa. Það er þetta lag sem við köllum kork. Lag þetta er úr dauðum frumum og undir því er annað lag þar sem æðar trésins vaxa. Á latínu kallast það suber og þess vegna heitir eikin Quercus suber á fræðimálinu. Orðið suber er upphaflega komið úr grísku.

 
 

Smámunir og minjagripir (til vinstri) og töskur (til hægri) úr korki. Víða í Portúgal má kaupa vörur úr þessu merkilega efni. Mynd: Sig.A.

Orðið korkur er væntanlega komið úr latínu þar sem cortex merkir börkur. Orðið hefur ratað, lítið breytt, í mörg tungumál. Á ensku er talað um cork og á þýsku um Kork. Á spænsku er talað um alcornoque sem nafn á trénu í heild. Allt er þetta sprottið af sömu rót eða öllu heldur berki. Ef ekki væri fyrir börkinn væru þessi tré varla mikið ræktuð. Það er fyrst og fremst hann sem er nýttur af trénu. Rétt er að geta þess að nær öll tré mynda einhvers konar korkfrumur í berki sínum. Sum hafa bara meira af þeim en önnur. Tré sem þurfa að glíma við skógarelda hafa venjulega hvað mest af þessum frumum. Má nefna baobab sem dæmi en um það undarlega tré höfum við áður fjallað.

 
 

Nýbarkarflettar korkeikur veita kærkominn skugga í sólskini í Suður-Portúgal. Myndina tók Nicolaas C M Rood og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

Eiginleikar

Korkur er ákaflega létt efni og flýtur auðveldlega á vatni eins og þekkt er. En það gera fleiri afurðir trjáa. Hvað gerir hann þá svona merkilegan? Fyrir það fyrsta er korkur mjög teygjanlegur. Það má pressa hann þannig að hann dragist saman um heil 50% án þess að hann tapi eiginleikum sínum. Svo þenst hann út aftur eins og ekkert sé eðlilegra. Þess vegna er svo heppilegt að troða honum í flöskustúta og svo strembið að gera það aftur, þegar hann er kominn úr flöskunni. Ástæða þessa eru lofthólfin sem í korkinum eru.

Tvær myndir af vinnslu korks. Myndirnar fengnar úr þessari grein sem segir frá vinnslunni.

Það hversu sveigjanlegur og þolinn börkurinn er, ásamt því að vera svona léttur, gerir það að verkum að auðvelt og ódýrt er að flytja hann langar leiðir og þægilegt að vinna með efnið. Eykur það mjög á vinsældir eikarinnar. Korkurinn er að auki sérstaklega einangrandi, enda loftfyllt hólf í honum. Hann heldur ekki bara víni í flöskum og lofttegundum utan hennar (eða í vökvanum eins og í freyðivínum) heldur einangrar hann vel gegn hljóði og hita. Á mjög mörgum íslenskum heimilum er til korkur sem notaður er undir heita potta og þess háttar vegna þess hve hann einangrar vel og er eldtraustur.

 

Hattur og tvö belti úr korki. Tilvalið fyrir veganfólk. Mynd: Sig.A.

Að auki er korkur endingargóður þannig að hann getur gegnt hlutverki sínu með prýði og þolað töluvert álag. Þessir eiginleikar nýtast vel þegar hann er notaður í mjúka skósóla og sem gólfefni. Gólfefnin eru bæði endingargóð og hljóð- og hitaeinangrandi. Að lokum skal það nefnt að hin loftfylltu hólf gera korkinn gljúpan. Því er auðvelt að stinga í hann prjónum og teiknibólum og því tilvalið að búa til úr honum korktöflur sem hægt er að hengja á allskonar miða og dót.

 

Tilraun til að útskýra helstu eiginleika korks úr þessari fræðigrein þar sem lesa má nánar um myndina.

Nýting

Þegar korkurinn á trénu hefur náð því að verða að minnsta kosti 3,5 cm þykkur er byrjað að nýta hann. Ekki ber heimildum saman um hvað það tekur langan tíma fyrir tréð að mynda svona þykkan börk. Sumar segja að það gerist fyrst þegar eikin er orðin 9 ára gömul, aðrar heimildir segja að fyrsta vinnslan fari fram þegar tréð er orðið 25 ára.

Korkinum er einfaldlega flett af stofni og neðst af stórum greinum. Ytri börkurinn er oftast fjarlægður fyrst (eða í lokin) með höndunum og síðan er innri berkinum flett af í stórum flekum. Hér má sjá myndband af því þegar berkinum er flett af. Uppskeran fer fram á tímabilinu maí til ágúst. Stofninn er þá merktur með tveimur síðustu tölustöfum þess árs sem korkinum er safnað. Þessar merkingar má víða sjá og er ætlað að hindra ofnýtingu. Það sem er svo merkilegt við þessa vinnslu er að þetta drepur ekki trén eins og ætla mætti. Innan við korklagið er sérstakt lag þar sem æðar trésins vaxa og flytja vatn og næringu um tréð. Börkurinn vex einfaldlega aftur á tréð án þess að það verði fyrir skaða.

 

Öldum saman hefur korkur verið nýttur í skósóla enda mjúkur undir hæl og að auki vatnsheldur. Hér er þó gengið lengra en vanalega. Allur skórinn er úr korki. Myndin fengin héðan.

Tréð er síðan barkflett á 10 ára fresti. Það verður líka að teljast merkilegt að þegar börkurinn vex aftur á tréð er hann ekki eins og áður. Eiginleikarnir breytast. Þannig er talið að börkurinn á yngri trjám sé ekki eins góður og á eldri trjám. Það er ekki fyrr en tréð er barkarflett í þriðja skiptið sem uppskeran telst hágæða vara. Börkurinn á yngri trjánum er harðari og ekki eins sveigjanlegur. Því er sá korkur frekar nýttur í gólfefni, korktöflur og sem einangrun. Börkur af eldri trjám er frekar notaður í tappa og í vandað handverk.

Umhverfisvænar jógadýnur úr korki. Það kemur sér einnig vel að korkurinn er stamur og því hentugt að gera allskonar æfingar á honum. Myndirnar fengnar úr þessari grein á mbl.is sem ber heitið Korkurinn er það sem koma skal. Ekki kemur fram hver er rétthafi myndanna.

Algengt er að börkur sé hirtur 12 sinnum af sama trénu en stundum er það gert oftar. Korkeikur geta sem best orðið um 200 ára gamlar en stundum gerist það að smám saman dregur úr endurnýjunarkraftinum. Það er þó ekki algilt. Spade (2022) segir að vitað sé um eitt tré í Suður-Portúgal sem er 240 ára gamalt og hefur verið barkarflett 20 sinnum. Þetta tré er enn í fullu fjöri og árið 1991 gaf það af sér 1200 kíló af korki. Þetta er meira magn en flestar korkeikur gefa af sér alla sína æfi (Spade 2022). Rétt er að minna á að korkur er létt efni. Það setur töluna 1200 kíló í nýtt samhengi.

 

Í þorpinu Águas de Moura í Palmela í Portúgal stendur þessi rúmlega 200 ára gamla korkeik. Hún hefur sérnafnið Assobiador. Því hefur verið haldið fram að þetta sé elsta korkeik í heimi. Myndina tók Luisa Antonina Calado og birti hana á Facebooksíðunni Unique Trees.

Eiginleikar korksins urðu snemma lýðnum ljósir. Hann hefur verið nýttur í þúsundir ára. Einhverskonar korkur hefur fundist í fornleifum í Egyptalandi, Persíu og jafnvel austur í Kína. Sá korkur er þó af öðrum tegundum sem þróast hafa á svipaðan hátt. Spade (2022) segir frá því að elstu þekkta dæmið um notkun á korki sé flotholt sem fiskveiðimenn nýttu sér fyrir um 5000 árum síðan.

 

Korkur sem einangrun á húsi í Portúgal. Áður fyrr var algengt að einangra útveggi íslenskra húsa með korki. Þó er sá munur á að íslensku húsin voru einangruð innan frá. Korkurinn sem hér var nýttur var oftast bikaður og lítur út fyrir að hafa verið pressaður saman úr einhverjum korkögnum sem límdar voru saman. Nú hafa önnur efni leyst hann af hólmi hér á landi. Myndina tók Madalena Sá og birti hana á Facebooksíðunni Unique Trees ásamt fleiri myndum.

Viður

Almennt er viður eikartrjáa eftirsóttur. Þegar fer að draga úr korkframleiðslu einstakra trjáa eru þau endurnýjuð en viður hinna gömlu trjáa er verðmætur og góður smíðaviður. Þótt korkeikur séu ekki ræktaðar til viðarframleiðslu verður það oft hið endanlega hlutverk þeirra að vera nýttar á þann hátt. Þá varðveitist kolefnið, sem eikin vann úr andrúmsloftinu með ljóstillífun, svo lengi sem viðurinn heldur velli.

 

Þverskurður af korkeikarstofni. Myndin fengin úr þessari grein. 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum, en pistill dagsins er birtur í heild.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Tré og upphaf akuryrkju í heiminum

Sigurður Arnarson skrifar
16. október 2024 | kl. 09:09